Hoppa yfir valmynd
9. september 2015 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 114/2015

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 9. september 2015 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 114/2015

í stjórnsýslumáli nr. KNU15040008


Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

 Með stjórnsýslukæru, dags. 3. mars 2015, kærði […] f.h. […], fd. […], ríkisborgara […], þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. febrúar 2015, að synja kæranda um dvalarleyfi vegna skorts á vinnuafli, sbr. 12. gr. a laga um útlendinga nr. 96/2002 og dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla hans við landið, sbr. 12. gr. f sömu laga.

 Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að veita kæranda leyfi til dvalar hér á landi. Til vara gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun gert að taka nýja ákvörðun í máli kæranda.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

 

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins sótti kærandi um dvalarleyfi vegna skorts á vinnuafli þann 28. ágúst 2014. Þeirri umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar þann 16. febrúar 2015. Var kæranda einnig synjað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla hans við landið. Þá liggur fyrir í málinu að með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. desember 2014, hafði kæranda verið synjað um útgáfu atvinnuleyfis hér á landi.

Með bréfi, dags. 3. mars sl.,  var framangreind ákvörðun Útlendingastofnunar kærð til kærunefndar útlendingamála. Með tölvupósti, dags. 14. apríl 2015 var óskað eftir athugasemdum stofnunarinnar vegna kærunnar ef einhverjar væru auk afrits af gögnum málsins. Umbeðin gögn bárust kærunefnd útlendingamála þann 16. apríl 2014. Þá bárust nefndinni viðbótargögn frá kæranda á tímabilinu 1. maí til 15. júlí.

 Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

 

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

 Ákvörðun Útlendingastofnunar byggði á því að skv. 12. gr. a útlendingalaga væri það forsenda fyrir útgáfu dvalarleyfis vegna skorts á vinnuafli að áður hafi verið gefið út atvinnuleyfi skv. 9. eða 15. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. b-lið 1. mgr. 12. gr. a laga um útlendinga. Kæranda hafi hins vegar verið synjað um atvinnuleyfi með ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 16. desember 2014. Umsókn kæranda um dvalarleyfi vegna skorts á vinnuafli, sbr. 12. gr. a laga um útlendinga, hafi því verið synjað. Þá mat stofnunin það svo að tengsl kæranda væru ekki með þeim hætti að unnt væri að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla hans við landið, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga nr. 96/2002.

 

IV.       Málsástæður og rök kæranda

 Kærandi byggir kröfu sína um ógildingu ákvörðunar Útlendingastofnunar meðal annars á því að mál hans hafi ekki verið rannsakað með nægjanlegum hætti.

Í kærunni greinir að tengsl hans við Ísland séu góð. Hann sé í sambandi við fyrrum eiginkonu sína og dóttur sem báðar séu búsettar hér á landi. Fram kemur að hann og fyrrum eiginkona hans hafi í hyggju að láta reyna á samband þeirra að nýju. Kærandi heldur því fram að staðhæfingar Útlendingastofnunar um að hann og dóttir hans hafi verið aðskilin og haft lítið sem ekkert samband hvort við annað í mörg ár sé ekki rétt. Kærandi hafi eftir fremsta megni reynt að hitta dóttur sína. Hann hafi ferðast til Íslands og dvalið með henni og móður hennar og þá hafi þær mæðgur einnig ferðast til […] og dvalið hjá honum. Samskipti milli þeirra séu góð og hann og dóttir hans talist við daglega í gegnum samskiptaforrit. Kærandi gerir athugasemdir við orðalag ákvörðunar Útlendingastofnunar, en þar sé byggt á því að hann hafi ekki verið í neinum tengslum við fyrrverandi eiginkonu sína og barn. Þetta sé sé rangt hjá stofnuninni, en hið rétta sé líkt og áður greinir að hann sé í miklum samskiptum við þær. Hann hafi t.a.m. dvalist hér á Íslandi sumarið 2014 á grundvelli vegabréfsáritunar. Útlendingastofnun hafi hins vegar byggt á því að ekki hefðu legið fyrir upplýsingar um hvort kærandi væri í samskiptum við þær mæðgur og að hvaða leyti. Telur kærandi að með því að byggja ákvörðun sína á órökstuddum staðhæfingum hafi stofnunin brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Kærandi hafi boðist til að leggja fram ljósmyndir og önnur gögn sem sannað gætu samskipti hans við dóttur sína en Útlendingastofnun hafi afþakkað slík gögn og enga þörf talið á framlagningu þeirra.

 Að lokum byggir kærandi á því að í ákvörðun Útlendingastofnunar sé hvergi vikið að réttindum barns kæranda. Barn kæranda eigi lögvarinn rétt á að umgangast föður sinn m.a. samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, en þar sé kveðið á um að  ávallt skuli hafa það í huga sem er barninu fyrir bestu.

 V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Mál þetta lýtur að því hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja umsókn kæranda frá 29. október 2013 um útgáfu dvalarleyfis vegna skorts á vinnuafli, sbr. 12. gr. a útlendingalaga og sérstakra tengsla við landið, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga.

Í 12. gr. a laga um útlendinga nr. 96/2002 er fjallað um heimildir til útgáfu dvalarleyfis vegna skorts á vinnuafli. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæðinu eru m.a. þau að útlendingur fullnægi skilyrðum 1. og 2. mgr. 11. gr. laganna, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. a, og að atvinnuleyfi á grundvelli 9. eða 15. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga hafi verið veitt, sbr. b-lið 1. mgr. 12. gr. a útlendingalaga. Í máli þessu liggur fyrir að með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. desember 2014, var umsókn umsækjanda um atvinnuleyfi synjað og hefur þeirri ákvörðun ekki verið hnekkt. Það er því niðurstaða kærunefndar að skilyrði til útgáfu dvalarleyfis vegna skorts á vinnuafli séu ekki uppfyllt í tilviki kæranda.

 Verður því næst tekið til skoðunar hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga.

Samkvæmt 12. gr. f útlendingalaga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt ekki sé fullnægt öllum skilyrðum 11. gr., ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendings við landið. Við mat á sérstökum tengslum hefur verið litið til þess hvort útlendingur hafi búið hér áður, eða hvort hann eigi hér ættingja, án þess þó að hann falli undir skilgreiningu á hugtakinu aðstandandi skv. 13. gr. laganna. Þessi sjónarmið eru þó ekki tæmandi og telur kærunefndin að líta megi til fleiri atriða við mat á því hvort sérstök tengsl séu fyrir hendi. Hinn 10. mars 2014 setti innanríkisráðuneytið fram leiðbeinandi sjónarmið í þeim efnum þar sem útlistað er til hvaða atriða horfa skal við túlkun á 1. mgr. 12. f laga um útlendinga.  Þar kemur fram að til greina komi að veita dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla þegar umsækjandi á barn/börn hér á landi sem ekki eru íslenskir ríkisborgarar, en umsækjandi þarf að hafa verið virkur í umgengni við barnið og hyggjast vera það áfram til að geta fengið dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga. Þá verður ávallt að hafa í huga að í almennum athugasemdum við 12. gr. f laga, sbr. 10. gr. laga nr. 86/2008, er áréttað að um undanþáguheimild sé ræða sem meta þarf í hverju tilviki fyrir sig hvort ástæða sé til að beita. Við útgáfu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið skal ávallt fara fram heildstætt mat á aðstæðum kæranda í hverju tilviki. Við mat á sérstökum tengslum við landið er m.a. horft til þess hve lengi einstaklingur hefur dvalist löglega á landinu, hvort hann eigi hér nákomna ættingja, auk annarra tengsla við landið svo sem vegna atvinnu eða félagslegrar- menningarlegrar þátttöku.

 Útlendingastofnun kannaði hvort kærandi kynni að eiga rétt á dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga. Var það niðurstaða stofnunarinnar að kærandi teldist ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Kærandi hafi eingöngu dvalist í skamman tíma hér á landi á grundvelli vegabréfsáritunar, þá séu hann og fyrrum eiginkona hans ekki lengur í samvistum. Einu tengsl kæranda við landið eru þau að hann á dóttur hér á landi og hefur komið hingað til lands sem ferðamaður.

 Líkt og tekið er fram í hinni kærðu ákvörðun sem og almennum athugasemdum við  12. gr. f útlendingalaga er um undanþáguheimild að ræða sem meta þarf í hverju tilviki fyrir sig hvort rík ástæða sé til að beita. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi eigi barn hér á landi sem búsett hefur verið hér á landi með móður sinni frá […]. Kærandi hefur engin önnur tengsl við landið. Í framkvæmd hefur verið litið svo á að þegar um fullorðna einstaklinga er að ræða, nægi það eitt og sér að þeir eigi ættingja hér á landi, jafnvel börn, ekki til þess að talið verði að þeir hafi sérstök tengsl við landið í skilningi 12. gr. f útlendingalaga. Í því ljósi sem og vegna þess að ekkert annað er fram komið sem bendir til þess að kærandi hafi sérstök tengsl við Ísland eða að aðstæður hans í heimalandi séu með einhverjum þeim hætti að fallið geti undir ákvæðið er það mat kærunefndar að staðfesta beri ákvörðun Útlendingastofnunar hvað dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga varðar.

 Kærandi byggir líkt og áður segir á því að litið hafi verið framhjá réttindum barns síns við töku ákvörðunar í máli hans. Ekkert við meðferð málsins hefur gefið tilefni til þess að ætla að brotið sé gegn ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, eða annarra ákvæða íslenskrar löggjafar um börn verði kæranda synjað um dvalarleyfi hér á landi.

Að lokum gerir kærandi athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki viljað taka við gögnum frá honum sem hann taldi að varpað gætu ljósi á samband hans við dóttur sína og fyrrum eiginkonu. Kærunefnd útlendingamála hefur yfirfarið gögnin og telur að þau hefðu ekki haft áhrif á niðurstöðu málsins. Þá getur kærunefndin ekki fallist á að slíkir annmarkar hafi verið á ákvörðun Útlendingastofnunar vegna þessa að ógilda beri hina kærðu ákvörðun.

Að framansögðu er það mat kærunefndar útlendingamála að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

 Úrskurðarorð


Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

 

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                                          Pétur Dam Leifsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta