Hoppa yfir valmynd
19. mars 2015 Dómsmálaráðuneytið

Úskurður nr. 14/2015

Kærunefnd útlendingamála

Þann 19. mars 2015 er kveðinn upp svohljóðandi úrskurður nr. 14/2015

Í stjórnsýslumáli nr. KNU15010098


Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

 Með stjórnsýslukæru, dags. 5. janúar 2015, kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefnd kærandi) þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. desember 2014, að synja henni og dóttur hennar, […], fd. […],  um hæli á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga nr. 96/2002, um útlendinga.

 Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og henni breytt á þann hátt að kærandi og dóttir hennar fái réttarstöðu flóttamanna skv. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga.

 Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests skv. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

 

 

II.         Málsatvik og málsmeðferð

 Í gögnum málsins kemur m.a. fram að kærandi hafi áður sótt um hæli á Íslandi þann 30. maí 2014 á lögreglustöðinni á Húsavík ásamt eiginmanni sínum og dóttur. Hinn 17. júlí dró kærandi umsókn sína tilbaka og fór kærandi sjálfviljug af landi brott með fjölskyldu sinni. Kærandi sótti hins vegar aftur um hæli hér á landi þann 5. nóvember 2014 ásamt fjölskyldu sinni.

 Með ákvörðun Útlendingastofnunar frá 15. desember 2014 var kæranda synjað um hæli hér á landi auk þess að vera synjað um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar við birtingu og óskaði eftir frestun réttaráhrifa. Þann 9. febrúar 2015 synjaði kærunefnd útlendingamála beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar. Með bréfi, dags. 4. mars 2015 var kærandi boðuð til viðtals þann 12. mars 2015 hjá kærunefnd útlendingamála. Kærandi þáði boðið en mætti ekki til viðtals. Úrskurður kærunefndar byggist því á fyrirliggjandi gögnum í máli kæranda.

 Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

  

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

 Í ákvörðun Útlendingastofnunar við mat á hæli og viðbótarvernd er ekki dregin í efa frásögn kæranda er varðar ósætti á milli hennar og foreldra hennar. Hins vegar kemur fram það mat stofnunarinnar að þegar litið er til upplýsinga er varðar aðstæður í […] að engin stoð sé fyrir því að foreldrar kæranda geti stíað þeim hjónum í sundur eða hafi völd og áhrif til að láta taka barn hennar af henni. Þá tók Útlendingastofnun einnig fram að engin gögn bentu til þess að eiginmaður kæranda og barn þeirra sæti mismunun í […] vegna uppruna þeirra.

 Þá greinir í ákvörðuninni að frásögn kæranda af samskiptum hennar við foreldra hennar geti ekki flokkast sem ofsóknir sé miðað við skilgreiningar í 44. gr. útlendingalaga. Einnig að það sé mat stofnunarinnar að framburður kæranda af öðrum atburðum en ósætti við foreldra verði að teljast ótrúverðugur. Fram kemur að kærandi sé […] ríkisborgari sem hafi mest alla ævi sína verið búsett í […] og að ekki verði með nokkru móti séð að kærandi eigi hættu á ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð snúi hún að nýju til síns heimalands.

 Með vísan til þessa var það mat stofunarinnar að aðstæður kæranda væru ekki með þeim hætti sem greinir í 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga og að umsókn hennar væri bersýnilega tilhæfulaus. […] væri t.a.m. á lista Útlendingastofnunar yfir örugg ríki, sbr. 3. mgr. 50. gr. d útlendingalaga. Því bæri að hafna umsókn kæranda um hæli á Íslandi.

 Varðandi mat stofunarinnar á því hvort að uppfyllt væru skilyrði um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f. laga um útlendinga fékk stofnunin ekki séð að aðstæður kæranda í heimalandi eða dvalarlandi væru slíkar að þær réttlætu veitingu dvalarleyfis á grundvelli ákvæðisins hvorki með vísan til mannúðarsjónarmiða né vegna sérstakra tengsla kæranda við Ísland. Var kæranda og dóttur hennar synjað um dvalarleyfi á þeim grundvelli og athygli kæranda enn og aftur vakin á því að henni og dóttur hennar væri heimilt að dvelja hér á landi án dvalarleyfis.

 Að öðru leyti er vísað til þess er fram kemur í ákvörðun Útlendingastofnunar.

  

IV.       Málsástæður og rök kæranda

 Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi sé fædd og uppalin í […] og sé með með […] ríkisborgararétt. Fram kemur að hún hafi kynnts eiginmanni sínum í Þýskalandi í lok árs 2011 en honum hafði verið veitt flóttamannastaða þar í landi þann 18. nóvember 2010. Þegar kærandi hafi greint foreldrum sínum frá sambandi hennar við eiginmann sinn, sem er íranskur ríkisborgari, hafi þau verið mótfallin því og reynt að stía þeim í sundur.

 Kærandi tekur fram að hótanir frá foreldrum hennar hafi m.a. birst í hótunum gegnum tölvupóst en einnig hafi þau einu sinni komið heim til þeirra og kærandi hafi hringt á lögregluna. Kærandi kveður föður sinn skapstóran og eiga við áfengisvandamál að stríða. Einnig sé hann áhrifamikill í […] samfélagi og hafi tengsl við stjórnmálamenn. Kærandi kveður að faðir hennar hafi í eitt skiptið reynt að fá […]. Í framhaldi af því hafi kærandi og eiginmaður hennar ákveðið að fara til […] og hafi eiginmaður hennar þá afsalað sér stöðu sinni sem flóttamaður í Þýskalandi. Fjölskyldan hafi síðan yfirgefið […] í maí 2014 þar sem þeim hafi þótt erfitt […]

 Kærandi telur að ef hún og fjölskylda hennar verða endursend til […] muni ofsóknir af hálfu foreldra hennar halda áfram og þau muni taka dóttur hennar af henni og neyða hana til að skilja við eiginmann sinn. Kærandi kveður einnig að eiginmaður hennar hafi sætt mismunun og fordómum í […]. Kærandi kveðst hafa leitað til yfirvalda í […] en ekki fengið þá aðstoð eða vernd sem hún ætti að fá.

 

  VI.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

 1. Lagarök

 Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002, um útlendinga, með síðari breytingum, reglugerð nr. 53/2003, um útlendinga, með áorðnum breytingum og alþjóðasamningur um stöðu flóttamanna frá 1951 ásamt viðauka við samninginn frá 1967. Jafnframt ber að líta til ákvæða Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

 2. Niðurstaða

 Líkt og fram hefur komið krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og henni breytt á þann hátt að kærandi og dóttir hennar fái réttarstöðu flóttamanna skv. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, sbr. 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga.

 Réttarstaða barns kæranda

 Kærandi á eina dóttur sem er með henni í för. Haldast úrskurðir er varða foreldra og börn þeirra í hendur í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar, þegar barn er í fylgd annars eða beggja foreldra. Ljóst er að barn það sem hér um ræðir er í fylgd beggja foreldra sinna.

 Auðkenni

 Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að þegar kærandi og dóttir hennar sóttu um hæli á Íslandi lögðu þær fram […] vegabréf. Telur kærunefndin því ljóst að þær séu […] ríkisborgarar.

 Landaupplýsingar

 […]

 Ákvæði 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga

 Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir flóttamannasamninginn eða ákvæði 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga. Kærandi byggir kröfu sína á því að hún hafi þörf fyrir vernd hér á landi á grundvelli þess að foreldrar hennar séu að reyna að stía henni og eiginmanni hennar í sundur. Einnig telur kærandi eiginmann sinn verða fyrir mismunun í […].

 Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

 Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Um skilyrði þess að teljast flóttamaður er frekar mælt í 44. gr. a.

 Almennt ber að telja ótta umsækjanda ástæðuríkan ef hann getur sýnt fram á, upp að hæfilegu marki, að áframhaldandi dvöl í heimalandi sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í ákvæðinu, eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Þessi sjónarmið þurfa jafnframt ekki endilega að byggjast á persónulegri reynslu umsækjanda, heldur geta ofsóknir sem vinir hans eða ættingjar eða aðrir sem tilheyra sama þjóðfélagshópi hafa orðið fyrir, gefið til kynna að ótti hans við að verða fyrr eða síðar fórnarlamb ofsókna sé ástæðuríkur.

 Í 44. gr. a útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir, á hvaða grundvelli ofsóknir eru sem kalla á alþjóðlega vernd og hvaða aðilar geta verið valdir að ofsóknum. Í ákvæðinu er hins vegar ekki um tæmandi talningu að ræða að því er varðar grundvöll ofsókna eins og orðalag greinarinnar ber með sér. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

 Til þess að um sé að ræða ofsóknir skv. 1. mgr. 44. gr. verður að vera um að ræða athafnir sem í eðli sínu, eða vegna þess að þær eru endurteknar, fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samansafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

 Í 3. mgr. 44. gr. a eru taldir upp þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þar segir að:

 Þeir sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eru: 
   a. ríkið,
   b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess, og
   c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið þessarar málsgreinar, þar með talið alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 44. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

 Þótt fallist sé á að einstaklingur í þessari aðstöðu skuli njóta vafans upp að ákveðnu marki, verður kærandi a.m.k. að sýna fram á einhverjar líkur séu á að hennar bíði ofsóknir í […]. Samkvæmt meginreglum um túlkun flóttamannahugtaksins í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, er m.a. miðað við það að hugarástand flóttamannsins skipti ekki meginmáli heldur verður yfirlýsing hans að vera studd hlutlægum aðtæðum (Handbók um réttarstöðu flóttamanna. Um málsmeðferð og skilyrði samkvæmt flóttamannasamningnum frá 1951 og bókun frá 1967 um réttarstöðu flóttamanna. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Reykjavík 2008).

 Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að samskipti kæranda við foreldra sína geti ekki talist ofsóknir í skilningi 44. gr. útlendingalaga, sbr. 44. gr. a sömu laga. Stofnunin telur heldur ekki að ástæða sé til að ætla að kærandi eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum, eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hún send aftur til heimalands síns. Í ljósi ofangreindra skýrslna og þess sem fram hefur komið í máli kæranda fellst kærunefnd útlendingamála á þá túlkun stofnunarinnar og telur kærunefndin að kæranda hafi ekki tekist að gera sennilegt að hennar bíði ofsóknir […]. Að öllu framangreindu telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga fyrir veitingu stöðu flóttamanns.

 Ákvæði 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga

 Í ákvæðinu er kveðið á um að flóttamaður samkvæmt útlendingalögum telst einnig útlendingur sem telst ekki  flóttamaður samkvæmt ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands. Er hér um að ræða svokallaða viðbótarvernd sem kom inn í útlendingalögin með lögum nr. 115/2010 um breytingar á útlendingalögum. Þeir sem teljast falla undir þessa málsgrein fá stöðu sína viðurkennda eftir málsmeðferðarreglum sem eru sambærilegar að öllu leyti við ákvörðun á því hvort um flóttamann skv. 1. mgr. 44. gr. laganna er að ræða og eiga þeir rétt á hæli skv. 46. gr. laganna með sama hætti og flóttamenn skv. 1. mgr. 44. gr. Er þetta í samræmi við skýrslu nefndar um meðferð hælisumsókna sem kynnt var árið 2009 og byggist á því að ljóst sé að þörf þeirra sem falla undir 2. mgr. 44. gr. laganna fyrir vernd sé í raun hin sama og þeirra sem uppfylla skilyrði flóttamannahugtaksins og réttindi sem fylgja slíkri vernd ættu því að vera sambærileg réttindum einstaklings sem veitt er réttarstaða flóttamanns.

 Í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 115/2010 um breytingar á útlendingalögum greinir að telja verði að ákvæði 2. mgr. 44. gr. laganna geti tekið til einstaklinga sem stafar alvarleg ógn af tilviljanakenndu ofbeldi, eftir mati á aðstæðum í hverju tilviki. Er þá til þess að líta að þær aðstæður mundu oft falla að skilyrðinu um að raunhæf ástæða væri til að ætla að viðkomandi ætti á hættu að sæta pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð, eða að aðstaða viðkomandi myndi falla undir ákvæði 45. gr. um bann við því að vísa fólki brott.

 Hvað varðar frekari afmörkun hugtaksins er í fyrrgreindum athugasemdum einnig vísað í dóm Evrópudómstólsins (Mál C-465/07, Elgfaji v Staatssecretaris van Justitie) þar sem því var slegið föstu að til þess að einstaklingur teldist uppfylla skilyrði viðbótarverndar á þeim grundvelli að honum væri búin alvarleg og bein lífshætta vegna handahófskennds ofbeldis, réði ekki úrslitum hvort hann gæti sannað að ofbeldið beindist persónulega að sér. Nægilegt gæti verið fyrir hann að sýna fram á að slík hætta væri til staðar þegar víðtækt handahófskennt ofbeldi viðgengist í viðkomandi landi og rökstudd ástæða væri til að ætla að maður sem kæmi til landsins eða ákveðins hluta þess yrði slík hætta búin, með því einu að vera staddur á svæðinu.

 Í ljósi alls framangreinds telur kærunefndin að aðstæður kæranda í heimalandi hennar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga. Þá telur kærunefndin ekkert fram komið sem bendi til þess að hætt sé við því að kærandi sæti ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð af hendi stjórnvalda við heimkomuna, sbr. 2. mgr. 44. og 1. mgr. 45 gr. laganna. Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og henni verði veitt hæli hér á landi hafnað.

 Dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga

 Samkvæmt 12. gr. f er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla hans við landið. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að veita má dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. 

 Í athugasemdum við 12. gr. f laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 115/2010, greinir að fara skuli fram heildarmat á öllum þáttum málsins áður en leyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða er veitt. Þá er að auki vikið nánar að þeim viðmiðum sem nefnd eru í 2. mgr. 12. gr. f. Með mjög íþyngjandi félagslegum aðstæðum viðkomandi er vísað til þess að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimalandi. Með íþyngjandi aðstæðum að öðru leyti er einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Auk þess sem áður er rakið gæti ákvæðið tekið til óvenjulegra aðstæðna á borð við náttúruhamfarir eða langvarandi stríðsástand í heimaríki en ekki yrði að jafnaði talið að ákvæðið tæki til neyðar af efnahagslegum rótum, svo sem fátæktar, hungursneyðar eða húsnæðisskorts.

 Ljóst er að kærandi hefur einungis dvalið hér á landi í tengslum við hælisumsókn sína, eða frá 5. nóvember 2014 og í skamman tíma um sumarið 2014. Þá greindi kærandi frá því við skýrslutöku hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum og í viðtali hjá Útlendingastofnun þegar kærandi sótti upprunalega um hæli að hún hefði engin sérstök tengsl við Ísland.

 Líta verður til þess að […] er aðili að fjölmörgum alþjóðlegum sáttmálum sem og Evrópusambandinu en til þess að gerast aðili að því þarf ríki að tryggja ríkisborgurum sínum grundvallarmannréttindi og mannfrelsi. Vísar kærunefndin að öðru leyti til umfjöllunar um landaupplýsingar að ofan varðandi aðstæður í […].

 Þegar framburður kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á að aðstæður hennar í […] eða tengsl við Ísland séu með þeim hætti að uppfyllt séu skilyrði til að veita dvalaleyfi á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga.

 

Niðurstaða

 Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála að staðfesta skuli hina kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar.

 Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd hennar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.

 

 Úrskurðarorð

 Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. desember 2014, í máli […] er staðfest.

 The Directorate of Immigration‘s decision, dated 15 December 2014, in the case of […] is affirmed.

 

 Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

  

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                                                           Pétur Dam Leifsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta