Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2017 Forsætisráðuneytið

710/2017. Úrskurður frá 2. nóvember 2017

Úrskurður

Hinn 2. nóvember 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 710/2017 í máli ÚNU 17050006.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 16. maí 2017, kærði A þá ákvörðun Háskóla Íslands að synja honum um aðgang að fyrirliggjandi eldri prófum í námskeiðinu Örverufræði (LÍF201G). Kærandi fór fram á aðgang að gögnunum með bréfum, dags. 10. janúar 2017 og 30. janúar 2017. Háskóli Íslands tók afstöðu til beiðninnar með bréfi, dags. 19. apríl 2017, þar sem kæranda var synjað um aðgang að eldri prófum með vísan til 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þar kemur fram að fyrirkomulag prófsins sé með þeim hætti að stór hluti spurninganna á hverju prófi hafi verið lagður fyrir áður, sumar oft áður og mörgum sé aðeins breytt lítillega milli ára. Sé það því allt eins mögulegt að um sama prófið sé að ræða á milli ára, þ.e. að próf sem lagt verði fyrir í framtíðinni verði eins og próf sem lagt hefur verið fyrir áður eða lítillega breytt. Því myndi aðgangur að eldri prófum í námskeiðinu hafa það í för með sér að próf í námskeiðinu yrði þýðingarlaust eða næði ekki tilætluðum árangri þar sem það væri á almannavitorði, sbr. 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 18. maí 2017, var Háskóla Íslands kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn. Jafnframt var óskað eftir afritum af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Umsögn Háskóla Íslands barst með bréfi, dags. 9. júní 2017, ásamt afritum af eldri prófum í námskeiðinu Örverufræði, dags. 2. maí 2012, 3. maí 2013, 29. apríl 2015, 2. mars 2016 og 28. apríl 2016.

Í umsögninni kemur fram að skólinn byggi á því að umrætt próf sé undanþegið upplýsingarétti vegna almannahagsmuna, sbr. 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Sérstaklega er áréttað að fyrirkomulag prófsins sé með þeim hætti að spurningar þess hafi verið notaðar áður og Háskólinn hafi í hyggju að nota þær aftur í framtíðinni. Þá segir að yrði það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að veita aðgang að prófunum hefði það í för með sér að fyrirhuguð próf í námskeiðinu yrðu þýðingarlaus eða næðu ekki tilætluðum árangri þar sem þau væru á almannavitorði, sbr. 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Aðgangur að prófspurningum myndi því skerða árangur af síðari próftöku í námskeiðinu. Þá kemur fram að Háskóli Íslands telji skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 12. gr. upplýsingalaga ekki uppfyllt, enda sé enn um fyrirhugaðar ráðstafanir að ræða og prófum því ekki að fullu lokið. Jafnframt segir að Háskólinn veiti stúdentum í langflestum námskeiðum skólans aðgang að eldri prófum, jafnvel þegar það sé kostnaðarsamt fyrir skólann að hanna og þróa sambærileg próf á hverju ári. Það sé aðeins í tilvikum eins og hér um ræði, þar sem afhending krossaprófa myndi skerða árangur af síðari próftöku, að Háskólinn takmarki aðgang að prófum. Það sé gert á faglegum grundvelli til að tryggja gæði námsmats fyrir nemendur framtíðar.

Umsögn Háskóla Íslands var kynnt kæranda með bréfi, dags. 14. júní 2017, og kæranda veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 20. júní 2017. Þar kemur fram að kærandi telji umrædd próf ekki fyrirhuguð og með vísan til meginreglu 5. gr. sbr. 2. tölul. 1. mgr. 12. gr. upplýsingalaga beri að veita aðgang að þeim.

Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni um aðgang að fyrirliggjandi eldri prófum í námskeiðinu Örverufræði sem kennt er í Háskóla Íslands.

Samkvæmt 1.mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna. Í umsögn sinni til úrskurðarnefndarinnar vísar Háskóli Íslands til 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga en þar er fjallað um takmarkanir á aðgangi almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjist vegna fyrirhugaðra ráðstafana eða prófa á vegum hins opinbera ef þau yrðu þýðingarlaus eða skiluðu ekki tilætluðum árangri, væru þau á almannavitorði. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 40/2012 segir að með prófum sé átt við hvers konar prófraunir sem opinberir aðilar standi fyrir. Augljóst sé að eigi próf að geta gefið óvilhalla niðurstöðu sé nauðsynlegt að halda öllum prófgögnum leyndum áður en próf er þreytt. Takmörkunin er undantekning frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Þá er tekið fram í 2. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna að veita skuli aðgang að gögnum þegar ráðstöfunum og prófum sé að fullu lokið nema aðrar takmarkanir samkvæmt lögunum eigi við.

Í umsögn Háskóla Íslands er því ekki haldið fram að nákvæmlega sama prófið sé lagt fyrir ár hvert í námskeiðinu heldur hafi hluti spurninganna verið notaður áður og verði notaður aftur í framtíðinni. Af þeim sökum er ekki unnt að fallast á það með skólanum að með því að veita aðgang að eldri prófum í námskeiðinu verði síðari próf þýðingarlaus eða skili ekki tilætluðum árangri í skilningi 5. tölul. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga. Ákvæðið er sem fyrr segir undantekning frá þeirri meginreglu að stjórnvöldum sé skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál eða tiltekin fyrirliggjandi gögn, sbr. 5. gr. upplýsingalaga. Aukin vinna við gerð nýrra prófa getur ekki vikið þeirri meginreglu sem birtist í 5. gr. upplýsingalaga. Af framangreindu leiðir að prófin sem kærandi krefst aðgangs að geta ekki talist fyrirhuguð í skilningi 5. tölul. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga. Því ber með vísan til meginreglu 5. gr., sbr. 2. tölul. 1. mgr. 12. gr., laganna að veita kæranda aðgang að þeim.

Úrskurðarorð:

Háskóla Íslands ber að veita kæranda, A, aðgang að eldri fyrirliggjandi prófum í námskeiðinu Örverufræði (LÍF201G).

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson

varaformaður

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta