Hoppa yfir valmynd
4. júní 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 31/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 31/2020

Fimmtudaginn 4. júní 2020

A

gegn

Hafnarfjarðarbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. janúar 2020, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála málsmeðferð Hafnarfjarðarbæjar vegna félagslegs leiguhúsnæðis.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk úthlutað félagslegri leiguíbúð að C í Hafnarfirði um mitt ár 2013. Frá nóvember 2016 fóru reglulega að berast kvartanir frá nágrönnum kæranda. Hún var ítrekað áminnt og stefndi í að það þyrfti að segja henni upp húsnæðinu. Vegna aðstæðna kæranda var ákveðið að reyna að komast hjá uppsögn og finna annað húsnæði sem gæti hentað betur. Í apríl 2019 var kæranda boðið húsnæði að D sem hún samþykkti í maí 2019 og flutti inn í húsnæðið í júní 2019.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 20. janúar 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. febrúar 2020, var óskað eftir greinargerð Hafnarfjarðarbæjar ásamt gögnum málsins. Sú beðni var ítrekuð 24. mars og 8. apríl 2020. Greinargerð Hafnarfjarðarbæjar barst 17. apríl 2020 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. apríl 2020. Athugasemdir bárust frá kæranda 12. maí 2020 og voru þær sendar Hafnarfjarðarbæ til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. maí 2020. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi verið að leigja félagslegt leiguhúsnæði á vegum Hafnarfjarðarbæjar til nokkurra ára vegna lágra tekna. Kæranda hafi verið gert að flytja úr íbúð að C í minna húsnæði að D í júní 2019 vegna kvartana frá nágrönnum um reykingarlykt. Kæranda hafi ekki langað til að flytja, enda hafi hún verið ánægð í C og í góðum samskiptum við flesta sína nágranna. Kærandi bendir á að í húsreglum fyrir leiguíbúðir í Hafnarfjarðarbæ sé ekki kveðið á um að reykingar séu bannaðar nema í sameign. Í blokkinni sé bara ein loftræstitúða fyrir alla blokkina en samkvæmt byggingarreglugerð fjölbýlishúsa sé ætlast til að hver íbúð eigi að hafa sér loftræstitúðu. Hafnarfjarðarbær hefði getað komið í veg fyrir íþyngjandi aðgerðir eins og að neyða kæranda til að flytja burt með því að setja upp sér loftræstitúðu í íbúðina. Það hefði verið vægari leið í máli kæranda eins og meðalhófsregla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kveði á um.

Kærandi tekur fram að nýja húsnæðið henti engan veginn hennar fötlun. Íbúðin sé allt of lítil og kærandi hafi verið tilneydd til þess að flytja í hana, úr um 70m2 íbúð í 54m2 stúdíóíbúð. Kærandi notist við hjálpartæki dagsdaglega eins og göngugrind, hjólastól, vinnustól og fleira sem ekki rúmist fyrir í minni íbúðinni. Ekki hafi verið farið í endurbætur á íbúðinni áður en kærandi hafi flutt inn til þess að koma til móts við þarfir hennar. Kærandi eigi erfitt með að skrúfa frá krönum í vaski og baði vegna þess að hún getur ekki rétt úr sér. Hún þurfi að liggja á olnbogunum til þess að reyna að vaska upp en við það myndist sár. Það sé hvorki pláss í íbúðinni fyrir uppþvottavél né gert ráð fyrir uppþvottavél sem sé nauðsynjatæki fyrir kæranda til þess að geta lifað sjálfstæðu lífi. Í íbúð kæranda sé einungis sturtuklefi (ekki baðkar) og hún geti ekki notað sturtuklefa vegna fötlunar. Það þurfi að vera gott aðgengi að sturtu svo að hún komist í bað og geti verið sjálfstæð í sinni umhirðu og baðferðum. Kærandi sé með þvaglegg og því skipti hreinlætisaðstaðan gríðarlega miklu máli til þess að koma í veg fyrir sýkingu. Heimahjúkrun hafi reynt að aðstoða kæranda en það hafi ekki gengið og því hafi hún þurft að nota sturtuaðstöðu hjá heimaþjónustunni á E. Þar þurfi kærandi aðstoð við sturtuferðir vegna þess að aðstæður hjá heimahjúkrun séu ekki heldur nógu góðar. Heimahjúkrun kæranda hafi sent Hafnarfjarðarbæ athugasemd varðandi aðbúnað í húsnæði hennar 19. júlí en félagsþjónustan hafi ekki brugðist neitt við henni. Með því að fara ekki í nauðsynlegar endurbætur á íbúðinni sé Hafnarfjarðarbær ekki að koma til móts við þjónustuþarfir kæranda og því sé um að ræða brot á 3. gr. laga nr. 38/2018. Þá hafi Hafnarfjarðarbær brotið gegn ákvæði 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, til dæmis með því að grípa ekki til viðeigandi aðgerða til að koma í veg fyrir félagsleg vandamál og að kærandi gæti búið við sem best lífsgæði. Kærandi bendir á að fatlað fólk eigi rétt á húsnæði í samræmi við þarfir þess og óskir, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2018. Þá vísar kærandi til markmiðsákvæðis sömu laga. Við það að fara í minni íbúð hafi kærandi verið tilneydd til þess að leigja sér geymslu og setja búslóðina sína þangað gegn sínum vilja. Þrátt fyrir lægri leigufjárhæð sé hún með hærri greiðslubyrði þar sem hún greiði 33.000 kr. á mánuði fyrir búslóðageymsluna.

Kærandi gerir athugasemd við hvernig staðið hafi verið að uppsögn og flutningi. Hún hafi átt að fá 10 daga til að flytja og ekki hafi verið gætt að því að hún fengi húsaleigubætur óslitið. Það sé brot á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar sem og ákvæðum húsaleigulaga. Uppsagnarfrestur leigusamningsins hafi verið þrír mánuðir og því jafnframt um samningsbrot að ræða. Kærandi hafi ekki fengið neinar leiðbeiningar varðandi uppsögn leiguhúsnæðis eða að öðru leyti og því sé einnig um að ræða brot á leiðbeiningarskyldu stjórnvalds samkvæmt stjórnsýslulögum. Það að hóta kæranda að hún yrði sett á götuna sé ekki í samræmi við lög eða starfshætti opinberra starfsmanna, sbr. 3. gr. laga nr. 38/2018. Það sé hlutverk félagsþjónustu sveitarfélaga að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi sem og að koma í veg fyrir félagsleg vandamál. Þess í stað hóti félagsþjónustan að setja kæranda á götuna og setji henni afarkosti. Það að hún fari í minni íbúð sem henti ekki vegna fötlunar sé ekki að bæta lífskjör hennar eða að veita henni betri lífsgæði heldur frekar lakari lífsgæði. Lögin segi að ávallt skuli veita fötluðu fólki þjónustu í húsnæðismálum en félagsþjónustan hóti henni að hún fái ekki annað húsnæði í Hafnarfirði. Þeim beri skylda lögum samkvæmt að útvega kæranda annað húsnæði. Það hafi verið gríðarlegt áfall fyrir kæranda að þurfa að flytja í skyndi og hafa ekkert um það að segja. Að vera í allt of lítilli íbúð þar sem hún geti hvorki notað hjálpartæki sín né komist í bað/sturtu.

Kærandi vísar til þess að andmælaréttur hafi ekki verið virtur, hún hafi aldrei fengið skriflega ákvörðun vegna uppsagnar á leigusamningi né leiðbeiningar um kæruheimild. Ekki hafi verið farið eftir lögum nr. 38/2018 en kærandi geti ekki lifað sjálfstæðu lífi í núverandi íbúð. Hún sé upp á aðra komin varðandi uppvask og baðferðir og hún geti ekki notað nauðsynleg hjálpartæki vegna plássleysis og margs fleira. Núverandi íbúð henti engan veginn hennar fötlun. Málsmeðferðin í máli kæranda hafi ekki verið í samræmi við góða stjórnsýslu. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar verði felld úr gildi og tekin til nýrrar meðferðar þannig að henni verði tryggt húsnæði sem mæti stuðningsþörfum hennar.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Hafnarfjarðarbæjar er því mótmælt að ekki hafi verið um uppsögn að ræða. Kæranda hafi verið stillt upp við vegg, annaðhvort færi hún úr húsnæðinu sjálfviljug eða hún yrði borin út, sbr. dagáll frá 16. maí 2019. Það að Hafnarfjarðarbær hafi boðið henni annað búsetuúrræði jafngildi því að þáverandi búsetuúrræði hafi verið sagt upp, enda hafi verið gerður nýr leigusamningur um nýtt leiguhúsnæði og fyrri leigusamningi því sagt upp í skilningi laga. Það hafi verið gengið freklega á rétt kæranda til þess að undirbúa þessa flutninga með eðlilegum hætti með því að setja henni mjög skamman frest til flutninga og gera henni ekki kleift að skoða húsnæðið betur eins og hún hafi ítrekað óskað eftir. Uppsagnarákvæði leigusamnings kæranda vegna C hafi verið þrír mánuðir og það breyti engu um þann lögbundna rétt að henni hafi verið boðið annað húsnæði í staðinn. Brotið hafi verið á lögmætum rétti hennar til þess að gera ráðstafanir um flutninga með eðlilegum fyrirvara og það sé ámælisvert. Í reynd megi segja að kærandi hafi verið flutt nauðungarflutningum í annað og mun verra húsnæði þar sem hún hafði í raun engra annarra kosta völ þar sem búið hafi verið að segja henni að útburðarferli væri farið í gang og í dagál frá 8. maí 2019 segi starfsmaðurinn að komið væri að uppsögn leigusamningsins. Flutningurinn hafi að sjálfsögðu ekki farið fram með fúsum og frjálsum vilja kæranda, henni hafi einfaldlega verið settir afarkostir og hún hafi verið upp á náð og miskunn félagsþjónustunnar með áframhaldandi búsetu í húsnæði sem ekki sé boðlegt miðað við fötlun hennar.

Eftir að kærandi hafi fengið íbúðina afhenta í júní 2019 hafi strax komið í ljós að baðaðstaðan hentaði ekki og beðið hafi verið um úrbætur á því. Engar úrbætur hafi verið gerðar og svör félagsþjónustunnar séu þau að ekki sé hægt að gera úrbætur og látið þar við sitja. Sveitarfélagið sinni ekki grunnskyldum sínum samkvæmt lögum nr. 38/2018 um að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir kæranda og sér í lagi einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður hennar, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Framganga sveitarfélagsins í garð kæranda sé fyrir neðan allar hellur og í andstöðu við skyldur samkvæmt lögum nr. 38/2018 og 40/1991 þar sem henni hafi nánast bara verið fleygt inn í húsnæði sem henti engan veginn hennar þörfum og fötlun og engin gangskör gerð að því af hálfu sveitarfélagsins að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir hennar, þrátt fyrir að ítrekað hafi verið bent á að íbúðin henti ekki, sbr. bréf heimaþjónustu Hafnarfjarðar frá 23. júlí 2019. Í svarbréfi frá fjölskyldusviði frá 16. apríl 2020 sé ábyrgðinni um að aðstæður í íbúðinni að D séu óboðlegar, varpað yfir á kæranda sjálfa þar sem vísað sé til þess að hún hafi ekki gert athugasemdir við aðstæðurnar áður en hún hafi flutt inn. Svo sé hnykkt á því að ekki sé hægt að gera endurbætur á húsnæðinu í samræmi við þarfir hennar og sérstaklega bent á að hin íbúðin sem til greina hafi komið sé ekki með sturtuklefa. Svo virðist sem endanlegt svar sveitarfélagsins sé að kærandi verði að láta sér þetta að góðu verða og ljóst að það eigi ekki að koma til móts við þarfir hennar að neinu leyti. Það sé brot á skyldum sveitarfélagsins og beri að bæta úr hið snarasta, annað sé hrein og bein valdníðsla á fötluðum einstaklingi sem sé algjörlega háð aðstoð sveitarfélagsins með allar sínar þarfir.

Kærandi tekur fram að sveitarfélaginu sé einnig skylt að leiðbeina skjólstæðingum sínum, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi hafi sent tölvupóst til félagsþjónustunnar þann 28. júní 2019 og spurt um húsaleigusamninginn og jafnframt tekið fram að hún gæti ekki greitt húsaleiguna án húsaleigubóta sem hún ætti rétt á. Kærandi hafi einnig sagt frá því að hún hafi þurft að leggjast inn á spítala eftir flutninginn þar sem […] vegna álags við flutninginn og að hún verði rúmliggjandi næstu vikurnar vegna þess. Kærandi hafi ekki fengið neinar leiðbeiningar varðandi húsaleigubætur, hvort hún þyrfti að sækja um þær aftur eða hvort þær myndu halda sér. Í bréfi frá félagsþjónustu Hafnarfjarðar frá 16. apríl 2020 sé sagt frá því að kærandi hafi ekki sótt um húsaleigubætur fyrr en í ágústmánuði og að hún hafi ekki komið að undirrita samninginn fyrr en nokkrum vikum eftir að samningurinn hafi verið útbúinn. Aftur sé ábyrgðinni alfarið varpað á hinn fatlaða einstakling sem á þessum tíma hafi legið á sjúkrahúsi og heima fyrir í margar vikur og félagsþjónustan hafi ekkert frumkvæði haft að því að aðstoða hana við þessi atriði í ljósi aðstæðna hennar. Svo sé hnykkt á því í lok bréfsins að kærandi hafi ekki sótt um flutning í annað húsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ. Sveitarfélaginu hafi verið vel kunnugt um að húsnæðið hentaði engan veginn aðstæðum og fötlun kæranda þar sem margoft hafið verið búið að kvarta yfir aðstæðum hennar. Sveitarfélagið hafi frumkvæðisskyldu, sbr. 32. gr. laga nr. 38/2018, og framganga þess í málinu sé til háborinnar skammar gagnvart fötluðum einstaklingi.

Varðandi kannabisreykingarnar bendir kærandi á heilsa hennar leyfi ekki kannabisreykingar. Hún hafi tekið sökina á sig til þess að vernda dóttur sína sem hafi verið í neyslu án hennar vitundar. Kærandi haldi vel utan um allar dagssetningar síðustu ára í dagbókum. Þegar bornar séu saman dagsetningar og tilkynningar um kannabislykt hafi kærandi annaðhvort ekki verið heima eða á sjúkrahúsi. Kærandi hafi misst tengsl við dóttur sína í eitt ár og á því tímabili hafi ekki verið nein kvörtun vegna kannabislyktar. Um leið og dóttir hennar hafi komið í heimsókn hafi strax komið kvörtun. Það sé gott mál að félagsþjónustan í Hafnarfirði hafi íbúðir í boði fyrir fólk sem reykir kannabis og það trufli lítið aðra íbúa eins og fram komi í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar. Hins vegar neyti kærandi ekki eiturlyfja og húsnæðið henti henni engan veginn. Kærandi sé mjög dugleg og reglusöm kona sem glími við mikil og erfið líkamleg veikindi.

