Hoppa yfir valmynd
11. ágúst 2021 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 64/2021 Endurupptökubeiðni Úrskurður 11. ágúst 2021

Mál nr. 64/2021                    Endurupptökubeiðni

Eiginnafn:     Kona (kvk.)

                                               

 

 

 

 

Hinn 11. ágúst 2021 tekur mannanafnanefnd fyrir beiðni um endurupptöku máls nr. 46/2019 Kona (kvk.) en erindið barst nefndinni 1. júní.

Með úrskurði mannanafnanefndar frá 22. maí 2019 var umsókn um eiginnafnið Kona (kvk.) hafnað (mál nr. 46/2019). Niðurstaða nefndarinnar í málinu var á þá leið að nafnið uppfyllti ekki skilyrði 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn, nr. 45/1996, sem kveður á um að nafn megi ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Skilningur mannanafnanefndar á íslensku málkerfi tekur mið af túlkun löggjafans sem fram kemur í athugasemdum með frumvarpi til fyrrgreindra laga um mannanöfn sem nú gilda. Þar segir m.a.: „Íslenskt málkerfi er samsafn þeirra reglna sem unnið hafa sér hefð í íslensku máli." Í úrskurðinum benti nefndin á að orðið kona tilheyrði flokki orða sem ekki væri hefð fyrir að nota sem mannanöfn, þ.e. hinum almennu og tiltölulega hlutlausu orða sem merkja 'kvenmaður' eða 'karlmaður', s.s. kona, maður, stúlka, piltur, stelpa og strákur, sem að auki bera með sér vísun til þess að einstaklingur sé á ákveðnum aldri. Nefndin taldi að nöfn af þessu tagi væru ekki í samræmi við þær reglur sem unnið hefðu sér hefð í íslensku og brytu því í bág við íslenskt málkerfi.

Í áliti umboðsmanns Alþingis frá 25. maí 2021 (mál nr. 10110/2019) vegna kvörtunar yfir úrskurði mannanafnanefndar í máli nr. 46/2019 er komist að þeirri niðurstöðu að miðað við orðalag 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. mannanafnalaga, samhengi ákvæðisins við aðrar reglur laganna, forsögu þeirra og lögskýringargögn sé ekki viðhlítandi grundvöllur til að túlka ákvæðið þannig að með málkerfi sé átt við merkingarþátt málsins auk hinna formlegu þátta.

Þar sem sú niðurstaða mannanafnanefndar í máli 46/2019 að hafna umsókn um eiginnafnið Kona byggðist á túlkun sem umboðsmaður Alþingis álítur ekki samræmast lögum telur mannanafnanefnd rétt að fallast á beiðni um endurupptöku málsins og fylgir nýr úrskurður í málinu hér á eftir sem fengið hefur málsnúmerið 64/2021.

Hinn 11. ágúst 2021 kveður meirihluti mannanafnanefndar upp svohljóðandi úrskurð í máli 64/2021:

 

Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði 5. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:

  1. Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
  2. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
  3. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
  4. Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Eiginnafnið Kona tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Konu, og er ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Það telst því uppfylla ofangreind skilyrði nr. eitt og þrjú. Í málinu reynir aftur á móti á hin tvö skilyrðin.

Í fyrsta lagi reynir á skilyrðið um að nýtt eiginnafn megi ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Í greinargerð með mannanafnalögum segir að íslenskt málkerfi sé samsafn þeirra reglna sem hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Reglum þessum má skipa í undirflokka eftir því hvaða þátt málsins þær snerta, s.s. reglur um hljóðskipun, reglur um beygingu, reglur um orðmyndun, reglur um orðaröð og reglur um merkingu. Í þessu máli telur nefndin að umbeðið eiginnafn stríði gegn reglum um merkingarkerfi málsins þar sem ekki er hefð fyrir því að mannanöfn séu dregin af samnöfnum sem eru hin almennu og tiltölulega hlutlausu orð sem merkja ‘kvenmaður’ eða ‘karlmaður’, þ.e. orð eins og kona, (karl)maður, stúlka, piltur, stelpa og strákur, sem að auki bera með sér vísun til einstaklinga á ákveðnum aldri.

Sérnöfn hafa að jafnaði ekki eiginlega merkingu aðra en þá að vísa til tiltekins fyrirbæris, sbr. að Reykjavík vísar til ákveðins staðar og eiginleg merking því ‘höfuðborg Íslands við sunnanverðan Faxaflóa’. Þetta gildir einnig um mannanöfn, en þó hafa þau jafnframt fyrirframgefnu merkinguna ‘kvenmaður’ eða ‘karlmaður’ eftir því hvort um er að ræða kvenmanns- eða karlmannsnafn. Eiginnafnið Kona er leitt af samnafninu kona sem merkir ‘kvenmaður á ákveðnum aldri’. Þar sem engin hefð er fyrir mannsnafninu Kona verður að gera ráð fyrir áberandi aukamerkingu frá samnafninu kona sem eiginnafnið er leitt af. Þessi aukamerking er í þessu tilviki að vissu leyti sú sama og fyrirframgefin merking kvenmannsnafna. Þetta telur nefndin að valdi röskun á merkingarkerfi íslensks máls.

Eins og segir hér að framan í umfjöllun um endurupptökubeiðnina er það álit umboðsmanns Alþingis að ekki sé til staðar viðhlítandi grundvöllur til að túlka ákvæðið, sem hér um ræðir, þannig að íslenskt málkerfi eigi við merkingarþátt málsins. Hvað viðeigandi formlega þætti málkerfisins snertir er ljóst að eiginnafnið Kona stríðir ekki gegn hljóðskipunar-, beygingar- eða orðmyndunarreglum íslensks máls.

Í þessu máli reynir einnig á skilyrðið um að eiginnafn megi ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama. Eins og fyrr segir er nafnið Kona leitt af samnafninu kona sem vísar til kvenmanns á ákveðnum aldri. Þar sem engin hefð er fyrir mannsnafninu Kona verður að gera ráð fyrir áberandi aukamerkingu frá samnafninu kona sem eiginnafnið er leitt af. Þess vegna má gera ráð fyrir að eiginnafnið Kona geti hugsanlega orðið barni til ama.

Í greinargerð með lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, segir að það séu auðsæilega mikilvægir hagsmunir barna að þeim séu ekki gefin nöfn sem telja verður ósiðleg, niðrandi eða meiðandi. Jafnframt er bent á að ákvæðið um að nafn megi ekki vera nafnbera til ama sé vandmeðfarið þar sem erfitt sé að leggja hlutlægt mat á ama. Áréttað er að ákvæðinu skuli beita mjög varlega og er tekið fram að eðlilegt sé að ákvæðinu sé því aðeins beitt að telja megi merkingu nafns neikvæða eða óvirðulega. Merking orðsins kona sem eiginnafnið Kona er leitt af getur ekki í sjálfu sér talist neikvæð.

Úrskurður í þessu máli byggist á atkvæðum meirihluta mannanafnanefndar sem, að teknu tilliti til ofangreinds álits umboðsmanns Alþingis um túlkun ákvæðis mannanafnalaga um íslenskt málkerfi og athugasemda greinargerðar með mannanafnalögum um varlega beitingu ákvæðis laganna um ama, komst að þeirri niðurstöðu að eiginnafnið Kona uppfyllti öll skilyrði 5. gr. laga um mannanöfn.

Sigurður Konráðsson skilaði eftirfarandi sératkvæði í málinu: Merkingarkerfið er einn af þáttum málkerfisins og jafngildur öðrum þáttum. Þess vegna telst nafnið Kona ekki fullnægja skilyrði nr. tvö hér að framan um að eiginnafn megi ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi, sbr. það sem fram kemur hér á undan. Einnig brýtur eiginnafnið Kona í bág við skilyrðið um að eiginnafn megi ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama. Þótt merking nafnsins Kona ‘kvenmaður á ákveðnum aldri’ sé ekki neikvæð eða niðrandi í sjálfu sér er ávallt nauðsynlegt að líta til samhengisins, sem við á hverju sinni, þegar lagt er mat á merkingu. Þótt merking orðsins kona teljist ekki neikvæð í sjálfu sér horfir málið þannig öðruvísi við ef um er að ræða barn sem gefið er eiginnafnið Kona sem hefur áberandi aukamerkinguna ‘kvenmaður á ákveðnum aldri’. Í greinargerð með núgildandi mannanafnalögum segir að það séu „auðsæilega mikilvægir hagsmunir barna að þeim séu ekki gefin nöfn sem telja verður ósiðleg, niðrandi eða meiðandi.“ Sem nafn á barni getur eiginnafnið Kona hæglega talist undarlegt og annarlegt og þar með verið niðrandi og meiðandi fyrir nafnbera. Af þessum sökum er eiginnafnið Kona þannig að það getur orðið nafnbera til ama. Nafnið uppfyllir því ekki skilyrði 5. gr. laga um mannanöfn og því ber að hafna beiðni um nafnið.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Kona (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta