Sameiginleg yfirlýsing varnarmálaráðherra þátttökuríkja í JEF
Skemmdir á Nord Stream gasleiðslunum voru í brennidepli á fjarfundi varnarmálaráðherra þátttökuríkja í Sameiginlegu viðbragðssveitinni (Joint Expeditionary Force, JEF) sem fram fór í gær. Sameiginleg yfirlýsing var gefin út af fundinum þar sem skemmdarverkin eru harðlega fordæmd.
„Samráð á vettvangi JEF er mikilvægur liður í að efla stöðuvitund og stilla saman strengi við Norðurlöndin, Eystrasaltsríkin, Bretland og Holland. Það er ríkur vilji í þessum hópi til að styðja Dani, Svía og Þjóðverja við rannsókn málsins, efla samstarf um að verja lykilinnviði og auka stöðugleika á þessu svæði,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sem tók þátt í fundinum.
JEF er samstarfsvettvangur líkt þenkjandi Norður-Evrópuríkja um öryggis- og varnarmál með áherslu á norðurslóðir, Norður-Atlantshafið og Eystrasaltið. Samstarfinu er ætlað að geta brugðist skjótt við hvers kyns aðstæðum á friðar-, hættu- og ófriðartímum, og stutt við annað fjölþjóðasamstarf, svo sem á vegum Atlantshafsbandalagsins. Þátttökuríkin eiga jafnframt reglubundið og virkt öryggispólitískt samráð.