Minnisblað Bankasýslu ríkisins um arðgreiðslugetu viðskiptabankanna þriggja
Bankasýsla ríkisins hefur að beiðni fjármála- og efnahagsráðuneytisins tekið saman meðfylgjandi minnisblað um arðgreiðslugetu viðskiptabankanna þriggja, sem ríkissjóður á eignarhluti í, árin 2018-2020. Allar sviðsmyndir sem er að finna í minnisblaði Bankasýslunnar eru unnar út frá opinberum gögnum.
Samkvæmt mati Bankasýslunnar við fyrirspurn ráðuneytisins er mismunur á eigin fé bankanna og þeim eiginfjárkröfum sem Fjármálaeftirlitið hefur sett alls um 253 ma.kr., en sé tekið tillit til þess að óvarlegt þykir að mæta aðeins lágmarkskröfum um eigið fé er gert ráð fyrir að áætlað umfram eigið fé nemi aldrei lægra hlutfalli en 3% yfir tilskildu lágmarki. Það svarar til um 183 ma.kr. Með hliðsjón af hlutfallslegu eignarhaldi ríkissjóðs á viðskiptabönkunum megi því ætla að hlutur ríkissjóðs í umfram eigin fé, sem skilgreint er með þessum hætti, geti numið um 120 ma.kr.
Bankasýslan bendir á að mikilvægt sé að halda því til haga að það er á forræði stjórna bankanna, en ekki hluthafa, að leggja fram tillögur um arðgreiðslur. Mat á arðgreiðslugetu til framtíðar er vitanlega háð margvíslegum fyrirvörum, svo sem um að heilbrigt efnahagsástand verði hér næstu árin, að regluverk haldist óbreytt og að fjármálamarkaðir verði opnir fyrir víkjandi lánum til bankanna. Sömuleiðis er bent á þá staðreynd að lækkun eigin fjár í bönkunum leiðir til lækkunar á arðgreiðslugetu síðar.
Rétt er að taka fram að við skoðun á arðgreiðslugetu bankanna er nauðsynlegt að taka tillit til þess að breyttar reglur um reikningshald ríkissjóðs, sem taka gildi á yfirstandandi ári, hafa í för með sér breytt mat á virði félaga í eigu ríkissjóðs, sem oft er metið hærra en gert var samkvæmt eldri reikningsskilareglum. Í nýjum reglum er virði eignarhluta í félögum metið samkvæmt hlutdeildaraðferð, þ.e. virði eignarhlutarins sem skráð er í ríkisreikningi hvers árs samsvarar hlutfalli eignarhluta ríkisins af heildar eigin fé í ársreikningi viðkomandi félaga. Arðgreiðslur sem lækka eigið fé eru ekki lengur skráðar sem tekjur á rekstrargrunni og hafa því ekki áhrif á rekstrarafkomu ríkissjóðs.
Jafnframt skal minnt á að í fjármálaáætlun 2018-2022, sem samþykkt var á Alþingi sl. vor, er gert ráð fyrir 140 ma.kr. óreglulegum tekjum ríkissjóðs á gildistíma áætlunarinnar. Var þar einkanlega horft til arðgreiðslna frá bönkunum og hagnaðar af sölu eignarhluta í þeim. Má því segja að þegar sé búið að gera ráð fyrir verulegum hluta af væntanlegum arðgreiðslum viðskiptabanka í eigu ríkisins, eða söluhagnaði af þeim, í tekjuáætlunum fyrir ríkissjóð á komandi árum.