III.  Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að kærandi hafi fengið úthlutað íbúð að C um mitt ár 2013 en þá hafi hún óskað eftir að komast í minna húsnæði en hún leigði á þeim tíma. Síðari hluta árs 2016 hafi farið að berast kvartanir til Hafnarfjarðarbæjar frá húsfélagi og nágrönnum kæranda um þráláta kannabislykt úr íbúð hennar. Kvartanir hafi borist jafnt og þétt næstu mánuði af sömu ástæðu. Oftar en einu sinni hafi lögregla verið kölluð til vegna þessa en aðstæður í stigaganginum hafi verið með þeim hætti að lyktin hafi auðveldlega borist um allt og börn hafi verið meðal íbúa í stigaganginum. Þær skýringar hafi verið gefnar að kærandi reykti kannabis í lækningaskyni. Þrátt fyrir athugasemdir starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar, tilmæli þeirra um að hún léti af þessari háttsemi og síðar áminningar, hafi kærandi haldið uppteknum hætti. Á endanum hafi starfsmönnum þótt ljóst að ekki yrði gerð breyting á og að það stefndi í að segja þyrfti kæranda upp húsnæðinu. Réttindagæslumaður bendi réttilega á að í húsreglum fyrir leiguíbúðir í Hafnarfirði sé ekki kveðið á um að reykingar séu bannaðar nema í sameign og að í blokkinni sé bara ein loftræstitúða fyrir alla. Hvað varði athugasemd um að Hafnarfjarðarbær hafi ekki gengið í það að setja upp loftræstitúðu í íbúð kæranda sé bent á að kannabisreykingar séu hvergi heimilaðar og ekki í verkahring sveitarfélaga að útbúa íbúðir sínar þannig að íbúar geti neytt ólöglegra vímuefna í friði fyrir nágrönnum. Það hafi verið mat starfsmanna fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðarbæjar, eftir margítrekuð og árangurslaus tilmæli til kæranda um að láta af hegðun sinni, að ástandið væri engan veginn ásættanlegt fyrir aðra íbúa stigagangsins, einkum börnin sem væru þar búsett. Vegna fötlunar og heilsubrests kæranda hafi verið ákveðið að reyna að komast hjá uppsögn og finna annað húsnæðisúrræði sem gæti hentað henni betur. Kæranda hafi verið boðið að taka á leigu aðra af tveimur íbúðum í eigu sveitarfélagsins sem hafi á þeim tíma verið lausar til útleigu. Sérinngangur sé að hverri íbúð og því ljóst að lítil hætta væri á að kannabisneysla kæranda myndi valda nágrönnum hennar ama. Kærandi hafi farið og skoðað íbúðirnar í fylgd starfsmanns fjölskyldu- og barnamálasviðs og síðan valið aðra þeirra.

Hafnarfjarðarbær tekur fram að þegar kærandi hafi skoðað íbúðirnar sem til greina komu hafi ekki komið fram neinar athugasemdir frá henni um að aðstæður væru ófullnægjandi eða að gera þyrfti endurbætur á íbúðinni áður en hún flytti inn. Síðar hafi komið beiðni frá kæranda til Fasteignafélags Hafnarfjarðar ásamt ábendingum frá heimaþjónustu um að baðaðstaða yrði bætt þar sem hún ætti erfitt með að nota sturtuklefa. Starfsmenn frá fasteignafélaginu hafi farið á staðinn og niðurstaða þeirra verið sú að ekki væri unnt að breyta baðherberginu í þá veru sem óskað væri eftir og hafi kærandi verið upplýst um það. Hin íbúðin sem hafi komið til greina fyrir kæranda hafi ekki verið með sturtuklefa.

Hvað varði kvörtun kæranda yfir því hvernig Hafnarfjarðarbær hafi staðið að flutningnum sé bent á að það hafi aldrei komið til uppsagnar leiguhúsnæðisins. Þegar það hafi legið fyrir að kærandi myndi ekki ætla að láta af kannabisreykingum sínum og gæti því ekki búið í stigaganginum að C hafi verið ákveðið, vegna sjúkdómsástands hennar, að bjóða upp á aðra lausn svo að ekki þyrfti að koma til uppsagnar. Eins og sjá megi á dagálum sem hafi verið unnir í því ferli hafi ekki verið um nauðungarflutninga að ræða heldur hafi kæranda verið boðin þessi lausn sem hún hafi þegið af fúsum og frjálsum vilja. Í dagál frá 20. maí komi fram að hún hygðist þiggja aðra íbúðina og í tölvupósti frá 21. maí komi fram að hún hafi fengið frest til 11. júní til að skila lyklum að íbúðinni að C. Kærandi hafi fengið greiddar húsaleigubætur frá ágústmánuði 2019 en hún hafi ekki lagt inn umsókn fyrr en í þeim mánuði og ekki sé heimilt að greiða húsaleigubætur aftur í tímann. Nýr húsaleigusamningur hafi verið gerður strax og flutningur hafi átt sér stað og lagður fram í þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar til undirritunar. Kærandi hafi þó ekki undirritað þann samning fyrr en nokkrum vikum síðar.

Eins og að framan sé rakið og sjá megi af meðfylgjandi gögnum málsins hafi margoft verið komið að máli við kæranda vegna ávirðinga sem á hana hafi verið bornar, sem kærandi og fjölskylda hennar hafi staðfest að ættu við rök að styðjast, og henni bent á að láta af þeirri háttsemi sem kvartað væri undan svo að hún gæti búið áfram í íbúð sinni. Ekki verði á það fallist að starfsmenn sviðsins hafi beitt hótunum þó að þeir hafi sinnt þeirri skyldu sinni að benda kæranda á hugsanlegar afleiðingar sem ítrekuð brot á húsreglum gætu haft í för með sér.

Hafnarfjarðarbær ítrekar að ekki hafi verið um uppsögn að ræða og þar af leiðandi sé ekki til staðar kæranleg ákvörðun. Starfsmenn hafi ekki vitað annað en að flutningar væru framkvæmdir í sátt og samlyndi við kæranda. Þá sé bent á að kærandi hafi ekki sótt um flutning í annað húsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ.

IV.  Niðurstaða

Kærð er málsmeðferð Hafnarfjarðarbæjar vegna félagslegs leiguhúsnæðis.

Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Þannig er grundvöllur þess að unnt sé að leggja fram kæru til úrskurðarnefndar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í 35. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir kemur fram að heimilt sé að kæra stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögunum til úrskurðarnefndarinnar innan þriggja mánaða frá því að umsækjanda berst tilkynning um ákvörðunina. Nefndin úrskurðar um hvort málsmeðferð hafi verið í samræmi við lög og hvort ákvörðun hafi verið efnislega í samræmi við lög nr. 38/2018 og reglur sveitarfélaga settar á grundvelli þeirra.

Af framangreindu er ljóst að úrskurðarvald nefndarinnar er afmarkað við að fjalla um réttmæti tiltekinnar ákvörðunar eða ákvarðana sem teknar eru á grundvelli laga nr. 38/2018 og málsmeðferðina í aðdraganda ákvörðunarinnar. Undantekning frá þeirri meginreglu er að finna í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem mælt er fyrir um að heimilt sé að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls.

Af gögnum málsins má ráða að kærandi sé ósátt við málsmeðferð Hafnarfjarðarbæjar í aðdraganda flutnings úr einu félagslegu leiguhúsnæði yfir í annað. Af gögnum málsins verður hins vegar ekki ráðið að kæranda hafi verið sagt upp umræddu húsnæði, þrátt fyrir að henni hafi nokkrum sinnum verið send erindi þess efnis að húsaleigusamningi yrði rift ef hún léti ekki af tilgreindri háttsemi. Ekki kom til riftunar leigusamnings og því var ekki tekin kæranleg stjórnvaldsákvörðun í málinu.

Þá hefur komið fram að kærandi sé ósátt við núverandi húsnæði og telur það ekki henta hennar þjónustuþörf. Í málinu liggur fyrir að kærandi hefur ekki sótt um flutning úr því húsnæði. Úrskurðarnefndin bendir kæranda á að sé hún ósátt við núverandi húsnæði geti hún sótt um milliflutning hjá sveitarfélaginu. Sveitarfélagið tekur afstöðu til slíkrar umsóknar með stjórnvaldsákvörðun sem eftir atvikum er hægt að kæra til úrskurðarnefndarinnar.

Með vísan til alls framangreinds er það mat úrskurðarnefndarinnar að málið sé ekki tækt til efnismeðferðar. Kærunni er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta