Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar vegna þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október hefst á laugardag
Innanríkisráðuneytið hefur birt auglýsingu um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd. Atkvæðagreiðslan fer fram laugardaginn 20. október og atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefst næstkomandi laugardag, 25. ágúst.
Kosningavefur innanríkisráðuneytisins, kosning.is, hefur nú verið opnaður og er þar að finna margvíslegar upplýsingar varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna.
Í atkvæðagreiðslunni verða eftirfarandi spurningar lagðar fyrir kjósendur:
1. Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?
2. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?
3. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?
4. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?
5. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?
6. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?