Föstudagspósturinn 2. október 2020
Heil og sæl.
Áfram heldur lífið samfara kórónuveirunni. Það getur reynst þrautinni þyngri, alveg eins og að taka upp kartöflur, líkt og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis og þróunarsamvinnuráðherra, fékk að kynnast í sóttkvínni í síðustu viku og sagði frá í Vikunni!
En áfram höldum við og var vikan sem nú tekur brátt enda viðburðarík og þar bar ávarp ráðherra á 75. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna án vafa hæst.
Vegna heimsfaraldursins hafa hátíðarhöld og allsherjarþingið verið með öðru sniði í ár og sækja íslenskir ráðamenn að þessu sinni ekki þingið í New York. Upptaka með ávarpi utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra var spiluð á þriðjudag en í ávarpinu benti ráðherra m.a. á að rétt eins og þegar SÞ voru stofnaðar fyrir 75 árum væru nú uppi miklir óvissutímar í heiminum og þá væri mannkyninu betur þjónað með samvinnu en sundrungu.
„Á þessum tímamótum eigum við að minnast þess hvernig Sameinuðu þjóðirnar hafa stuðlað að þróun og framförum. Þær eru jafnframt veigamesta friðarframtak vorra tíma,“ sagði Guðlaugur Þór.
Mikilvægi fjölþjóðasamvinnu var meginstefið í ræðu Guðlaugs Þórs en venju samkvæmt kom hann víða við. Ráðherra vakti máls á þýðingu endurnýjanlegra orkugjafa, undirstrikaði mikilvægi kynjajafnréttis og gerði mannréttindi jafnframt að sérstöku umtalsefni og greindi frá því að Ísland hefði nú ákveðið að sækjast aftur eftir setu í ráðinu kjörtímabilið 2025-2027 eftir vel heppnaða setu í ráðinu 2018-2019.
Þá þakkaði Guðlaugur Þór António Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, fyrir að beita sér fyrir alheimsvopnahléi en ræðuna má í heild sinni sjá hér að neðan.
Eins og fram hefur komið tekur Fastanefnd Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum þátt í viðburðum á staðnum og hefur því haft aðkomu að öllum viðburðum er snúa að Íslandi. Í gær ávarpaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra 25 ára afmælisfund fjórðu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna. Á miðvikudag ávarpaði svo Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, fund um líffræðilegan fjölbreytileika sem haldinn var í tengslum við allsherjarþingið.
Bryndís Kjartansdóttir tók í vikunni til starfa sem skrifstofustjóri öryggis- og varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins af Arnóri Sigurjónssyni. Um er að ræða nokkur tímamót því Bryndís verður þar með önnur konan í ríflega sjötíu ára sögu Atlantshafsbandalagsins til að gegna stöðu æðsta embættismanns aðildarríkis á sviði varnarmála (e. Chief of Defence, CHOD). Í hinum aðildarríkjunum eru það jafnan yfirmenn heraflans, herráðsforingjarnir, sem gegna stöðunni en þar sem Ísland er herlaust land er þetta hlutverk á hendi skrifstofustjóra öryggis- og varnarmálaskrifstofu. Alenka Ermenc, hershöfðingi í slóvenska hernum, varð árið 2018 fyrst kvenna æðsti embættismaður aðildarríkis á sviði varnarmála í aðildarríki Atlantshafsbandalagsins og Bryndís fetar nú í fótspor hennar.
Yet another crack in the glass ceiling was made yesterday when Bryndís Kjartansdóttir @BryndisKjartan1 took the helm of the Security and Defense Directorate of @MFAIceland. She is only the 2nd woman in the history of @NATO to become chief of defense #CHOD of an Allied Nation. pic.twitter.com/fv1i1wmJOU
— Guðlaugur Þór (@GudlaugurThor) October 2, 2020
Þá hefur Friðrik Jónsson tekið við sem forstöðumaður Þekkingarmiðstöðvar Þróunarsamvinnu GRÓ. Friðrik tekur við stöðunni af Bryndísi en í tilkynningu er sérstaklega tekið fram að Friðrik spili ekki golf.
Á miðvikudag vöktum við athygli á alþjóðadegi þýðenda en í ár eru 30 ár liðin frá því að þýðingarmiðstöðin sem starfrækt er í utanríkisráðuneytinu hófst handa við að þýða ESB-gerðirnar sem falla undir EES-samninginn.
Í síðustu viku stóðu sendiskrifstofur Íslands fyrir sameiginlegum bókmenntaviðburði, Beyond the Sagas, sem streymt var beint á vef frá fjórum mismunandi stöðum í heiminum. Hvorki meira né minna en þrettán þúsund manns um allan heim hafa fylgst með streyminu en þar átti Eliza Reid forsetafrú í samtali við tvo íslenska rithöfunda, þær Kristínu Eiríksdóttur og Þóru Hjörleifsdóttur, þar sem þær ræddu m.a. verk sín, bókmenntaflóruna á Íslandi og hvað drífi hana áfram. Alkunna er að COVID-19 heimsfaraldurinn hefur haft mikil áhrif á möguleika utanríkisþjónustunnar til að kynna íslenska menningu á erlendri grundu og því var gripið til þessa tilraunaverkefnis sem óhætt er að segja að hafi heppnast hafi vel.
Í dag birti eftirlitsstofnun EFTA (ESA) reglubundið frammistöðumat sitt en um er að ræða fyrra matið af tveimur vegna innleiðingrastöðu á árinu 2020. Samkvæmt matinu átti eftir að innleiða 1,2 prósent tilskipana ESB hér á landi á viðmiðunardagsetningu frammistöðumatsins, 31. maí sl., samanborið við 0,6 prósent í frammistöðumatinu fyrir tímabilið á undan. Röskun á störfum þingsins og stjórnarráðsins vegna heimsfaraldurs er á meðal skýringa á að óinnleiddum tilskipunum og reglugerðum ESB hefur fjölgað hér á landi að undanförnu. Staða innleiðinga á tilskipunum ESB hér á landi helst samt áfram betri en hún hefur lengst af verið.
Af fréttum úr ráðuneytinu segjum við að endingu frá því að í dag skipaði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra fimm manna starfshóp um ljósleiðaramálefni, útboð ljósleiðaraþráða Atlantshafsbandalagsins og tengd málefni. Starfshópurinn á að gera heildstæða úttekt og mat á ljósleiðaramálum á Íslandi með tilliti til þjóðaröryggis og þjóðréttarlegra skuldbindinga Íslands.
Enn greinist töluverður fjöldi kórónuveirusmita á Íslandi á hverjum degi og vakta sendiskrifstofur okkar mögulegar breytingar á sóttvarnarráðstöfunum og stöðu á landamærum umdæmisríkja sinna en undanfarna daga hefur Ísland ratað á fjölmarga rauða lista. Starfsfólk okkar ytra hefur vitanlega nóg að gera í þeim efnum til viðbótar við hefbundið starf utanríkisþjónustunnar.
Hvað sendiskrifstofur okkar varðar byrjum við á því að vekja athygli á Brussel-vaktinni, sem kemur út að jafnaði einu sinni í mánuði og flaggar á stuttan og hnitmiðaðan hátt því sem efst er á baugi hverju sinni. Hægt er að gerast áskrifandi að vaktinni hér. Við höldum okkur í Brussel en á þriðjudag tók tók Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Brussel, þátt í vefumræðu um málefni Norðurslóða. Ásamt honum tóku þátt Michael Mann, sendiherra Evrópusambandsins gagnvart Norðurslóðum, Christel Schaldemose þingmaður sósíaldemókrata á Evrópuþinginu og Mads Qvist Frederiksen, frá Samtökum dansks iðnaðar. Í máli sínu ræddi sendiherrann helstu áherslumál Íslands innan Norðurskautsráðsins, möguleg áhrif loftslagsbreytinga, nauðsyn þess að vinna að sjálfbærri þróun á svæðinu og að besta leiðin til þess að ná árangri væri með alþjóðlegri samvinnu, eins og ætti sér til að mynda stað innan Norðurskautsráðsins.
Á fastaráðsfundi ÖSE í vikunni gerðist Ísland aðili að yfirlýsingu ESB um ófriðinn milli Aserbaídsjan og Armeníu vegna héraðsins Nagorno-Karabakh. Þar eru deilendur hvattir til að stöðva ófriðinn og koma í veg fyrir að hann breiðist út og hefja uppbyggilegar viðræður undir leiðsögn hinna sameiginlegu formanna ÖSE Minsk-hópsins og hins sérstaka fulltrúa formanns ÖSE fyrir Karabakh-deiluna, Andrzej Kasprzyk sendiherra.
Í gær snjóaði á aðalræðisskrifstofu Íslands í Grænlandi og veltu þarstaddir fyrir sér hvort snjórinn væri kominn til að vera!
Í Kanada var grænt um að litast er norrænu sendiherrarnir í Ottawa funduðu í íslenska sendiherrabústaðnum. Umræðuefnið var að sjálfsögðu norræn samvinna á þessum skrýtnu tímum samhliða veirunni skæðu.
Last week the Nordic Ambassadors in Ottawa held a meeting at the Icelandic Ambassadors residence. The subject of the...
Posted by Embassy of Iceland in Canada on Monday, 28 September 2020
Við endum þessa yfirferð á fróðleiksmola frá sendiherra okkar í Osló, Ingibjörgu Davíðsdóttur, um Snorra Sturluson og styttu norska myndhöggvarans Gustav Vigeland af íslenska rithöfundinum.
🇮🇸Fróðleiksmoli dagsins: Í Bergen er minnisvarði um Snorra Sturluson – þar stendur stytta af Snorra eftir norska...
Posted by Islands ambassade i Oslo / Sendiráð Íslands í Osló on Friday, 2 October 2020
Við látum þetta gott heita að sinni. Góða helgi!
Upplýsingadeild.