Hoppa yfir valmynd
27. desember 2017 Forsætisráðuneytið

712/2017. Úrskurður frá 13. desember 2017

Úrskurður

Hinn 13. desember 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 712/2017 í máli ÚNU 17040004.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 670/2017 í máli nr. ÚNU 16090019, sem kveðinn var upp þann 30. janúar 2017, var staðfest synjun forsætisráðuneytis á beiðni A um aðgang að samantekt um síma og tölvur sem fyrrverandi ráðherra lét taka saman fyrir ríkisstjórnina. Í kjölfarið leitaði kærandi til umboðsmanns Alþingis sem komst að þeirri niðurstöðu í áliti sínu, dags. 11. ágúst 2017 (UA 9258/2017), að málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar hefði ekki verið í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin féllst á beiðni kæranda um endurupptöku málsins á fundi sínum þann 11. september 2017.

Úrskurður úrskurðarnefndarinnar byggðist á því að takmörkun 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 ætti við um samantektina sem kærandi beiddist aðgangs að, enda þótt nefndin hefði afrit hennar ekki undir höndum. Í áliti umboðsmanns var komist að þeirri niðurstöðu að hvergi í þeim gögnum sem nefndin hafði undir höndum hafi komið skýrlega fram að samantektin hafi verið tekin saman fyrir fund ráðherra eða ríkisstjórnar. Í því ljósi hafi verið brýnt fyrir nefndina að fá nánari skýringar frá ráðuneytinu um þetta atriði. Þá hafi nefndinni verið fær sú leið til rannsóknar málsins að biðja um afrit hennar.

Í ljósi þessara sjónarmiða ritaði úrskurðarnefndin bréf til forsætisráðuneytis, dags. 26. september 2017, og tilkynnti um endurupptöku málsins. Jafnframt var óskað eftir nánari upplýsingum og gögnum um eftirfarandi atriði:

  1. Hvort samantektin hafi verið gerð fyrir fund ráðherra.
  2. Hvort samantektin hafi verið lögð fram á slíkum fundi og þá hvenær hann fór fram og hverjir voru viðstaddir. Jafnframt er óskað eftir afriti af dagskrá fundarins og fundargerð, liggi slík gögn fyrir.
  3. Loks var óskað eftir afriti af hinu umbeðna gagni úr vörslum ráðuneytisins.

Í svari forsætisráðuneytis, dags. 24. nóvember 2017, kom fram að samantekt um öryggi síma æðstu ráðamanna hafi verið lögð fram á fundi ríkisstjórnar þann 19. september 2014 í formi minnisblaðs. Fulltrúi ríkislögreglustjóra hafi síðan kynnt samantektina á ráðherrafundi sem haldinn hafi verið fyrir ríkisstjórnarfund þann 4. nóvember 2014. Svarinu fylgdi afrit af minnisblaðinu, fundargerð og dagskrá fundar ríkisstjórnar þann 19. september 2014, fundarboði sem sent var út í tilefni fundarins þann 4. nóvember 2014 og samantektinni sem kynnt var á fundinum. Loks var sú afstaða ráðuneytisins ítrekuð að um væri að ræða gögn sem tekin hefðu verið saman fyrir ráðherrafund í skilningi 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, sbr. einnig 1. tölul. 10. gr. laganna.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um aðgang kæranda að samantekt í vörslum forsætisráðuneytisins á grundvelli upplýsingaréttar almennings sem fjallað er um í 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Aðgangur samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga lýtur takmörkunum sem meðal annars er kveðið á um í 1. tölulið 6. gr. laganna, en forsætisráðuneytið synjaði beiðni kæranda á þeim grundvelli. Samkvæmt því ákvæði tekur réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum eða gagna sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi.  

Í athugasemdum með frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir um 1. tölul. 6. gr. að undanþágan gildi um öll gögn sem undirbúin eru fyrir fundi þar sem saman koma tveir ráðherrar eða fleiri, hvort heldur sem það sé á formlegum ríkisstjórnarfundi eða við aðrar óformlegri aðstæður. Í skýringum forsætisráðuneytisins kemur fram að hið umbeðna gagn hafi verið tekið saman fyrir slíkan fund.

Samkvæmt þeim gögnum sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur undir höndum var öryggi síma og talskipta æðstu ráðamanna rætt á fundi ríkisstjórnar þann 19. september 2014. Þá fengu ráðherrar í ríkisstjórninni nánari kynningu á þeim leiðum sem taldar voru færar til að tryggja öryggi síma á fundi sem fram fór að morgni 4. nóvember 2014, fyrir formlegan ríkisstjórnarfund. Eftir skoðun á fundargögnunum telur úrskurðarnefndin engan vafa leika á því að þau hafi sérstaklega verið tekin saman fyrir ráðherrafund í skilningi 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þá telur úrskurðarnefnd efni gagnanna einnig falla undir ákvæði 1. tölul. 10. gr. laganna um öryggi ríkisins. Verður því ekki hjá því komist að staðfesta ákvörðun forsætisráðuneytisins um synjun beiðni kæranda.

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun forsætisráðuneytisins, dags. 16. september 2016, um að synja beiðni A um aðgang að samantekt um síma og tölvur sem fyrrverandi forsætsiráðherra lét gera.

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson

varaformaður

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta