Mál nr. 2/2001
Álit kærunefndar jafnréttismála
í máli nr. 2/2001:
A
gegn
Landspítala-Háskólasjúkrahúsi
--------------------------------------------------------------
Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 25. mars 2002 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:
I
Inngangur
Með bréfi dags. 7. júní 2001, sem barst kærunefnd jafnréttismála 8. júní 2001, óskaði kærandi, A, eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort mismunandi launagreiðslur til kæranda og forvera hennar í starfi, hjá Landspítala-Háskólasjúkrahúsi, brjóti gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.
Kæruefnið lýtur að tímabilinu 15. ágúst 2000 til 30. júní 2001.
Kæran var kynnt kærða með bréfi, dags. 22. júní 2001. Var með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 96/2000 óskað eftir upplýsingum um fjölda og kyn allra þeirra sem starfa sem sálfræðingar hjá Barna- og unglingageðdeild hjá Landspítala-Háskólasjúkrahúsi (BUGL), svo og hvaða viðmið hafi verið höfð til hliðsjónar þegar sálfræðingum var raðað í launaflokka.
Með bréfi B hdl. f.h. Landspítala-Háskólasjúkrahúss, dags. 28. september 2001, bárust svör við framangreindum fyrirspurnum.
Með bréfi, dags. 11. október 2001, var kæranda kynnt umsögn Landspítala-Háskólasjúkrahúss og óskað eftir frekari athugasemdum kæranda. Sú umsögn var veitt með bréfi, dags. 27. október 2001.
Með bréfi, dags. 9. nóvember 2001, var kærða enn gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdir sem hann gerði með bréfi, dags. 4. desember 2001.
Með bréfi, dags. 7. desember 2001, var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við síðastnefnt bréf kærða sem gert var með bréfi, dags. 17. desember 2001.
Á fundi kærunefndar 18. janúar 2002 var ákveðið að óska eftir nánari skýringum hjá Landspítala-Háskólasjúkrahúsi á forsendum launaákvörðunar forvera kæranda í starfi því sem um ræðir auk þess sem viðkomandi var gefinn kostur á að tjá sig um erindi kæranda, dags. 17. desember 2001.
Svar B f.h. Landspítala-Háskólasjúkrahúss við fyrirspurnum um nánari skýringar á launaákvörðun forvera kæranda barst með bréfi, dags. 6. febrúar 2002. Í svari hans kom fram ítrekun á fyrri sjónarmiðum. Afrit af erindi þessu var sent kæranda.
Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.
II
Málavextir
Kærandi hóf störf 15. ágúst 2000 sem sálfræðingur hjá BUGL. Kærandi hefur bæði masters- og doktorsgráðu í klínískri barnasálfræði.
Kærandi telur að hún eigi rétt á leiðréttingu launa á tímabilinu frá því að hún var ráðinn til starfa hjá BUGL hinn 15. ágúst 2000 og þar til nýr kjarasamningur tók gildi, kjarasamningur Stéttarfélags sálfræðinga á Íslandi og ríkisspítala tók gildi 1. júlí 2001. Telur kærandi sig hafa fengið lægri laun en forveri sinn í starfi sem var karl, þrátt fyrir að um sambærilegt starf var að ræða og að hún hafi haft meiri menntun. Henni hafi verið raðað í launaflokk P en forvera hennar hafi verið raðað í launaflokk R. Af hálfu kærða er á það bent að ákvörðun launakjara forvera kæranda í umræddu starfi hafi átt rætur að rekja til skipulagsbreytinga sem urðu við sameiningu Sjúkrahúss Reykjavíkur og Landspítala en eigi ekki rætur að rekja til mismunandi kynferðis.
III
Sjónarmið kæranda
Í bréfi kæranda, dags. 7. júní 2001, kemur fram að kærandi telji að yfirmenn hjá kærða hafi haldið því fram að tilefni að ráðningu hennar í starf yrði sérmenntun hennar og þjálfun í klínískri barnasálfræði metin til hækkunar launa, en hún hefur bæði masters- og doktorsgráðu í klínískri barnasálfræði og hefur auk þess verið við þjálfun og störf hjá virtum heilbrigðisstofnunum í Bandaríkjunum sl. 5 ár.
Kærandi kveður þáverandi yfirmann sinn hafa óskað eftir því við forstöðumann skrifstofu starfsmannamála að launaflokkaröðun kæranda yrði lagfærð með hliðsjón af því að hún gegndi starfi sem áður fylgdu hærri laun, þrátt fyrir að forveri hennar hafi haft minni menntun. Kærandi kveður svar hafa borist rúmum fjórum mánuðum síðar, þar sem fram hafi komið að sá starfsmaður sem verið hefði í starfi því sem kærandi tók við sé undantekningartilvik og því hafi viðeigandi röðunarreglunum ekki verið beitt í hans tilviki.
Eftir framangreind svör kveðst kærandi hafa óskað eftir aðstoð Stéttarfélags sálfræðinga á Íslandi sem bar málið fram á fundi samstarfsnefndar Stéttarfélags sálfræðinga og kærða þann 12. mars 2001. Á þeim fundi hafi fulltrúar Landspítala-Háskólasjúkrahúss óskað eftir fresti til að kynna sér málið nánar. Síðan hafi verið haldnir a.m.k. þrír fundir hjá samstarfsnefndinni og ekki hafi verið óskað eftir frekari upplýsingum hjá kæranda eða yfirmönnum hennar. Kærandi kveðst hafa ritað bréf til fulltrúa Landspítala-Háskólasjúkrahúss í samstarfsnefnd þann 16. maí sl., en svör hafa ekki borist.
Kærandi kveður ljóst vera að hún hafi á umræddum tíma, þ.e. 15. ágúst 2000 til 30. júní 2001, þegið lægri laun en forveri hennar fyrir sömu störf, þrátt fyrir meiri menntun. Enginn rök hafi verið færð fram fyrir þessum mun.
Kærandi telur sig hafa átt að raðast í launaflokk S og að auk hafi hún átt rétt á hækkun tveggja launaflokka vegna doktorsprófs og flokkast samkvæmt því í T.
IV
Sjónarmið kærða
Í bréfi Landspítala-Háskólasjúkrahúss, dags. 28. september 2001, var á því byggt að röðun sálfræðinga í launaflokka hafi grundvallast á fyrirliggjandi kjarasamningi svo og á úrskurðum úrskurðarnefnda Stéttarfélags sálfræðinga á Íslandi og Ríkisspítala/Sjúkrahúss Reykjavíkur frá 14. og 30. september 1998. Í nefndum úrskurðum komi fram lágmarksröðun hlutaðeigandi starfsheita og hafi sú röðun verið lögð til grundvallar. Til viðbótar nefndri lágmarksröðun hafi verið bætt við launaflokkum vegna doktornáms, viðbótarmenntunar og sérfræðingsleyfis.
Kærði telur ótvírætt að starfi kæranda hafi verið raðað í launaflokk í samræmi við önnur sambærileg störf og í samræmi við kjarasamning og úrskurði úrskurðarnefndar. Kærði fellst ekki á að kæranda hafi við ráðningu verið gefnar væntingar um aðra og hærri launaflokkaröðun en raunverulega fylgdu því starfi sem hún var ráðin til að gegna.
Kærði kvað röðun forvera kæranda í starfi vera til komna vegna þeirrar ákvörðunar að flytja starfsemi Kleifarvegsheimilisins frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur til Ríkisspítala, en við það hafi verið gerðar breytingar á hans starfi. Hjá Kleifarvegsheimilinu hafi honum verið raðað í hærri launaflokk en gert var í því starfi sem hann tók við hjá BUGL. Þannig hafi hann notið sambærilegra launa í því starfi sem hann tók við og hann hafði haft fyrir umræddar skipulagsbreytingar. Sú almenna regla hafi gilt við skipulagsbreytingar hjá sjúkrahúsinu og/eða í tengslum við sameiningu Ríkisspítala/Sjúkrahúss Reykjavíkur, að starfsfólk yrði fyrir sem minnstri röskun við breytingarnar, m.a. með því að tryggja þeim sambærileg laun. Þessu til rökstuðnings vísar kærði til samnings fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og borgarstjórans í Reykjavík, dags. 17. desember 1998.
Kærði kveður því mun þann sem var á launum kæranda og forvera hans ekki hafa byggst á mismunandi kynferði.
V
Niðurstaða
Það er álit kærunefndar jafnréttismála að tilgangur laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnun tækifæra kvenna og karla. Í því skyni þurfi að bæta sérstaklega stöðu kvenna og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.
Fyrir liggur í máli þessu að kærandi sættir sig við launaflokkaröðun þá sem felst í kjarasamningi sálfræðinga á Íslandi og Landspítala-Háskólasjúkrahúss sem gildi tók hinn 1. júlí 2001, en þá voru gerðar breytingar á launaflokkun sálfræðinga.
Kærandi hefur hins vegar óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála fjalli um og taki afstöðu til þess hvort mismunandi launagreiðslur til kæranda og forvera hennar í starfi frá því að hún hóf störf á BUGL hinn 15. ágúst 2000 og fram til þess tíma er áðurnefndur kjarasamningur tók gildi þ.e. 30. júní 2001, brjóti gegn ákvæðum laga nr. 96/2000.
Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, skal konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda greidd sömu laun og skulu njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærilega störf. Með jöfnum launum, sbr. 3. mgr. 14. gr., er átt við að laun skuli ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla og að þau viðmið sem lögð eru til grundvallar feli ekki í sér kynjamismunun.
Samkvæmt 23. gr. laga nr. 96/2000 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki sínu í launum og öðrum kjörum á grundvelli kynferðis þess. Ef leiddar eru líkur að mismunun skal atvinnurekandi sýna fram á að hann skýrist af öðrum þáttum en kynferði.
Ef leiddar eru líkur að því að atvinnurekandi hafi mismunað starfsfólki á grundvelli kynferðis m.a. við ráðningu, setningu eða skipun í starf, stöðuhækkun, stöðubreytingar, skal atvinnurekandi sýna fram á að sá munur skýrist af öðrum þáttum en kynferði, sbr. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000.
Af hálfu Landspítala-Háskólasjúkrahúss hefur verið upplýst að forveri kæranda í starfi hafi áður starfað hjá Kleifarvegsheimilinu en heimilið var rekið sem hluti af Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Þar gegndi hann starfi staðgengils forstöðumanns heimilisins og fékk laun sem slíkur. Með vísan til framangreinds samnings ríkisins og Reykjavíkurborgar frá 17. desember 1998 um sameiningu sjúkrahúsa, þykir sannað að einhliða hafi verið gerð breyting á starfi forvera kæranda þegar Landspítali-Háskólasjúkrahús tók yfir rekstur Kleifarvegsheimilisins. Samkvæmt almennum reglum vinnuréttar gátu skipulagsbreytingar þessar að óbreyttu ekki leitt til lakari kjara hjá forvera kæranda en hann naut í fyrra starfi.
Það er álit kærunefndar jafnréttismála að mismunur sá sem var á kjörum kæranda og forvera hennar og leiddi af þeim skipulagsbreytingum sem að framan hafa verið raktar, hafi ekki átt rót sína að rekja til mismunandi kynferðis. Fullnægjandi sönnun telst hafa verið færð fram fyrir því af hálfu Landspítala-Háskólasjúkrahúss að málefnalegar ástæður skýri launamismun á tímabili því sem mál þetta tekur til.
Með vísan til framangreinds þykir Landspítali-Háskólasjúkrahús ekki hafa brotið gegn lögum nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í máli þessu.
Andri Árnason
Ragnheiður Thorlacius
Stefán Ólafsson