Ráðherra undirritar fjórar reglugerðarbreytingar á sviði húsnæðismála
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur undirritað fjórar reglugerðarbreytingar á sviði húsnæðismála.
Um er að ræða:
- Hækkun frítekjumarka húsnæðisbóta
- Hækkun tekju- og eignamarka leigjenda félagslegra leiguíbúða
- Hækkun tekju- og eignamarka leigjenda almennra íbúða
- Hækkun tekju- og eignamarka í leiðbeiningum ráðuneytisins um sérstakan húsnæðisstuðning
Endurskoðuð tekju- og eignamörk vegna almennra íbúða
Félags- og barnamálaráðherra hefur gefið út reglugerð sem felur í sér endurskoðuð tekju- og eignamörk leigjenda almennra íbúða við upphaf leigu. Lög um almennar íbúðir tóku gildi 15. júní 2016 en markmið laganna er að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga, sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum við upphaf leigu, með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði og stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda eða að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna. Í því skyni hafa ríki og sveitarfélög veitt stofnframlög á grundvelli laganna til byggingar eða kaupa á almennum íbúðum til að stuðla að því að í boði verði leiguíbúðir á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þurfa á því að halda.
Tekjumörk
Samkvæmt uppfærðum tekjumörkum skulu árstekjur leigjenda almennra íbúða við upphaf leigu ekki nema hærri fjárhæð en 6.651.000 kr. (í stað 6.420.000 kr. áður) fyrir hvern einstakling en 9.312.000 kr. (í stað 8.988.000 kr. áður) fyrir hjón og sambúðarfólk. Við þá fjárhæð bætast 1.663.000 kr. fyrir hvert barn eða ungmenni að 20 ára aldri sem býr á heimilinu (í stað 1.605.000 kr. áður).
Eignamörk
Samanlögð heildareign leigjenda almennra íbúða að frádregnum heildarskuldum við upphaf leigu samkvæmt skattframtali síðasta árs, staðfestu af ríkisskattstjóra, skal ekki nema hærri fjárhæð en 7.179.000 kr. (í stað 6.930.000 kr. áður).
Hækkun tekju- og eignamarka vegna sérstaks húsnæðisstuðnings
Félagsmálaráðuneytið hefur uppfært tekju- og eignaviðmið í leiðbeiningum til sveitarfélaga um framkvæmd sérstaks húsnæðisstuðnings. Tekju- og eignamörk hækka um 3,6% á milli ára og eru nýju tekjumörkin eftirfarandi:
Fjöldi heimilis- manna |
Neðri tekjumörk á ári |
Efri tekjumörk á ári |
Neðri tekjumörk á mánuði |
Efri tekjumörk á mánuði |
1 |
4.165.730 |
5.207.163 |
347.144 |
433.931 |
2 |
5.509.514 |
6.886.893 |
459.126 |
573.908 |
3 |
6.450.163 |
8.062.704 |
537.514 |
671.892 |
4 eða fleiri |
6.987.676 |
8.734.595 |
582.307 |
727.883 |
Eignamörk hækka úr 5.971.000 kr. í 6.186.000 kr. á milli ára.
Ráðuneytið beinir því til sveitarfélaga að taka mið af framangreindri hækkun við endurskoðun eigin reglna um sérstakan húsnæðisstuðning.
Frítekjumörk húsnæðisbóta hækkuð fyrir árið 2021
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur staðfest breytingu á reglugerð um húsnæðisbætur sem hækkar frítekjumörk húsnæðisbóta frá og með 1. janúar nk. Með þessari breytingu hækka þau viðmið tekna sem leigjendur geta haft áður en tekjur skerða rétt þeirra til húsnæðisbóta. Hækkunin er til samræmis við hækkun á framfærsluviðmiði almannatrygginga og tryggir þannig að lífeyrisþegi almannatrygginga sem býr einn og hefur ekki aðrar tekjur sér til framfærslu eigi rétt á óskertum húsnæðisbótum.
Með breytingunni verða frítekjumörk húsnæðisbóta fyrir árið 2021 eftirfarandi:
Fjöldi heimilismanna |
á ári |
á mánuði |
1 |
4.500.677 |
375.056 |
2 |
5.952.509 |
496.051 |
3 |
6.968.790 |
580.733 |
4 eða fleiri |
7.549.523 |
629.127 |
Ofangreindar fjárhæðir verða notaðar við útreikning á húsnæðisbótum vegna leigu frá og með 1. janúar næstkomandi (sem greiðast frá og með 1. febrúar 2021).
Hægt er að sækja um húsnæðisbætur og nálgast allar frekari upplýsingar á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Hækkun viðmiðunarfjárhæða tekju- og eignamarka vegna félagslegra leiguíbúða
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur gefið út uppfærðar viðmiðunarfjárhæðir tekju- og eignamarka vegna félagslegra leiguíbúða fyrir árið 2021.
Um er að ræða tekju- og eignamörk leigjenda félagslegra leiguíbúða sem fjármagnaðar voru með lánum frá Íbúðalánasjóði á grundvelli þágildandi 1. mgr. 37. gr. laga um húsnæðismál fyrir 10. júní 2016 en þá tók við nýtt fyrirkomulag fjármögnunar slíkra íbúða með stofnframlögum á grundvelli laga um almennar íbúðir.
Frá og með 1. janúar 2021 eru uppreiknuð tekju- og eignamörk leigjenda slíkra félagslegra leiguíbúða (skv. 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um húsnæðismál) eftirfarandi:
- Árstekjur einstaklings: 5.731.000 kr.
- Árstekjur fyrir hvert barn að 20 ára aldri sem býr á heimilinu: 1.433.000 kr.
- Árstekjur fyrir hjón og sambúðarfólk: 8.025.000 kr.
- Eignamörk verða: 6.186.000 kr.