Hoppa yfir valmynd
27. febrúar 2018 Utanríkisráðuneytið

Mikill árangur í baráttunni við ungbarnadauða í Malaví

Fyrr í mánuðinum komu út tvær nýjar skýrslur, annars vegar skýrsla UN Women “Turning promises into actions: Gender equality in the 2030 Agenda for Sustainable Development” og hins vegar skýrsla UNICEF tengd átakinu “öll börn lifi” (e. Every Child ALIVE). Í skýrslu sinni bendir UN Women á að framfarir í jafnréttismálum á heimsvísu séu alltof hægar með tilliti til Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna með sérstakri áherslu á það fimmta sem snýr að því að tryggja jafnrétti kynjanna og valdefla konur og stúlkur. Samkvæmt skýrslunni verður ómögulegt að ná hinum 16 heimsmarkmiðunum án þess fimmta, þar sem jafnrétti kynjanna er talið haldast í hendur við öll hin markmiðin.

UN Women segir jafnframt, í tengslum við þriðja heimsmarkmiðið, að á hverjum degi látast 830 konur í heiminum af fyrirbyggjanlegum ástæðum tengdum meðgöngu og fæðingu. Skýrsla UNICEF bendir á það mikla áhyggjuefni að ennþá deyja 7.000 nýburar á hverjum degi af orsökum sem auðveldlega væri hægt að koma í veg fyrir. Meira en 80 prósent af dauðsföllum nýfæddra barna má rekja til fæðinga fyrir tímann, vandamála sem koma upp í fæðingu eða sýkinga á borð við lungnabólgu, heilahimnubólgu og blóðeitranir. Flest þessara dauðsfalla má koma í veg fyrir með aðgengi að vel þjálfuðu heilbrigðisstarfsfólki, hreinu vatni, sótthreinsun, ódýrum lyfjum, aðstoð við brjóstagjöf og með góðri næringu.

Fæðingar með þjálfuðu heilbrigðisstarfsfólki

Í skýrslu UNICEF kemur fram að þrátt fyrir að Malaví sé eitt af fátækustu löndum heims  hefur landið sýnt fram á töluverðan árangur er varðar nýbura- og ungbarnadauða. Er þessu þakkað auknu aðgengi að gæða heilbrigðisþjónustu fyrir verðandi mæður. Til dæmis var staðan þannig árið 2000 að meira en helmingur kvenna fæddu börn sín án aðstoðar þjálfaðra heilbrigðisstarfsmanna á borð við ljósmæður og lækna. Þessar tölur hafa heldur betur breyst því á árinu 2016 eignuðust 90 prósent kvenna í Malaví börn sín með aðstoð þjálfaðs heilbrigðisstarfsfólks, sem leiddi til þess að ungbarnadauði lækkaði úr 41/1000 fæðinga á árinu 2000 í 23/1000 fæðingum á árinu 2016. Til samanburðar má nefna að á Íslandi er hlutfallið 1/1000 fæðinga og trónir Ísland í öðru sæti á eftir Japan á lista ríkja heimsins með minnstan barnadauða.

Staðbundinn árangur við að draga úr mæðra- og nýburadauða í Mangochi héraði í Malaví er mikið íslensku þróunarfé að þakka. Þar má telja stuðning við sveitasjúkrahúsið og fæðingardeildir í Apaflóa (e. Monkey Bay) frá árinu 2000 til 2012 og síðastliðin fimm ár hefur þróunarsamvinna Íslands stutt við þróunaráætlun Mangochi héraðs í heilbrigðismálum víða um sveitir. Helstu áherslurnar hafa verið að auka aðgengi kvenna að heilbrigðisþjónustu sem miðar að mæðra- og ungbarnaeftirliti og fæðingarhjálp. Markmið samstarfsins er að auka aðgengi að gæða heilbrigðisþjónustu fyrir verðandi mæður og tryggja aðgengi að kynheilbrigði og réttindum, til að draga úr mæðradauða í Mangochi héraði. Síðastliðin fimm ár eða frá 2012 hafa 520 heilsuliðar (e. Health Surveillance Assistant) verið þjálfaðir og starfa þeir í dreifbýlum sveitum m.a. við skráningu heilsufarsupplýsinga og ungbarnaeftirlit. 

Von á 166 heilbrigðisstarfsmönnum til starfa í vor

Byggðar hafa verið átta fæðingardeildir og ellefu biðskýli fyrir verðandi mæður í dreifbýli og ein héraðsfæðingadeild með biðskýli, ungbarnaeftirlits- og fjölskylduáætlunardeild. Í einni fæðingardeild hefur starfsemin hafist og verið er að ganga frá og koma fyrir tækjum og tólum svo hægt sé að opna allar fæðingardeildarnar fyrir þjónustu. Nú í febrúar voru síðan ráðnir 166 heilbrigðisstarfsmenn til héraðsins, sem munu hefja störf í byrjun apríl og þar með manna allar fæðingardeildarnar. Á héraðsfæðingardeildinni verður starfandi fæðingarlæknir auk tuttugu hjúkrunarfæðinga og ljósmæðra. Til viðbótar er verið að bæta tilvísunarkerfið og bætt hefur verið við fimm nýjum sjúkrabílum þannig að ef upp koma bráða- eða áhættufæðingar á sveitafæðingardeildunum verður auðveldara að bregðast við. Alls fæðast um 30.000 börn á ári hverju í Mangochi héraði en til samanburðar fæðast rúmlega 4.000 börn á á Íslandi á ári.

Það eru spennandi tímar framundan í Mangochi þar sem áætlað er að starfsemi verði komin í gang í öllum fæðingardeildunum og biðskýlunum í júní. Ennfremur hafa verið ræddar hugmyndir um að byggja upp fræðslustarf í tengslum við biðskýlin þar þar sem barnshafandi konur og umsjónarkonur þeirra koma oft og bíða í 2-4 vikur. Gæti fræðslan t.d. verið á sviði næringu barna og fjölskylduáætlunargerð, kynbundið ofbeldi, frumkvöðlafræðslu og umhverfismála. Það verður því áhugavert að sjá skýrslur UN Women og UNICEF fyrir Malaví eftir tíu til fimmtán ár.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta