Hoppa yfir valmynd
21. júní 2019 Forsætisráðuneytið

803/2019. Úrskurður frá 14. júní 2019

Úrskurður

Hinn 14. júní 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 803/2019 í máli ÚNU 19040016.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 14. apríl 2019, kærði A ófullnægjandi afgreiðslu Lánasjóðs íslenskra námsmanna, LÍN, á beiðni kæranda um upplýsingar um nemendur sem sótt hafa nám í skipulagsfræðum erlendis á árabilinu 2008-2018.

Kærandi óskaði upphaflega eftir framangreindum gögnum 15. desember 2018. Hann fékk gögnin loks afhend með tölvupósti, dags. 28. mars 2019. Í kæru kemur fram að listinn sem LÍN hafi afhent sé engan veginn tæmandi. Auk þess sé hann rangur og villandi. Ljóst sé að kærandi geti ekki nýtt sér gögnin þar sem þau séu ekki áreiðanleg.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 29. apríl 2019, var kæran kynnt LÍN og stofnuninni veittur frestur til að senda úrskurðarnefnd umsögn um kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Jafnframt var þess farið á leit að LÍN léti úrskurðarnefnd í té afrit af þeim gögnum, sem kæran lyti að.

Í umsögn LÍN, dags. 6. maí 2019, kemur fram að þær upplýsingar sem kærandi óskaði eftir hafi verið teknar saman og sendar kæranda. Ekkert í kerfum sjóðsins gefi til kynna að umbeðnar upplýsingar séu ekki tæmandi. Þá er því hafnað að upplýsingarnar séu rangar og villandi.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um afgreiðslu LÍN á beiðni kæranda um upplýsingar um nemendur sem sótt hafa nám í skipulagsfræðum erlendis á árabilinu 2008-2018. Kærandi telur að þær upplýsingar sem honum hafi verið afhentar séu rangar og villandi, auk þess sem þær séu ekki tæmandi.

Réttur til aðgangs að gögnum tekur til fyrirliggjandi gagna, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt 20. gr. þeirra laga er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að slíkum gögnum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Af þessu leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda gögn á tiltæku formi. Vísast um þetta til 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þegar svo háttar til að stjórnvald hefur afhent kæranda þau gögn sem hann óskar eftir telst ekki vera um að ræða synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. og ber úrskurðarnefndinni að vísa kæru þar að lútandi frá. Rétt er að taka fram að það kemur í hlut annarra aðila að hafa eftirlit með því hvort stjórnvöld sinna skyldum sínum um skráningu og vistun gagna með fullnægjandi hætti, þ. á m. hvort efni gagna kunni að einhverju leyti að vera rangt. Vísast í þessu sambandi einkum til æðri stjórnvalda, Þjóðskjalasafns Íslands, umboðsmanns Alþingis og dómstóla.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur hvorki forsendur til að rengja þá fullyrðingu LÍN að umbeðnar upplýsingar í málinu séu tæmandi, né að þær séu hvorki rangar né villandi. Af þessu leiðir að ekki liggur fyrir synjun stjórnvalds um að veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt upplýsingalögum að þessu leyti. Samkvæmt framangreindu verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 14. apríl 2019, á hendur Lánasjóði íslenskra námsmanna er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir      Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta