Hoppa yfir valmynd
8. október 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 8. október 2021

Heil og sæl. 

Eftir annasama tíð var vikan sem nú er að líða heldur rólegri en alla jafna í utanríkisþjónustunni. En það var samt nóg að gerast! Í morgun barst tilkynning frá Noregi um að blaðamennirnir Maria Ressa og Dimitrí Muratov hefðu fengið friðarverðlaun Nóbels fyrir framlag sitt til verndar tjáningarfrelsinu, „sem er forsenda fyrir lýðræði og varanlegum friði,“ eins og segir í fréttatilkynningu nóbelsverðlaunanefndarinnar norsku. Verðlaunin fá þau fyrir baráttu sína fyrir tjáningarfrelsi á Filippseyjum og í Rússlandi. Á sama tíma eru þau fulltrúar allra blaðamanna sem berjast fyrir þessum málstað í heiminum á tímum sem lýðræði og tjáningarfrelsið eiga sífellt meira undir högg að sækja.

Ressa fundaði með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra í nóvember 2019. Ráðherra minntist fundarins á samfélagsmiðlum í dag og færði henni hamingjuóskir. Ressa var stödd á Íslandi í tengslum við við heimsþing kvenleiðtoga en nokkrum mánuðum áður var ályktun Íslands um mannréttindaástandið í Filippseyjum samþykkt í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Það skipti máli að hennar sögn.

„Ég mun aldrei gleyma þessum fundi okkar. Viðbrögð hennar sannfærðu mig enn frekar um rödd okkar Íslendinga á alþjóðavettvangi skiptir miklu máli. Á ferli mínum sem utanríkisráðherra og í raun sem stjórnmálamanns hafa fáir fundir haft jafn djúpstæð áhrif á mig og þessi stutti fundur með Mariu Ressa á skrifstofu minni í nóvember 2019,“ sagði ráðherra á Facebook-síðu sinni í dag.

Það var þess vegna einkar viðeigandi að árleg friðarráðstefna Höfða friðarseturs, Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands í samstarfi við utanríkisráðuneytið fór fram í dag. Friðarráðstefnan í ár samanstóð af fjórum málstofum sem snéru með ólíkum hætti að mikilvægi trausts fyrir sjálfbæran frið og friðarmenningu.

Hægt er að sjá viðburðinn hér en þar ræddi Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri við Helen Clark, fyrrverandi forsætisráðherra Nýja-Sjálands og framkvæmdastjóra UNDP, og Álfrún Perla Baldursdóttir sérfræðingur á deild borgaraþjónustu- og áritanamála, stýrði  málstofu um Afganistan.

Á vettvangi utanríkisráðuneytisins í vikunni sögðum við einnig frá þvi að verkefnastjórn stjórnvalda um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna  hefði gefið út verkfærakistu um innleiðingu fyrirtækja á markmiðunum. Verkfærakistunni er ætlað að vera fyrirtækjum til leiðbeiningar um hvernig þau geta lagt sitt af mörkum í þágu heimsmarkmiðanna en fyrr á þessu ári gaf verkefnastjórnin út sambærilega verkfærakistu fyrir sveitarfélög. Nánar um það hér.

En þá að sendiskrifstofum okkar.

Í Brussel komu saman til fundar í gær utanríkis- og innanríkisráðherra ESB þar sem rætt var um alþjóðlega vernd Afgana í neyð (e. High-level Forum on protecting Afghans at risk). Kristján Andri Stefánsson sendiherra, mætti fyrir Íslands hönd, og upplýsti um fjölda þeirra Afgana í viðkvæmri stöðu sem Ísland væri reiðubúið að taka á móti og sagði frá auknum framlögum til mannúðaraðstoðar í Afganistan. Þá áttu sendiráð EFTA ríkjanna og EFTA skrifstofan óformlegan fund með slóvensku formennskunni og utanríkisþjónustu ESB á þriðjudaginn sl. Fundurinn var haldinn í nýja EFTA húsinu, og þar var EES samningurinn kynntur og hvað væri í deiglunni í samstarfinu.

Í London stóðu sendiráðið og Seafood from Iceland fyrir viðburðinum Discover Seafood from Iceland í London í gær. Markmið viðburðarins var að efla enn frekar tengslamyndun milli fiskiðnaðarins í Bretlandi og á Íslandi, en Bretland er stærsti útflutningsmarkaður Íslands fyrir sjávarafurðir.

Á mánudag afhenti svo Sturla Sigurjónsson sendiherra trúnaðarbréf sitt sem fastafulltrúi Íslands gagnvart Alþjóðasiglingamálastofnuninni.

Unnur Orradóttir Ramette sendiherra, sem fyrir skemmstu afhenti forseta Líbanons trúnaðarbréf, var í vikunni í viðtali við líbanska dagblaðið L'Orient-Le Jour þar sem hún ræddi um fjárstuðning íslenskra stjórnvalda og ekki síst íslensku þjóðarinnar, í gegnum ýmis félagasamtök, þar á meðal Rauða Krossinn, sem fer í ýmis uppbyggingarverkefni eftir sprenginguna í Beirút á síðasta ári.

Þá átti Unnur nýlega fund með Louisu St. Djermoun, myndlistarkonu af íslensk-alsírskum uppruna, sem starfað hefur í París síðastliðin 20 ár. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum myndlistarsýningum í Frakklandi og á Íslandi og hafa verk hennar tvistvar sinnum verið valin bestu verk sýningar Evrópuhússins í Montpellier á viku listarinnar.
Við tilefnið afhenti Louisa sendiráðinu listaverkið sem sjá má á myndinni.

„Kunnum við Louisu okkar bestu þakkir fyrir þessa rausnarlegu gjöf,“ sagði okkkar fólk í París.

Í Noregi hitti Ingibjörg Davíðsdóttir, sendiherra Íslands í Osló, kollega sinn frá Eistlandi, sem kenndi henni á Twitter! Svo ræddu þau einnig ýmis tvíhliða og fjölþjóðleg málefni.

Í Finnlandi hitti Auðunn Atlason sendiherra unga diplómata frá Finnlandi ásamt kollegum sínum.

Í Japan fékk Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra sér staðgóðan hádegisverð að hætti heimamanna.


Þá hefur verið í nógu að snúast í nefndarstarfi hjá okkar fólki í fastanefnd Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum í New York eins og sjá má í nokkrum af neðangreindum tístum.

Nikulás Hannigan aðalræðismaður Íslands í New York hitti svo kollega sína þar sem m.a. var rætt um grænar orkulausnir.

Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands gagnvart mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf, flutti svo sameiginlega yfirlýsingu fyrir hönd Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna þar sem áréttuð var skuldbinding ríkjanna til þess að berjast gegn hvers kyns kynþáttafordómum og mismunum.

Í gær lauk svo árlegri fundarlotu framkvæmdanefndar Flóttamannastofnunar SÞ (UNHCR) sem Ísland er aðili að. Í ávarpi sínu minnti Harald á víðtækan stuðning Íslands við málefni fólks á flótta og ítrekaði mikilvægi þess að styðja við málefni kvenna og stúlkna og hinsegin fólks

Þá tók Hlynur Guðjónsson sendiherra Íslands í Ottawa í Kanada þátt í pallborðsumræðum á viðburði á vegum York háskólans í Kanada sem haldinn var í tilefni af nýrri heimildamynd um Ísland sem ber heitið „The changing Face of Iceland“. Myndin fjallar um áhrif loftslagsbreytinga á Ísland og íslenskt samfélag.

Við segjum þetta gott í bili.

Góða helgi!

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta