Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2018 Forsætisráðuneytið

722/2018. Úrskurður frá 9. febrúar 2018

Úrskurður

Hinn 9. febrúar 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 722/2018 í máli ÚNU 17050009.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 18. maí 2017, kærði A, f.h. Samskila ehf., synjun Úrvinnslusjóðs, dags. 21. apríl 2017, á beiðni um aðgang að gögnum. Þann 17. febrúar 2017 óskaði kærandi eftir því að Umhverfisstofnun veitti aðgang að fyrirliggjandi gögnum um eftirfarandi atriði:

  1. Upplýsingar um hvað hver félagsmaður í RR-skilum flutti inn/framleiddi af raftækjum á árunum 2009, 2012, 2013 og 2014.
  2. Lista yfir alla aðila sem voru félagar í RR-skilum á fyrrgreindum árum.

Umhverfisstofnun áframsendi beiðnina til Úrvinnslusjóðs, sem synjaði kæranda um aðgang að gögnunum með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Í kærunni kemur fram að félagsmenn RR-skila hafi ákveðið á fundi 29. maí 2015 að slíta félaginu og úthluta hreinni eign félagsins til 62 félagsmanna. Hæstiréttur hafi dæmt í máli nr. 812/2015 að vegna þessa hafi félagið ekki aðildarhæfi. Þá kemur fram að kærandi hafi í hyggju að krefja aðildarfyrirtæki RR-skila um greiðslu kostnaðar vegna umframkostnaðar kæranda vegna söfnunar hans á raftækjum og muni þá krefja hvert og eitt fyrirtæki sem voru aðilar að RR-skilum um greiðslu kostnaðar við umframsöfnun kæranda í réttu hlutfalli við innflutning/framleiðslu þess aðila á hverju ári á tímabilinu.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 19. maí 2017, var kæran kynnt Úrvinnslusjóði og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. Í umsögn Úrvinnslusjóðs, dags. 31. maí 2017, kemur fram að sjóðurinn telji sig ekki eiga hagsmuna að gæta varðandi það hvort aðgangur skuli veittur. Áður en ákvörðun um synjun var tekin hafi þótt rétt að gefa þeim 200 aðilum sem stærstan hlut eiga að máli kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Umsagnir þeirra sem létu sig málið varða hafi almennt verið neikvæðar. Fram kemur að helstu röksemdir þeirra séu raktar í hinni kærðu ákvörðun, dags. 21. apríl 2017. Þar kemur fram að umsagnaraðilarnir beri því við að upplýsingar um innflutning einstakra aðila, magn viðskipta og kaup á búnaði séu viðkvæmar viðskiptaupplýsingar sem ekki megi láta af hendi samkvæmt fyrirmælum 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þá er því einnig borið við að miðlun umbeðinna upplýsinga kunni að brjóta í bága við ákvæði 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005.

Umsögn Úrvinnslusjóðs var kynnt kæranda með bréfi, dags. 7. júní 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

Niðurstaða
1.

Mál þetta varðar beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum hjá Úrvinnslusjóði um það hverjir hafi átt aðild að RR-skilum á árunum 2009, 2012, 2013 og 2014 og hvað hver félagsmaður flutti inn eða framleiddi af raftækjum á tímabilinu. Af hálfu Úrvinnslusjóðs hefur beiðnin verið afmörkuð við skjal  á töflureiknisformi þar sem magn raftækja er skráð eftir tollskrárnúmerum raftækjanna og kennitölum félagsmanna.

2.

Fyrst verður fjallað um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um það hvað hver félagsmaður í RR-skilum hafi flutt inn/framleitt af raftækjum á tímabilinu. Synjun Úrvinnslusjóðs á beiðni kæranda byggir á 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en þar segir orðrétt:

Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.

Í athugasemdum greinargerðar er fylgdi frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að 9. gr. frumvarpsins feli í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá segir eftirfarandi:

Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.

Þá er enn fremur tiltekið í athugasemdunum:

Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptarleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir máli að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.

Eins og áður segir er umbeðnar upplýsingar að finna í töflureiknisskjali sem úrskurðarnefndin hefur fengið afhent frá Úrvinnslusjóði. Upplýsingar um raftæki eru sundurliðaðar eftir ári, tollskrárnúmeri, kennitölu lögaðilans sem um ræðir og magni eða fjölda raftækja. Alls hefur skjalið að geyma rúmlega 93.000 færslur fyrir tímabilið sem kærandi tiltekur í beiðni sinni. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál er ekki hægt að útiloka við þessar aðstæður að það geti skaðað samkeppnis- eða viðskiptahagsmuni lögaðilanna að veita aðgang að svo umfangsmiklum upplýsingum um innflutning og framleiðslu þeirra á raftækjum á tímabilinu. Þá gerir framsetning og umfang skjalsins það að verkum að nánast ómögulegt er að skilja þær upplýsingar sem óhætt er að veita kæranda aðgang að frá þeim sem kunna að valda raski á samkeppnishagsmunum. Loks er litið til þess að upplýsingarnar varða ekki ráðstöfun opinberra hagsmuna, heldur hefur Úrvinnslusjóður þær undir höndum á grundvelli eftirlitshlutverks síns samkvæmt lögum nr. 55/2003. Samkvæmt framangreindu verður fallist á það með Úrvinnslusjóði að skjalið hafi að geyma upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og lögaðila sem sanngjarnt er og eðlilegt að fari leynt á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Ber því að staðfesta ákvörðun sjóðsins um synjun á beiðni kæranda um aðgang að skjalinu.

3.

Beiðni kæranda lýtur einnig að því að fá upplýsingar um það hverjir hafi átt aðild að RR-skilum á tímabilinu. Hvorki í hinni kærðu ákvörðun, dags. 21. apríl 2017 né í umsögn sjóðsins um kæru kæranda, dags. 31. maí 2107, er sérstaklega vikið að þessum hluta beiðninnar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að samkvæmt 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skal ákvörðun um að synja beiðni um aðgang að gögnum, í heild eða hluta, sem borin hefur verið fram skriflega, tilkynnt skriflega og rökstudd stuttlega. Þar sem hluti beiðni kæranda hefur ekki fengið þá efnislegu meðferð sem upplýsingalög áskilja verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi að þessu leyti og leggja fyrir Úrvinnslusjóð að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar.

Úrskurðarorð:

Beiðni Samskila ehf. um aðgang að félagatali RR-skila fyrir árin 2009, 2011, 2012 og 2013 er vísað til Úrvinnslusjóðs til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.

Hin kærða ákvörðun er að öðru leyti staðfest.

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður


Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta