Úrskurður nr. 115/2015
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 9. september 2015 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 115/2015
í stjórnsýslumáli nr. KNU15030006
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Með stjórnsýslukæru sem barst kærunefnd útlendingamála þann 27. febrúar 2015 kærði […] hdl., f.h. […], kt. […], ríkisborgara […] (hér eftir nefndur kærandi), þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. febrúar 2015, um að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla hans við landið.
Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum veitt heimild til dvalar á Íslandi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara, sbr. 13. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002, um útlendinga, og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sótti kærandi fyrst um dvalarleyfi hér á landi þann 21. september 2010 á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara. Kærandi dró umsókn sína til baka og lagði inn nýja umsókn á sama grundvelli 15. desember 2010. Var kæranda veitt dvalarleyfi á grundvelli hjúskaparins með gildistíma frá 17. maí 2011 til 31. ágúst 2011. Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli náms og fékk veitt námsmanna- og atvinnuleyfi 13. október 2011 með gildistíma til 1. febrúar 2012. Kærandi sótti um endurnýjun á því leyfi þann 31. janúar 2012, en sú umsókn var lögð upp. Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli skorts á vinnuafli þann 11. apríl 2012, var þeirri umsókn synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. ágúst 2013. Hin síðastnefnda ákvörðun var kærð til innanríkisráðuneytisins sem staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar með úrskurði þann 10. júní 2014. Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla þann 26. september 2014 og var synjað um útgáfu dvalarleyfis með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. febrúar 2015. Er það sú ákvörðun sem til umfjöllunar er í kærumáli þessu.
Framangreind ákvörðun Útlendingastofnunar var kærð til kærunefndar útlendingamála með tölvupósti, dags. 27. febrúar 2015. Greinargerð kæranda barst kærunefndinni með tölvupósti þann 10. apríl 2015. Viðbótargögn bárust nefndinni þann 28. júlí 2015, m.a. afrit af þinglýstum húsaleigusamningi auk afrita af póstsendingum.
Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Með ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda synjað um útgáfu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga nr. 96/2002. Byggði stofnunin m.a. á því að 12. gr. f laga um útlendinga væri undantekningarákvæði sem beri að túlka þröngt. Kærandi hafi einungis dvalist hér á landi í löglegri dvöl í átta mánuði. Hann hafi engin fjölskyldutengsl við landið og tengsl hans við upprunaland væru sterkari en tengsl við Ísland. Þá hafi kærandi ekki verið í virkri atvinnuþátttöku um nokkurt skeið. Stofnunin byggði á því að skv. leiðbeinandi sjónarmiðum við veitingu dvalarleyfis vegna sérstakra tengsla, gefnum út af innanríkisráðuneytinu þann 10 mars 2014, geti sjónarmið um félagsleg tengsl eða tengsl vegna atvinnuþátttöku ein og sér aldrei verið næg ástæða fyrir útgáfu dvalarleyfis vegna sérstakra tengsla.
IV. Málsástæður og kröfur kæranda
Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og lagt verði fyrir Útlendingastofnun að veita honum dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga vegna sérstakra tengsla við landið.
Til vara er þess krafist að kærunefnd útlendingamála felli ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og leggi fyrir stofnunina að taka málið til meðferðar að nýju.
Til þrautavara er þess krafist að kærunefnd útlendingamála felli ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og leggi fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda til meðferðar með tilliti til þess hvort hann eigi rétt á dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar vegna óvígðrar sambúðar hans með íslenskum ríkisborgara.
Kærandi byggir á því að hann hafi verið hér á landi í löglegri dvöl allan þann tíma sem hann hefur haft dvalarleyfi hér á landi, auk þess sem að dvöl hans hér á landi á meðan mál hans hefur verið til meðferð hafi verið á lögmætum grundvelli, sbr. 2. mgr. 14. gr. útlendingalaga.
Þá byggir kærandi á því að hann hafi myndað sterk tengsl við landið á þeim tíma sem hann hefur dvalist hér. Ekki sé unnt að horfa fram hjá þeim tíma sem hann hefur verið hér á landi án dvalarleyfis. Hann hafi stofnað til sterkra félagslegra tengsl í gegnum nám og starf hér á landi. Þá hafi hann hafið sambúð […] en þeim er ekki unnt að skrá sambúðina af ástæðum er varða Þjóðskrá Íslands. Kærandi telur að synjun á útgáfu dvalarleyfis muni raska friðhelgi einkalífs hans sem vernduð er með ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 1. mgr. 71. gr., sem og mannréttindasáttmála Evrópu líkt og hann var lögfestur hér á landi með lögum nr. 64/1994, sbr. 8. gr. mannréttindasáttmálans.
Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í máli þessu er til úrlausnar hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga.
Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 96/2002, með síðari breytingum og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Samkvæmt 12. gr. f laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt almennum skilyrðum fyrir dvalaleyfi sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendings við landið. Í þessu máli ber að líta til þess hvort kærandi uppfylli skilyrði ákvæðisins um sérstök tengsl við landið. Í ákvæðinu sjálfu eru ekki veittar neinar leiðbeiningar um hvað teljist vera sérstök tengsl við landið en ákvæðið felur í sér að stjórnvöldum er falið að meta í einstökum tilvikum hvort tengsl útlendings séu svo sérstök að þau réttlæti veitingu dvalarleyfis á þessum grundvelli. Við mat á sérstökum tengslum hefur verið litið til þess hvort útlendingur hafi búið eða unnið hér og þá hve lengi, eða hvort hann eigi hér ættingja, án þess þó að hann falli undir skilgreiningu á hugtakinu nánasti aðstandandi skv. 13. gr. laganna. Fær það stoð í greinargerð með ákvæði 2. mgr. 11. gr. eldri útlendingalaga, sem nú er að finna efnislega óbreytt í 12. gr. f útlendingalaga, sbr. 10. gr. laga nr. 86/2008.
Kærunefnd útlendingamála telur að sá samanburður sem Útlendingastofnun gerir í ákvörðun sinni varðandi tengsl kæranda við heimaland hans og sérstakra tengsla við Ísland skorti lagastoð. Sé horft til inntaks 12. gr. f laga um útlendinga er ljóst að ekkert bendir til þess að ætlun löggjafans hafi verið að takmarka rétt manna til dvalarleyfis hér á landi við þær sérstöku aðstæður þegar tengsl þeirra við heimaríki hafi rofnað eða séu með einhverju móti ekki sérstakari en tengsl þeirra við Ísland. Það eitt að kærandi hafi dvalist lengur í heimalandi sínu og haldi enn tengslum við það getur ekki talist gildur rökstuðningur fyrir því að sérstök tengsl hans við Ísland séu ekki næg. Af þeim sökum byggir kærunefndin á því að tengsl kæranda við heimaland hans dragi ekki úr vægi sérstakra tengsla hans við Ísland við mat á því hvort heimilt sé að veita honum dvalarleyfi skv. 12. gr. f laga um útlendinga.
Kærunefndin fellst ekki á það með kæranda að hann hafi dvalist löglega á landinu allan þann tíma sem umsóknir hans hafa verið til vinnslu hjá Útlendingastofnun. Engin gögn hafa verið lögð fram sem gefa til kynna að kæranda hafi verið heimilað að dvelja á landinu á meðan fyrsta umsókn hans var til meðferðar enda greinir í ákvörðun Útlendingastofnunar að kærandi hafi aðeins dvalið hér á landi í löglegri dvöl í átta mánuði. Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi þann 17. maí 2011 með gildistíma til 31. ágúst 2011. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. útlendingalaga skal útlendingur sem óskar eftir endurnýjun dvalarleyfis sækja um hana eigi síðar en fjórum vikum áður en dvalarleyfi fellur úr gildi. Sé sótt um endurnýjun innan tilskilins frests er útlendingi heimilt að dveljast hér á landi þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsókn hans. Að öðrum kosti skal útlendingur hverfa úr landi áður en leyfi hans rennur út. Kærandi lagði inn nýja umsókn um dvalarleyfi þann 31. ágúst 2011 og því er ljóst er að kærandi sótti ekki um endurnýjun á dvalarleyfi innan tilskilins frests. Kærandi fékk útgefið námsmanna- og atvinnuleyfi þann 13. október 2011 með gildistíma til 1. febrúar 2012. Hann sótti síðan um endurnýjun á því dvalarleyfi 31. janúar 2012. Af framangreindu er því ljóst að kærandi hefur dvalist hér á landi á grundvelli dvalarleyfis í aðeins átta mánuði.
Kærandi heldur því fram í greinargerð sinni að vanræksla Útlendingastofnunar á leiðbeiningarskyldu sinni hafi leitt til verulegra tafa á umsóknar hans. Líkt og áður hefur verið rakið hefur kærandi lagt inn sex umsóknir um dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun á tímabilinu 21. september 2010 til 26. september 2014. Kæru á ákvörðun Útlendingastofnunar lauk með úrskurði innanríkisráðuneytisins þann 10. júní 2014. Í úrskurðinum var rakið að ekkert í gögnum málsins hefði bent til þess að ákvörðun Útlendingastofnunar frá 13. ágúst 2013 eða undirbúningur hennar hefðu verið haldin einhverjum þeim annmörkum sem leitt gætu til ógildingar. Þá hefur kærunefndin farið yfir gögn málsins og fær ekki séð að annmarkar hafi verið á ákvörðun Útlendingastofnunar, hvorki er varða tafir sem geti talist óeðlilegar á málinu, né að stofnunin hafi vanrækt að leiðbeina kæranda um rétt hans til dvalar á öðrum grunvelli en þeim er hann sótti um. Kærandi lagði inn umsókn sína um dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun þann 26. september 2014, málinu lauk með ákvörðun 9. febrúar 2015. Umsókn kæranda var því til meðferðar hjá stofnuninni í tæpa rúma 5 mánuði.
Kærandi byggir á því í greinargerð sinni að brotið hafi verið gegn stjórnarskrárvörðum réttindum hans. Með því að synja kæranda um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla hans við landið hafi friðhelgi einkalífs hans verið raskað. Þau réttindi sem kærandi njóti séu vernduð af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands sem og 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur var með lögum nr. 62/1994. Kærandi vísar máli sínu til stuðnings m.a. til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í málum Maslov gegn Austurríki (1638/03) og telur, með vísan til dómsins og síðari dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu, að ljóst sé að þau persónulegu tengsl sem kærandi hefur myndað við landið á dvalartíma skuli njóta verndar skv. 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmálans. Þá byggir kærandi einnig á því að með dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Nunez gegn Noregi (55597/09) hafi dómstóllinn slegið því föstu að þau tengsl sem einstaklingur myndar í ólögmætri dvöl geti staðið í vegi brottvísunar og tengsl sem myndist í slíkri dvöl skuli lögð til grundvallar og séu vernduð af 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmálans.
Það er mat kærunefndar að áðurnefndir dómar Mannréttindadómstólsins eigi ekki við um mál kæranda. Málin vörðuðu bæði brottvísanir einstaklinga sem gerst höfðu brotlegir við löggjöf aðildarríkis. Í máli kæranda er ekki um brottvísun að ræða, heldur synjun á útgáfu dvalarleyfis. Mál þessi vörðuðu auk þess annars vegar tengsl við börn aðila og hins vegar tengsl sem einstaklingur hafði myndað við land sem hann flutti til þegar hann var barn að aldri, en kærandi er ekki í sambærilegri aðstöðu.
Við útgáfu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið skal ávallt fara fram heildstætt mat á aðstæðum kæranda í hverju tilviki. Við mat á sérstökum tengslum við landið er m.a. horft til þess hve lengi einstaklingur hefur dvalist löglega á landinu, hvort hann eigi hér nákomna ættingja, auk annarra tengsla við landið svo sem vegna atvinnu, félagslegrar eða menningarlegrar þátttöku. Tengsl kæranda eru líkt og áður segir einkum menningarleg og félagsleg. Kærandi hafði hér atvinnu um skeið, auk þess sem hann stundaði hér nám. Fyrir liggur að kærandi á enga ættingja hér á landi. Þá hefur dvöl hans hér á landi á grundvelli dvalarleyfis verið skemmri en tvö ár. Kærunefndin telur hins vegar nægilega sannað að hann hafi verið í sambúð með íslenskri konu frá byrjun ferbrúar á þessu ári.
Þegar litið er til lengdar löglegrar dvalar kæranda á Íslandi og þeirra menningarlegu og félagslegu tengsla sem kærandi hefur myndað við þá dvöl verður ekki talið að heimilt sé að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga. Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi í febrúar 2015 hafið sambúð með íslenskri konu. Ekki eru efni til þess að svo stöddu að taka afstöðu til hvort heimilt sé að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar skv. 13. gr. útlendingalaga, enda var ekki sótt um slíkt leyfi og Útlendingastofnun hefur ekki metið hvort önnur skilyrði greinarinnar séu fyrir hendi.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður
Anna Valbjörg Ólafsdóttir Pétur Dam Leifsson