Hoppa yfir valmynd
22. júní 2017 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 332/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. júní 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 332/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17050012

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 4. maí 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. apríl 2017, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarástæðna og sérstakra tengsla við landið, sbr. 12. gr. f eldri laga nr. 96/2002 um útlendinga. Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar frá 10. apríl 2017, þar sem kæranda var synjað um dvalarleyfi á Íslandi, verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að gefa út dvalarleyfi fyrir kæranda. Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að kærandi hafi komið hingað til lands í apríl 2012 og lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd. Þann 13. júní 2012 ákvað Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda ekki til efnislegrar meðferðar og var sú ákvörðun staðfest af innanríkisráðuneytinu þann 7. apríl 2014. Höfðaði kærandi þá mál gegn íslenska ríkinu þar sem hann krafðist þess að úrskurður ráðuneytisins yrði ógiltur. Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur, [...], var íslenska ríkið sýknað af kröfu kæranda. Kærandi áfrýjaði málinu til Hæstaréttar en felldi málið niður í [...] 2015. Þann 16. desember 2015 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. janúar 2016, var kæranda synjað um að dveljast á landinu meðan umsókn hans um dvalarleyfi væri til meðferðar. Var sú ákvörðun staðfest með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 15. mars 2016. Fyrir liggur að kærandi var fluttur úr landi þann 26. maí 2016. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. apríl 2017, var kæranda synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og sérstakra tengsla við landið, sbr. 12. gr. f eldri laga um útlendinga. Kærunefnd hefur borist greinargerð kæranda, dags. 7. júní 2017.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar, sem var tekin eftir gildistöku laga nr. 80/2016 um útlendinga, kom fram að kærandi hafi sótt um dvalarleyfi í gildistíð eldri laga um útlendinga nr. 96/2002. Vísaði stofnunin til þess að ákvæði um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og sérstakra tengsla við landið væri að finna í 74. og 78. gr. núgildandi laga um útlendinga. Að mati Útlendingastofnunar yrði ekki séð að kærandi ætti betri rétt samkvæmt ákvæðum núgildandi laga og því byggði ákvörðunin að þessu leyti á 12. gr. f eldri laga um útlendinga. Tók Útlendingastofnun í kjölfarið afstöðu til þess hvort kærandi ætti rétt á dvalarleyfi með hliðsjón af ákvæði 12. gr. f eldri laga um útlendinga með fyrrgreindri niðurstöðu.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Krafa kæranda er m.a. byggð á því að Útlendingastofnun hafi, með svo þröngri túlkun á 12. gr. f eldri laga um útlendinga, komið í veg fyrir að tilgangur ákvæðisins nái fram að ganga. Því beri að fella ákvörðunina úr gildi, enda hafi hún ekki lagastoð. Útlendingastofnun hafi m.a. túlkað tímamörk í 4. mgr. 12. gr. f eldri laga um útlendinga þröngt og þar með horft framhjá því markmiði sem stefnt var að með lögfestingu ákvæðisins. Þá hafi Útlendingastofnun borið að horfa til laga nr. 80/2016 um útlendinga við túlkun sína á 4. mgr. 12. gr. f eldri laga um útlendinga. Það sé meginregla að borgarar njóti réttarbóta á sviði mannréttindamála og eigi það við um kæranda jafnt sem aðra. Í 2. mgr. 74. gr. núgildandi laga um útlendinga sé stjórnvöldum veitt heimild til að veita útlendingi sem hafi sótt um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Krafa kæranda er jafnframt reist á því að Útlendingastofnun hafi borið að veita honum dvalarleyfi á grundvelli 1., sbr. 2. mgr. 12 .gr. f eldri laga um útlendinga, enda hafi ekki enn tekist að [...].

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Eins og fram hefur komið lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f þágildandi laga nr. 96/2002 um útlendinga í desember 2015. Í ákvörðun Útlendingastofnunar, sem tekin var eftir gildistöku laga nr. 80/2016 um útendinga þann 1. janúar sl., var leyst úr umsókn kæranda á grundvelli 12. gr. f laga nr. 96/2002. Í ákvörðun stofnunarinnar sagði að ekki yrði séð að kærandi ætti betri rétt samkvæmt ákvæðum núgildandi laga og því byggði ákvörðun hennar að því leytinu til á grundvelli 12. gr. f eldri laga um útlendinga.

Í 1. mgr. 121. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um gildistöku laganna þann 1. janúar 2017. Þótt lagaleg álitaefni sem tengjast samanburði á gildandi rétti við eldri lagareglur kunni að vakna við lagaskil, einkum þegar leyst er úr umsókn sem berst í gildistíð laga sem fallin eru úr gildi, er ótvírætt að stjórnvaldsákvarðanir þurfa að eiga sér stoð í gildum lögum. Við gildistöku laga nr. 80/2016 voru lög um útlendinga nr. 96/2002 felld úr gildi. Í ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. apríl 2017, sem var tekin eftir gildistöku laga nr. 80/2016 um útlendinga, var hins vegar leyst úr máli kæranda á grundvelli lagaákvæðis sem var þá fallið úr gildi. Að mati kærunefndar hefði rökstuðningur Útlendingastofnunar átt að grundvallast á lögum nr. 80/2016, að teknu tilliti til réttarstöðu kæranda samkvæmt lögum nr. 96/2002 um útlendinga.

Samkvæmt framansögðu verður ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný á grundvelli 74. og 78. gr. laga nr. 80/2016. Vegna umfjöllunar í ákvörðun Útlendingastofnunar tekur kærunefnd fram að þar sem umsókn kæranda barst í gildistíð laga nr. 96/2002 skal Útlendingastofnun, að því marki sem það rúmast innan svigrúms stjórnvalda samkvæmt heimildum laga nr. 80/2016, gæta þess að niðurstaða málsins verði ekki önnur og lakari en ef leyst hefði verið úr málinu á grundvelli laga nr. 96/2002 um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration shall reexamine the applicant‘s case.

 

Anna Tryggvadóttir

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                                         Árni Helgason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta