Hoppa yfir valmynd
8. janúar 2018 Forsætisráðuneytið

719/2018. Úrskurður frá 3. janúar 2018

Úrskurður

Hinn 3. janúar 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 719/2018 í máli ÚNU 17100003.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 5. október 2017, kærði A afgreiðslu Flóahrepps á beiðni um aðgang að starfslokasamningi við fyrrverandi skólastjóra Flóaskóla sem kærandi lagði fram á sveitarstjórnarfundi hreppsins þann 11. september 2017. Í kæru segir að ekki hafi fengist fullnægjandi svar við fyrirspurninni þar sem tilteknar upplýsingar í samningnum hafi verið afmáðar. Með bréfi sveitarfélagsins til kæranda, dags. 14. september 2017, var honum synjað um aðgang að afmáða hlutanum þar sem óheimilt væri að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykkti sem í hlut ætti, sbr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í ákvörðuninni segir enn fremur að ekki verði séð af fyrirspurn kæranda að fyrir liggi samþykki fyrrverandi skólastjóra Flóaskóla fyrir afhendingunni. Því falli afmáði hluti samningsins undir ákvæðið.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 23. október 2017, var kæran send Flóahreppi og sveitarfélaginu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Úrskurðarnefndin óskaði jafnframt eftir því að henni yrðu látin í té afrit af umbeðnum gögnum í trúnaði. Í umsögn Flóahrepps, dags. 31. október 2017, kemur fram að fyrrverandi skólastjóri Flóaskóla hafi sett fram þá ósk með bréfi, dags. 24. september 2017, að öllum trúnaði um starfslokasamning hennar skyldi aflétt.

Ritari úrskurðarnefndarinnar hafði samband við sveitarstjóra Flóahrepps símleiðis þann 7. nóvember 2017 og spurði hvort skilja mætti umsögn sveitarfélagsins á þann veg að kærandi hefði þegar fengið aðgang að umbeðnum gögnum. Sveitarstjórinn staðfesti að svo væri ekki heldur væri óskað eftir úrskurði úrskurðarnefndarinnar í málinu.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að synjun Flóahrepps á beiðni kæranda um aðgang að starfslokasamningi sveitarfélagsins við fyrrverandi skólastjóra Flóaskóla. Sveitarfélagið afhenti kæranda starfslokasamninginn en afmáði fyrst 3. gr. samningsins sem hafði að geyma upplýsingar um peningagreiðslu sem sveitarfélagið greiddi skólastjóranum vegna uppsagnar ráðningarsamnings. Synjun sveitarfélagsins á beiðni kæranda, dags. 14. september 2017, byggði á því að samþykki skólastjórans lægi ekki fyrir í málinu. Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni hefur hins vegar komið í ljós að skólastjórinn hefur óskað eftir því fyrir sitt leyti að öllum trúnaði um starfslokasamning hennar við sveitarfélagið skuli aflétt.

Í 9. gr. upplýsingalaga segir orðrétt:

Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.

Í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að 9. gr. frumvarpsins feli í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá segir eftirfarandi:

Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.

Að framansögðu er ljóst að Flóahreppi bar að framkvæma efnislegt mat á því hvort að efni samningsins, þar á meðal þess hluta sem sveitarfélagið afmáði, eigi að fara leynt á grundvelli framangreindra sjónarmiða. Af gögnum málsins er hins vegar ljóst að sveitarfélagið byggði ákvörðun sína eingöngu á því að samþykki þess aðila sem þau vörðuðu lægi ekki fyrir. Ekki er hins vegar ljóst af gögnum málsins hvort Flóahreppur skoraði á viðkomandi að upplýsa hvort hann teldi að upplýsingarnar ættu að fara leynt, sbr. 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir 3. gr. starfslokasamningsins, sem var afmáð áður en sveitarfélagið afhenti kæranda samninginn. Í ljósi þess að skólastjórinn hefur samþykkt að almenningi verði veittur aðgangur að upplýsingunum, sbr. 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga, verður ekki séð að nokkrar takmarkanir eigi við um rétt kæranda til aðgangs á grundvelli meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt framangreindu ber að veita kæranda aðgang að samningnum í heild sinni.

Úrskurðarorð:

Flóahreppi ber að veita A aðgang að starfslokasamningi sveitarfélagsins við fyrrverandi skólastjóra Flóaskóla, dags. 7. júlí 2017, í heild sinni.

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta