Hoppa yfir valmynd
27. desember 2017 Forsætisráðuneytið

711/2017. Úrskurður frá 13. desember 2017

Úrskurður

Hinn 13. desember 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 711/2017 í máli ÚNU 17050001.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 9. maí 2017, kærði A hrl., fyrir hönd B, ákvörðun Háskóla Íslands, dags. 27. apríl 2017, um að synja beiðni kæranda um aðgang að tilteknum úrskurðum siðanefndar skólans þar sem fjallað er um 4. gr. starfsreglna siðanefndarinnar.

Í kæru kemur fram að í febrúar 2017 hafi [...] sent kæru til siðanefndar Háskóla Íslands vegna kæranda. Þar sem kæran varðaði siðareglur Háskóla Íslands og sætti málsmeðferð á grundvelli starfsreglna siðanefndar óskaði kærandi eftir afriti af úrskurðum siðanefndarinnar í málum þar sem nefndin hafi tekin ákvörðun á grundvelli 4. gr. starfsreglna nefndarinnar og þá einkum í frávísunarmálum. Hinn 27. apríl 2017 voru kæranda afhent afrit af tilteknum úrskurðum en synjað um aðgang að úrskurðum nr. 1/2009, 1/2012, 3/2012, 1/2013, 3/2013, 2/2014, 3/2014 og 2/2016.

Kærandi reisir rétt sinn til aðgangs að þessum úrskurðum á 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Telur kærandi það sæta furðu að Háskóli Íslands skuli synja um aðgang að úrskurðum siðanefndar skólans og þá sérstaklega í máli þar sem þeir hafi verulega þýðingu. Siðanefndinni sé ætlað að taka til meðferðar kærur sem lúti að því hvort brotið hafi verið gegn siðareglum Háskóla Íslands en slíkt geti haft áhrif á stöðu og orðspor starfsmanna skólans innan háskólasamfélagsins. Þeir sem kærðir séu hafi því mikla hagsmuni af því að fá aðgang að fyrri úrskurðum til að geta gert sér grein fyrir því hvernig starfsreglum nefndarinnar sé beitt í framkvæmd. Kærandi telur sig hafa mikla hagsmuni af því að fá aðgang að úrskurðunum enda hafi það mikla þýðingu fyrir mál hans hvernig siðanefndin beiti 4. gr. starfsreglna sinna í framkvæmd.

Kærandi bendir á að beiðni hans um aðgang hafi aðeins lotið að formkröfum siðanefndarinnar en ekki að efnisþáttum úrskurða nefndarinnar þar sem lýsing á einkahagsmunum aðila komi iðulega fram. Því ætti 9. gr. upplýsingalaga ekki að standa aðgangi kæranda í vegi. Vísað er til heimildar 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og úrskurða úrskurðarnefndar um upplýsingamál í málum nr. 489/2013 og 651/2016. Þá telur kærandi hagsmuni sína af því að fá aðgang að ákvörðunum siðanefndar vega þyngra en hagsmuni viðkomandi aðila af því að kæranda verði ekki veittur aðgangur að þeim.

Málsmeðferð

Kæran var send Háskóla Íslands til umsagnar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 10. maí 2017. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að.

Í umsögn Háskóla Íslands, dags. 25. maí 2017, kemur fram að ítarlega hafi verið farið yfir allar ákvarðanirnar sem óskað var aðgangs að. Sömu sjónarmiðum og aðferðafræði hafi verið beitt við mat á öllum ákvörðunum sem beiðnin lúti að. Að loknu því mati hafi niðurstaðan verið sú að veita kæranda aðgang að einni ákvörðun í heild sinni, aðgang að hluta að þremur ákvörðunum en synja um aðgang að átta ákvörðunum.

Í umsögninni er farið yfir þau rök sem lágu að baki þeirri ákvörðun að synja um aðgang að hverri og einni ákvörðun. Hvað varðar synjun á beiðni um aðgang að ákvörðun siðanefndarinnar í máli nr. 1/2009 kemur fram að ákvörðunin hafi að geyma viðkvæmar persónupplýsingar skv. b.-lið 8. tl. 2. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000. Með vísan til 9. gr. upplýsingalaga sé því óheimilt að veita almenningi aðgang að ákvörðuninni en sérstaklega sé tekið fram í athugasemdum við 9. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga að engum vafa sé undirorpið að viðkvæmar persónupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd séu allar undanþegnar aðgangi almennings.

Þá kemur fram að ákvarðanir siðanefndar í máli 3/2012 og 2/2014 geymi upplýsingar um trúar- og lífsskoðanir sem teljist til viðkvæmra persónupplýsinga skv. a-lið 8. tl. 2. gr. laga nr. 77/2000. Sé því óheimilt að veita aðgang að þeim, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Um ákvörðun siðanefndar í máli nr. 1/2013 segir að ákvörðunin hafi að geyma upplýsingar um heilsuhagi einstaklings sem teljist til viðkvæmra persónupplýsinga skv. c-lið 8. tl. 2. gr. laga nr. 77/2000 og því sé óheimilt að veita aðgang að henni sbr. 9. gr. upplýsingalaga.

Hvað varðar ákvarðanir nefndarinnar í málum nr. 1/2012, 3/2013, 2/2014 og 2/2016 þá hafi það verið niðurstaða Háskóla Íslands, eftir heildarmat á þeim upplýsingum sem fram koma í ákvörðununum, að þær hafi að geyma upplýsingar um viðkvæma einkahagsmuni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari. Sé því óheimilt að veita aðgang að þeim sbr. 9. gr. upplýsingalaga.

Í umsögninni er einnig tekið fram að ákvarðanirnar hafi í öllum tilvikum að geyma persónuupplýsingar um starfsmenn háskólans. Telur Háskóli Íslands því einsýnt að ákvarðanir siðanefndar, sem beiðnin taki til, séu gögn sem varði starfssamband viðkomandi starfsmanna við háskólann. Séu því ákvarðanirnar jafnframt undanþegnar upplýsingarétti almennings með vísan til 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Tekið er fram að í þeim tilvikum þar sem fallist var á að veita aðgang að hluta hafi verið unnt að afmá allar persónugreinanlegar upplýsingar úr viðkomandi ákvörðunum svo ekki væri hægt að rekja þær til viðkomandi starfsmanna háskólans. Sé það í samræmi við úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 566/2015 þar sem fram komi að þau gögn um starfsmenn sem falli undir 7. gr. upplýsingalaga séu gögn sem hafi að geyma persónuupplýsingar um starfsmenn.

Þá er vísað til þess að tekin hafi verið afstaða til þess hvort veita ætti aðgang að hluta þeirra ákvarðana sem synjað var um með vísan til 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Að virtu heildarmati á þeim ákvörðunum sem beiðnin tekur til hafi niðurstaðan verið sú að ekki sé unnt að veita aðgang að hluta enda markist umfjöllun og niðurstaða siðanefndar í málunum af þeim upplýsingum sem undanþegnar séu upplýsingarétti. Ekki sé fært að skilja þær upplýsingar sem skólanum sé óheimilt að veita aðgang að frá þeim upplýsingum sem veita megi aðgang að með einföldum hætti.

Umsögn Háskóla Íslands var kynnt kæranda með bréfi, dags. 29. maí 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust þann 11. júní 2017. Þar kemur m.a. fram að ætla verði að þær upplýsingar sem að mati Háskóla Íslands falli undir a.-c. lið 8. gr. 2. gr. laga nr. 77/2000 séu þess eðlis að auðvelt sé að afmá þær með þeim hætti að viðkomandi ákvörðun beri ekki persónugreinanlegar upplýsingar með sér og að hið sama geti átt við um upplýsingar sem eftir atvikum kunni að falla undir 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Ítrekað er að kærða beri skylda til þess að veita kæranda aðgang að þeim hluta gagns sem takmarkanir 6.-10. gr. upplýsingalaga eigi ekki við um, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna en vísað er til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 541/2014.

Kærandi telur það skipta máli í þessu samhengi að aðeins sé um að ræða beiðni um aðgang að takmörkuðum fjölda ákvarðana siðanefndarinnar. Þá lúti beiðni kæranda einvörðungu að afmarkaðri umfjöllun hverrar ákvörðunar, þ.e. umfjöllun nefndarinnar um beitingu formkrafna sem fram komi í 4. gr. starfsreglna siðanefndarinnar en í engu að efnisþáttum ákvarðananna. Tekið er fram að engar ákvarðanir siðanefndarinnar séu birtar opinberlega og af því leiði að kærandi hafi mikla hagsmuni af því að fá upplýsingar um beitingu 4. gr. starfsreglnanna í framkvæmd.

Kærandi telur að ekki séu færð sannfærandi rök fyrir því af hverju ekki sé unnt að veita honum aðgang að hluta þeirra einstöku ákvarðana sem málið varðar. Af málatilbúnaði kærða að dæma megi ráða að hann telji að ekki sé unnt að skilja upplýsingar sem undanskildar séu upplýsingarétti frá umbeðnum upplýsingum. Kærandi nefnir í dæmaskyni mál nr. 3/2012 og 3/2014 en skýring Háskólans fyrir ákvörðun sinni um synjun beiðninnar sé sú að ákvarðanirnar innihaldi upplýsingar um trúar- og lífsskoðanir sem falli undir a-lið 8. tl. 2. gr. laga nr. 77/2000. Kærandi telur að þessi tilvísun ein og sér geti ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að ekki eigi að veita honum aðgang að hluta þesssara mála. Kærandi gerir ekki athugasemd við að hann fái ekki aðgang að nöfnum þeirra einstaklinga sem aðild hafi átt að málunum. Telur hann að öll þessi atriði geti verið svert úr ákvörðunum og aðrir hlutar afhentir.

Með bréfum, dags. 13. október 2017, óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir afstöðu þeirra aðila sem koma fyrir í þeim ákvörðunum sem kærandi óskar aðgangs að til afhendingar þeirra. Alls lögðust sjö gegn því að kæranda yrði veittur aðgangur, átta gerðu ekki athugasemdir við afhendinguna en ekki barst afstaða tveggja. Nánar verður gerð grein fyrir áhrifum afstöðu aðilanna í umfjöllun um hverja ákvörðun fyrir sig.

Niðurstaða
1.

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að tilteknum ákvörðunum siðanefndar Háskóla Íslands. Synjun Háskóla Íslands á beiðni kæranda um aðgang að ákvörðunum var byggð á 7. gr. og 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Í 1. mgr. 7. gr. laganna segir að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lögin taki til skv. 2. gr. taki ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Í athugasemdum við þessa grein í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir m.a.:

Með gögnum í málum sem varða starfssambandið að öðru leyti, sbr. niðurlag 1. mgr. 7. gr., er átt við gögn í málum þar sem teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur starfsmanna. Þau rök búa hér að baki að rétt sé veita starfsmanni ákveðið öryggi í starfi og varðveita trúnað í vinnusambandinu sem ella væri hætta á að brysti ef veittur yrði aðgangur að gögnum í slíkum málum. Af þessu leiðir enn fremur að opinberir aðilar ættu síður möguleika á því að laða til sín og halda hjá sér hæfu starfsfólki. Til mála er varða starfssambandið teljast t.d. mál þar sem starfsmaður hefur þurft að sæta frádrætti frá launum, ákvarðanir stjórnenda um sveigjanlegan vinnutíma og um aukastörf, sbr. IV. kafla laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og enn fremur mál er lúta að aðfinnslum og áminningu eða eftir atvikum starfslokum.

Þegar tekin er afstaða til þess hvort ákvarðanir siðanefndar Háskóla Íslands varði „starfssambandið að öðru leyti“ í skilningi 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga verður að mati úrskurðarnefndar upplýsingamála að leggja heildstætt mat á atvik málsins. Eftir atvikum getur samþykki aðila málsins fyrir því að almenningi verði veittur aðgangur að ákvörðununum leitt til þeirrar niðurstöðu að engin þörf sé á að varðveita þann trúnað sem ákvæðinu er ætlað að tryggja. 

Með vísan til atvika málsins er einnig nauðsynlegt að taka afstöðu til þess hvort þær ákvarðanir sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að hafi að geyma upplýsingar sem falla undir fyrri málslið 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en þar segir orðrétt:

Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á.

 

2.

Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. a. laga nr. 63/2006, um háskóla, skulu háskólar setja sér siðareglur, m.a. um réttindi og skyldur starfsmanna. Ljóst er hins vegar að þær siðareglur sem siðanefnd Háskóla Íslands starfar eftir voru samþykktar af háskólafundi Háskóla Íslands 7. nóvember 2003. Á sama fundi voru einnig samþykktar „starfsreglur siðanefndar Háskóla Íslands“, en samkvæmt 1. gr. starfsreglnanna skal starfa við skólann siðanefnd sem úrskurðar um það hvort siðareglur skólans hafi verið brotnar.

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. greindra reglna tekur siðanefnd við skriflegum kærum um meint brot á siðareglum frá nafngreindum aðilum innan eða utan Háskólans. Ekki er gert ráð fyrir því í reglunum að nefndin taki mál til meðferðar að eigin frumkvæði.

Í 2. til 9. gr. reglnanna er nánar kveðið á um nefndarskipun, málsmeðferð og hvernig fara skuli með niðurstöður nefndarinnar. Þannig kemur fram í 2. gr. reglnanna að formaður nefndarinnar sé skipaður af háskólaráði samkvæmt tilnefningu rektors. Þegar fram komi kæra um brot á siðareglum séu tveir menn skipaðir í siðanefnd til þess að fjalla um kæruna ásamt formanni. Í umboði háskólaráðs skipi rektor þessa tvo menn að fengnum tilnefningum formanns siðanefndar. Skipunartími formanns sé þrjú ár, en skipun annarra nefndarmanna taki einungis til fyrirliggjandi máls.

Samkvæmt 4. gr. reglnanna skal siðanefndin kanna hvort kæra snerti siðareglur Háskóla Íslands. Skal nefndin þá vísa frá kærum sem ekki varða siðareglurnar eða eru tilefnislausar. Þá segir að siðanefndin geti vísað kærum frá, ef um sé að ræða meint brot á lagareglum sem hægt sé að bera undir úrskurð stjórnvalda eða dómstóla.

Í 7. gr. reglnanna kemur meðal annars fram að siðanefnd mæli ekki fyrir um viðurlög við brotum sem hún kemst að niðurstöðu um, en skuli taka afstöðu til alvarleika brotsins og hvort telja megi að um endurtekið brot sé að ræða. Í 8. gr. kemur fram að siðanefnd skuli búa til útdrátt úr umfjöllun sinni og birta sem skýringu við viðkomandi ákvæði reglnanna á háskólavefnum. Þetta eigi þó ekki við ef ákveðið hefur verið að niðurstaða nefndarinnar sé trúnaðarmál.

Í 9. gr. starfsreglnanna segir að niðurstaða siðanefndar sé endanleg og verði henni ekki áfrýjað. Ef niðurstaða siðanefndar bendi til þess að um sé að ræða brot í starfi í skilningi laga skuli siðanefnd vekja athygli rektors á því. Siðanefnd sé enn fremur heimilt að benda rektor á annmarka á reglum sem gilda um Háskóla Íslands.

Þótt samkvæmt framangreindu sé kveðið á um það í lögum að háskólar setji sér siðareglur er ekkert fjallað um það í lögum að þar skuli starfa siðanefndir, skipun þeirra eða hlutverk. Siðanefndin starfar því á grundvelli samþykktar háskólafundar og verkefni hennar og hlutverk ákveðið með reglum, sem samþykktar voru á þeim vettvangi. Siðanefnd Háskóla Íslands er því ekki markað hlutverk með lögum.

Eins og rakið er hér að framan reynir við úrlausn þessa máls á það hvort úrskurðir siðanefndar Háskóla Íslands sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að falli undir 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga á þeim forsendum að þeir varði að öðru leyti starfssamband þeirra starfsmanna háskólans sem þar er fjallað um. Þegar tekin er afstaða til þessa atriðis verður að hafa í huga að ákvæði 7. gr. upplýsingalaga felur í sér undantekningu frá meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna um aðgang almennings að upplýsingum og ber því að skýra það þröngt.

Við mat á því hvort umrædd gögn teljist varða starfssamband þeirra sem þar er fjallað um að öðru leyti verður enn fremur að horfa til þeirra sjónarmiða sem lýst er í lögskýringargögnum með ákvæði 7. gr. og rakin eru hér að framan. Af þeim sjónarmiðum verður ráðið að ákvæðinu sé að meginstefnu ætlað að takmarka aðgang að gögnum þar sem taka á ákvarðanir um ,,réttindi og skyldur þeirra starfsmanna“ sem í hlut eiga. Telja verður ljóst að með þeirri skírskotun sé átt við ákvarðanir í málefnum starfsmanna sem falla undir ákvæði 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þegar litið er til þess að ekki er mælt fyrir um tilvist og hlutverk siðanefndar Háskóla Íslands í lögum nr. 23/2006, um háskóla, né öðrum settum lagareglum, verður að leggja til grundvallar að nefndin taki ekki ákvarðanir í málefnum starfsmanna sem falla undir ákvæði stjórnsýslulaga.

Með vísan til þeirra sjónarmiða sem rakin eru hér að framan um túlkun 7. gr. upplýsingalaga verður því ekki talið að umfjöllun siðanefndar Háskóla Íslands í þeim málum sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að falli undir gögn sem varða „starfssambandið að öðru leyti“ í skilningi 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Í þessu sambandi verður jafnframt að leggja áherslu á að málin sem um ræðir eiga það sammerkt að siðanefndin vísaði erindum kæranda frá og málefni sömu starfsmanna sættu ekki efnislegri umfjöllun af hálfu nefndarinnar. Þá verður heldur ekki séð af gögnum málsins að Háskóli Íslands hafi fjallað um sömu mál með tilliti til þess hvort teknar yrðu ákvarðanir í málefnum þeirra starfsmanna sem erindin beindust að á grundvelli laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

3.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur eins og fyrr segir að taka þurfi afstöðu til þess hvort þær ákvarðanir sem kæranda hefur verið synjað um aðgang að falli í heild eða að hluta undir takmörkunarákvæði 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Í ákvörðun nr. 1/2009 er fjallað um meint brot starfsmanns HÍ á ákvæði 1.1.4. siðareglnanna um áreiðanleika. Um er að ræða úrlausn kæru er snýr að ályktunum sem komu fram í matsgerð prófessorsins og framburði hans fyrir dómi vegna sakamáls. Í ákvörðuninni er ekki að finna upplýsingar sem fallið geta undir b.-lið 8. tl. 2. gr. laga nr. 77/2000 en þar kemur hvorki fram með beinum hætti nafn hins sakaða né upplýsingar um sakamálið sem slíkt, þ. á m. hvort einstaklingur hafi verið grunaður, kærður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál óskaði eftir afstöðu aðila málsins til afhendingar ákvörðunarinnar til kæranda og lýstu báðir því yfir að þeir væru því ekki mótfallnir. Með hliðsjón af umfjöllun siðanefndarinnar í ákvörðuninni, niðurstöðu hennar og samþykki aðila málsins þykir ekki ástæða til að takmarka aðgang kæranda að henni á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Því ber Háskóla Íslands að veita kæranda aðgang að ákvörðuninni á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Í ákvörðun nr. 1/2012 er fjallað um meint brot nefndarmanns í siðanefndinni, starfsmanns Háskóla Íslands, í tengslum við fyrra mál fyrir siðanefndinni. Kærandi í málinu taldi að viðkomandi nefndarmaður hefði brotið gegn ýmsum greinum siðareglnanna með því að dreifa óhróðri um sig. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál teljast upplýsingar um trúar- og lífsskoðanir aðila málsins í ákvörðuninni til upplýsinga um einkahagsmuni þeirra sem sanngjarnt er og eðlilegt að fari leynt á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Sömu sjónarmið eiga við um efni og rökstuðning í ákvörðun siðanefndar Háskóla Íslands nr. 3/2012, þar sem fjallað var um meint brot starfsmanns skólans á siðareglum vegna framsetningar námsefnis sem notað var við kennslu. Þar sem ekki liggur fyrir samþykki aðila málanna tveggja þykir 9. gr. upplýsingalaga leiða til þess að Háskólanum hafi verið óheimilt að veita kæranda aðgang að ákvörðunum siðanefndar í þeim. Þessar upplýsingar er að finna svo víða í ákvörðununum að ekki verður talið fært að leggja fyrir Háskólann að veita kæranda aðgang að þeim að hluta með vísan til 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að ekki skiptir máli í þessu samhengi þótt ýmsar upplýsingar um málin hafi birst opinberlega, til að mynda í fjölmiðlum. Verður því staðfest ákvörðun Háskóla Íslands um að synja kæranda um aðgang að ákvörðunum nr.1/2012 og 3/2012.

Ákvörðun siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2013 hefur að geyma umfjöllun um meint brot starfsmanns Háskóla Íslands í tengslum við meðferð embættis landlæknis á kvörtunarmáli. Háskóli Íslands hefur fyrst og fremst vísað til þess að ákvörðunin hafi að geyma upplýsingar um heilsufar annars aðila málsins, sem séu viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd og persónuupplýsingar. Því falli þær undir 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin hefur óskað eftir afstöðu beggja aðila til þess að kæranda verði veittur aðgangur að ákvörðuninni og hefur sá aðili sem heilsufarsupplýsingar varða samþykkt birtingu þeirra fyrir sitt leyti. Með hliðsjón af umfjöllun siðanefndarinnar í ákvörðuninni, niðurstöðu hennar og samþykki aðila málsins þykir ekki ástæða til að takmarka aðgang kæranda að henni á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Því ber Háskóla Íslands að veita kæranda aðgang að ákvörðuninni á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Í ákvörðun siðanefndar Háskóla Íslands nr. 3/2013 var leyst úr kæru á hendur starfsmanni Háskóla Íslands sem tengist ágreiningi um val á leiðbeinendum nemenda við ritun námsritgerða við tiltekna deild skólans. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur ákvörðunin að ekki að geyma upplýsingar sem falla undir 9. gr. upplýsingalaga. Ber Háskóla Íslands að veita kæranda aðgang að ákvörðuninni á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í því sambandi breytir engu þótt starfsmaðurinn sem um ræðir hafi lýst sig andvígan því að aðgangur verði veittur að ákvörðuninni.

Ákvörðun siðanefndarinnar nr. 2/2014 lýtur að kæru nemanda á hendur starfsmanni skólans vegna aðkomu hans að B.A.-verkefni nemandans. Úrskurðarnefndin hefur aflað afstöðu aðila málsins til þess að kæranda verði veittur aðgangur að ákvörðuninni og fyrir liggur samþykki nemandans en ekki starfsmannsins. Eins og atvikum er háttað þykir efni ákvörðunarinnar ekki lúta að upplýsingum sem falla undir 9. gr. upplýsingalaga. Ber Háskóla Íslands að veita kæranda aðgang að ákvörðuninni á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í því sambandi breytir engu þótt starfsmaðurinn sem um ræðir hafi lýst sig andvígan því að aðgangur verði veittur að ákvörðuninni.

Í ákvörðun siðanefndarinnar nr. 3/2014 er fjallað um kæru starfsmanns Háskóla Íslands á hendur öðrum vegna ummæla í athugasemdakerfi fjölmiðils og á Facebook. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur óskað eftir afstöðu beggja til þess að kæranda verði veittur aðgangur að ákvörðuninni og hefur komið fram að þeir lýsa sig ekki andvíga því. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur því eins og hér stendur á að ákvörðunin hafi ekki að geyma upplýsingar sem Háskóla Íslands var heimilt eða skylt að takmarka aðgang kæranda að á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Skoðun úrskurðarnefndarinnar hefur heldur ekki leitt í ljós aðrar röksemdir sem leiða til þeirrar niðurstöðu og verður því lagt fyrir skólann að veita kæranda aðgang að ákvörðuninni með vísan til 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.

Ákvörðun siðanefndar Háskóla Íslands nr. 2/2016 lýtur að kæru einstaklings sem áður var nemandi við skólann á hendur tveimur starfsmönnum hans vegna framkvæmdar prófa og námsmats í tiltekinni námsgrein. Úrskurðarnefndin hefur farið yfir efni ákvörðunarinnar með hliðsjón af afstöðu aðila málsins til þess að óviðkomandi verði veittur aðgangur að henni. Eins og atvikum er háttað fellst úrskurðarnefndin á það með Háskólanum að efni ákvörðunarinnar falli undir 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Verður því ákvörðun Háskóla Íslands um synjun beiðni kæranda staðfest að þessu leyti.

Úrskurðarorð:

Háskóla Íslands ber að veita kæranda, B, aðgang að ákvörðunum siðanefndar skólans nr. 1/2009, 1/2013, 3/2013, 2/2014 og 3/2014.

 

Hin kærða ákvörðun er að öðru leyti staðfest.

 

 

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson

varaformaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                      Friðgeir Björnsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta