Hoppa yfir valmynd
16. september 2015 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 133/2015

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 16. september 2015 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 133/2015

í stjórnsýslumáli nr. KNU15040011


 Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

 Með stjórnsýslukæru sem barst kærunefnd útlendingamála þann 21. apríl 2015 kærði […] hdl. f.h. […], fd. […], ríkisborgara […], þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. mars 2015, að synja kæranda um dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar skv. 12. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002.

 Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

 Kærandi lagði ekki fram greinargerð í málinu og verður málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

 

II.         Málsatvik og málsmeðferð

 Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins sótti kærandi um dvalarleyfi hér á landi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar með umsókn, dags. 21. febrúar 2014. Var þeirri umsókn kæranda synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. mars 2015, og er það sú ákvörðun sem til umfjöllunar er í kærumáli þessu. Fyrir liggur að með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. febrúar 2015, var kæranda synjað um útgáfu atvinnuleyfis hér á landi.

 Framangreind ákvörðun Útlendingastofnunar var kærð til kærunefndar útlendingamála með stjórnsýslukæru þann 21. apríl 2015. Með bréfi, dags. 27. apríl 2015, óskaði kærunefnd útlendingamála eftir athugasemdum Útlendingastofnunar vegna kærunnar ef einhverjar væru auk afrits af gögnum málsins. Umbeðin gögn bárust kærunefndinni með tölvupósti þann 28. apríl 2015. Kæranda var gefinn kostur á að leggja fram greinargerð í málinu með bréfi, dags. 9. júlí 2015. Kærunefndinni barst engin greinargerð frá kæranda.

 Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

 

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

 Ákvörðun Útlendingastofnunar byggir á því að skv. 12. gr. útlendingalaga sé það forsenda fyrir útgáfu dvalarleyfis vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar að áður hafi verið gefið út atvinnuleyfi skv. lögum nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga. Kæranda hafi verið synjað um atvinnuleyfi með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. febrúar 2015. Umsókn kæranda hjá Útlendingastofnun hafi því verið synjað.

 

IV.       Málsástæður og rök kæranda

 Kærandi lagði ekki fram greinargerð í málinu. Þá var ekki gerð frekari grein fyrir málsástæðum og rökum kæranda í kæru til nefndarinnar.

 

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

 Mál þetta lýtur að því hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja umsókn kæranda frá 21. febrúar 2014 um útgáfu dvalarleyfis vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar.

 Í 12. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 er fjallað um heimildir til útgáfu dvalarleyfis vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæðinu eru m.a. þau að útlendingur fullnægi skilyrðum 1. og 2. mgr. 11. gr. laganna, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr., og að atvinnuleyfi á grundvelli laga um atvinnuréttindi útlendinga hafi verið veitt, sbr. b-lið 1. mgr. 12. gr. útlendingalaga. Í máli þessu liggur fyrir að með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. febrúar 2015, var umsókn umsækjanda um atvinnuleyfi synjað og hefur þeirri ákvörðun ekki verið hnekkt. Því er ljóst að skilyrði til útgáfu dvalarleyfis vegna sérfræðiþekkingar eru ekki uppfyllt í tilviki kæranda.

 Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar útlendingamála að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

  

 Úrskurðarorð

 Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

 

 Oddný Mjöll Arnardóttir                                                                                                        Vigdís Þóra Sigfúsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta