Drög að reglugerð um breyting á reglugerð um skoðun ökutækja til umsagnar
Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 8/2009 um skoðun ökutækja. Umsagnarfrestur um drögin er til 10. september næstkomandi og skal senda umsagnir á netfangið [email protected].
Breytingin felur eingöngu í sér innleiðingu á tilskipun nr. 2010/48/ESB um aðlögun að tækniframförum á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/40/EB frá 6. maí 2009 um prófanir á aksturshæfni vélknúinna ökutækja og eftirvagna þeirra og tilskipun nr. 2010/47/ESB um aðlögun að tækniframförum á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/30/EB um tæknilegt eftirlit á vegum með aksturshæfni vöruflutningabifreiða í ESB.
Tilskipun nr. 2010/48/ESB uppfærir II. viðauka við tilskipun nr. 2009/40/EB og kveður nánar á um hvaða atriði skyldubundið er að prófa við reglubundna skoðun ökutækja. Í kjölfarið mun Umferðarstofa yfirfara skoðunarhandbók með hliðsjón af efnisatriðum tilskipunarinnar enda er í skoðunarhandbók mælt fyrir um hvaða atriði prófa skal við skoðun ökutækja á Íslandi.
Tilskipun nr. 2010/47/ESB felur í sér breytingu á I. og II. viðauka við tilskipun nr. 2000/30/EB, sem snýr að vegaskoðunum. Kveðið er á um vegaskoðanir í 10. gr. reglugerðar nr. 8/2009 um skoðun ökutækja.
Í viðauka við tilskipun 2010/48/ESB eru margvísleg atriði talin upp sem skylt verður að skoða við aðalskoðun ökutækja. Um það umfangsmikinn lista er að ræða að fara verður ítarlega yfir þau atriði sem koma þar fram og bera þau saman við skoðunarhandbók ökutækja. Í reglugerðardrögunum er því gert ráð fyrir fresti til 1. nóvember 2013 til þess að útfæra skoðunarhandbókina í samræmi við viðauka við tilskipunina. Mögulega þurfa skoðunarstofur að koma sér upp auknum búnaði til þess að geta skoðað þau atriði sem fram koma í viðaukanum.