Breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof
Frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof var samþykkt á Alþingi 29. maí síðastliðinn. Breytingarnar sem nýju lögin fela í sér taka til réttinda foreldra sem hafa eignast börn, ættleitt börn eða tekið börn í varanlegt fóstur 1. júní 2008 eða síðar. Mæður sem hafa nýtt sér rétt samkvæmt eldri lögum til þess að hefja töku fæðingarorlofs fyrir áætlaðan fæðingardag en eignast börn 1. júní 2008 eða síðar öðlast rétt í samræmi við breytingar sem nýju lögin fela í sér.
Nýju lögin fela meðal annars í sér breytingu á viðmiðunartímabilinu sem útreikningar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði miðast við. Við útreikninga á greiðslum til foreldra sem teljast launamenn samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Þegar foreldri telst sjálfstætt starfandi einstaklingur samkvæmt sömu lögum skal miða við tekjuárið á undan fæðingarári barns eða það ár er barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Viðmiðunartímabilið er þar með stytt úr 24 mánuðum í 12 mánaða tímabil.
Þegar foreldri hefur ekki verið á vinnumarkaði á öllu viðmiðunartímabilinu skal áfram eingöngu miðað við meðalheildarlaun foreldris fyrir það tímabil sem það telst hafa verið á innlendum vinnumarkaði í skilningi laganna. Þar með teljast tilteknar tímabundnar aðstæður sem hafa þótt jafnast á við þátttöku á vinnumarkaði, svo sem þegar foreldri er í orlofi eða námsleyfi, fæðingarorlofi, tímabundið án atvinnu eða hefur fengið tekjutengdar greiðslur samkvæmt III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Er þá jafnframt tekið tillit til þeirra greiðslna er koma til vegna slíkra aðstæðna auk hvers konar launa eða annarra þóknana samkvæmt lögum um tryggingagjald.
Samkvæmt nýju lögunum er báðum foreldrum nú heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Enn fremur eru heimildir til yfirfærslu réttinda til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks rýmkaðar þegar annað foreldri er vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss eða afplánunar refsivistar ófært um að nýta sér rétt sinn til töku fæðingarorlofs.
Enn fremur eiga forsjárlausir foreldrar nú rétt til fæðingarstyrks í fyrsta skipti liggi fyrir samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem greiðsla fæðingarstyrks stendur yfir.
Þá tryggja hin nýju lög foreldrum í fullu námi við íslenska skóla sama rétt til fæðingarstyrks hvort sem þeir stunda námið með hefðbundnum hætti eða eru í fjarnámi óháð búsetu þeirra.
Frumvarp til breytinga á lögum um fæðingar- og foreldraorlof
Breytingalög um fæðingar- og foreldraorlof (skjalið er í vinnslu hjá Alþingi)
Lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, með síðari breytingum