Herða ber refsingar við ítrekuðum umferðarlagabrotum
Samgönguþingi unga fólksins lauk á fjórða tímanum í dag en á síðari hluta þingsins störfuðu umræðuhópar og síðan var samþykkt ályktun þingsins sem beint er til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Fram kom í lokaorðum Jóns Gunnarssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að hann sæi fyrir sér að þing sem þetta yrði reglulegur viðburður hjá ráðuneytinu. Hann lýsti ánægju sinni með þátttökuna og afrakstur þingsins sem hann sagði nýtast vel.
Umræðuhóparnir fjölluðu um eftirtalin efni:
- Sektir: Hækkun sekta við notkun snjalltækja og tekjutenging sekta.
- Akstur undir áhrifum: Áfengismörk við 0,5 prómill, 0,2 prómill eða 0,0 prómill.
- Bílprófsaldur og nám til bílprófs.
- Létt bifhjól og reiðhjól sem samgöngutæki.
- Hertar refsingar og lengri sviptingartími við ítrekuðum umferðarlagabrotum.
- Samgöngur í framtíðinni.
Umræðustjórar beindu spurningum um málefnin til þátttakenda sem settu fram skoðanir sínar og vangaveltur um umræðuefnin. Hér á eftir eru nokkur atriði sem fram komu í hópunum:
Lengja nám til ökuprófs
- Samfélagsþjónusta sem viðurlög við umferðarlagabroti
- Hækka sektir vegna notkunar snjallsíma í 40 þús. kr.
- Tekjutengja sektir – mánaðarlaun í sekt?
- Áróður betri en hækkun á sektum
- Herða refsingar við ítrekuð brot, senda á námskeið ef menn vilja halda bílprófi
- Áfengismörk verði óbreytt
- Fleiri hjólastíga – sérstaklega úti á landi og gera hjólreiðar meira spennandi – skylda hjálmanotkun fyrir alla
- Bæta strætóáætlanir
- Halda bílprófsaldri – skrá æfingaakstur
- Rafmagnsbílar – þarf að taka með í reikninginn umhverfisáhrif af framleiðslu rafgeyma og eyðingu þeirra
- Taka bílpróf í framhaldsskóla til að jafna aðgengi
Samþykkt var eftirfarandi ályktun í lok þingsins:
Ályktun samgönguþings unga fólksins 2017
Horfa þarf til ólíkra samgöngumáta við framtíðarskipulag samgangna á Íslandi. Ungt fólk kýs í vaxandi mæli að búa smærra og nota vistvænar samgöngur. Stjórnvöld skulu þó tryggja einstaklingum svigrúm til að velja sér þann samgöngumáta sem það helst kýs, hvort sem það eru almenningssamgöngur, hjólreiðar, einkabíll eða aðrar tegundir samgangna. Fjölga þarf hleðslustöðvum á landinu til þess að flýta fyrir rafbílavæðingu. Styrkja þarf strætókerfið, meðal annars með því að fjölga ferðum á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni og bjóða upp á næturstrætó.
Öruggar samgöngur er undirstaða byggðar og atvinnulífs um land allt, meðal annars flug- og skipasamgöngur, og leggja þarf því áherslu á áframhaldandi uppbyggingu vega á landsbyggðinni, meðal annars með tilliti til hraðrar fjölgunar ferðamanna á undanförnum árum. Klára þarf að malbika hringveginn. Stjórnvöld þurfa að tryggja nýsköpunarfyrirtækjum á sviði samgangna samkeppnishæft umhverfi, svo sem fyrirtækjum sem bjóða upp á betri nýtingu farartækja og fjármagn í gegnum deilihagkerfið.
Tæknin tekur hröðum breytingum og þess vegna þarf að aðlaga regluverkið að aukinni snjalltækjanotkun í umferðinni. Hækka þarf sektir fyrir notkun þeirra undir stýri og skoða kosti og galla kerfis þar sem sektir eða refsingar komi jafnt við alla tekjuhópa í landinu. Lækka þarf áfengismörk við akstur til þess að draga úr akstri undir áhrifum. Einnig þarf að herða refsingar við ítrekuðum umferðarlagabrotum, til dæmis með stigvaxandi sektum eða samfélagsþjónustu.
Samgönguþing unga fólksins telur ekki ástæðu til að hækka bílprófsaldur upp í 18 ár í stað 17 ára, en vill skoða að samræma menntaskólaaldur og bílprófsaldur. Tryggja þarf að æfingaakstur sé nýttur við ökunámið til að undirbúa unga bílstjóra betur undir umferðina. Þingið telur ástæðu til að skoða réttindi og skyldur ungs fólks í víðara samhengi. Rannsóknir benda til þess að fólk sé lengur í áhættuhóp því seinna sem það öðlast ökuréttindi. Telur þingið það ekki vera aldur ökumanna sem auki slysatíðnina, heldur reynsluleysið sem er óhjákvæmilegt hjá nýjum ökumönnum óháð bílprófsaldri.
Ráðast þarf í gerð fleiri hjólreiðastíga til þess að styrkja frekar við hjólreiðar sem samgöngur og gæta þarf að því að fræða hjólreiðamenn um réttindi sín og skyldur í umferðinni samhliða ört vaxandi fjölda hjólreiðamanna á landinu. Skoða þarf lagningu hjólreiðastíga á landsbyggðinni til að hvetja íbúa landsbyggðarinnar til að nýta sér slíkan samgöngumáta.
Einnig þarf að skilgreina notkun léttra bifhjóla með ítarlegri hætti en nú er gert. Tengja þarf allt landið mun betur saman með því að innanlandsflug verði raunhæfur kostur fyrir alla landsmenn. Fjölga þarf stærri samgöngutengingum, t.d. með hraðlestum og bæta þarf tíðni strætókerfisins og almenningssamgangna um landið allt.