Hoppa yfir valmynd
14. október 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 418/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 14. október 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 418/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21070014

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 6. júlí 2021 kærði […], fd. […], ríkisborgari Pakistan (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. júní 2021, um að hafna umsókn hans um dvalarleyfi, sbr. 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi samkvæmt umsókn.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 14. október 2017. Með ákvörðun, dags. 26. febrúar 2018 komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að hann skyldi sendur til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 6. ágúst 2018, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt var fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar. Með ákvörðun, dags. 9. apríl 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Síðastnefnd ákvörðun var staðfest með úrskurði kærunefndar þann 18. júlí 2019 í máli nr. 357/2019. Var kæranda frávísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. sama ákvæðis, en honum veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur. Samkvæmt gögnum málsins var beiðni um frávísun kæranda send í framkvæmd hjá stoðdeild ríkislögreglustjóra þann 14. ágúst 2019 og var kærandi skráður horfinn og eftirlýstur hinn 20. september 2019.

Kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara þann 3. maí 2021. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. júní 2021, var umsókninni hafnað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 6. júlí 2021 og þann 14. júlí 2021 barst kærunefnd greinargerð kæranda.

Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefnd, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 16. ágúst 2021 féllst kæruefnd á þá beiðni.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun sinni vísar Útlendingastofnun til og fjallar um ákvæði 51. gr. laga um útlendinga. Að mati Útlendingastofnunar hefði kærandi ekki haft heimild til dvalar þegar hann lagði dvalarleyfisumsókn sína fram, hvorki á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar né dvalar án áritunar og uppfyllti hann því ekki skilyrði 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Að mati stofnunarinnar væru aðstæður kæranda ekki þess eðlis að beiting undantekningarheimildar 3. mgr. 51. gr. ætti við. Var umsókn kæranda því hafnað á grundvelli 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til þess að mat Útlendingastofnunar sé algerlega órökstutt og því sé kæranda ekki ljóst á hverju það byggi eða hvort stofnunin hafi byggt á einhverjum gögnum og hvaða sjónarmið kunni að vera að baki ákvörðuninni. Í ákvörðun Útlendingastofnunar sé vísað til þess að það geti fallið undir ríkar sanngirnisástæður að eiga maka hér á landi en tekið fram að vitneskja kæranda um heimildarleysi hans til dvalar hér á landi komi í veg fyrir beitingu undanþáguheimildar 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Hafi stofnunin komist að þessari niðurstöðu án þess að framkvæma sérstakt hagsmunamat líkt og áskilið sé í ákvæðinu en í málinu liggi fyrir að aðstæður hans hafi breyst verulega frá því að umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi var synjað. Kærandi sé nú giftur íslenskum ríkisborgara og af þeim sökum verði að gera ríkari kröfur en ella til rökstuðnings fyrir synjun á dvalarleyfi. Byggir kærandi á því að Útlendingastofnun hafi vanrækt rannsóknarskyldu sína enda sé látið duga að vísa í hin ýmsu ákvæði laga um útlendinga án þess að lagt sé sérstakt mat á þá hagsmuni sem séu í húfi. Sé í ákvörðuninni þannig ekki að finna neina umfjöllun um það óhagræði sem kærandi og maki hans verði fyrir við brottvísun hans auk þess sem það sé með öllu óvíst að hann eigi afturkvæmt aftur til Íslands. Þá sé hvergi í hinni kærðu ákvörðun tekið tillit til hagsmuna maka kæranda við að halda samvistum við hann og séu hagsmunir stjórnvalda af brottvísun kæranda hverfandi gagnvart hagsmunum þeirra til að halda samvistum áfram í skjóli friðhelgi heimilisins. Þá mótmælir kærandi því harðlega að ákvæði 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga sé skýrt þröngri lögskýringu og fari slík túlkun bersýnilega gegn vilja löggjafans. Sé þröng lögskýring einnig í andstöðu við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga kemur fram sú meginregla að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins og er honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Frá því skilyrði er heimilt að víkja ef umsækjandi um dvalarleyfi er undanþeginn áritunarskyldu eða hann er staddur hér á landi og aðstæður hans falla undir a-c lið 1. mgr. 51. gr. Varða stafliðirnir þær aðstæður þar sem umsækjandi er maki eða sambúðarmaki íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst löglega í landinu samkvæmt ótímabundnu dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, sbr. a-lið, barn íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt ótímabundnu dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, þegar barnið er yngra en 18 ára, sbr. b-lið, eða þegar sótt er um dvalarleyfi á grundvelli 61., 63. eða 64. gr. laga um útlendinga.

Í 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga segir að heimild til dvalar þegar umsækjandi sé undanþeginn áritunarskyldu gildi þar til umsækjandi hafi dvalið í 90 daga á Schengen-svæðinu. Undantekningar a-c-liðar 1. mgr. gildi meðan umsækjandi hafi heimild til dvalar á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar eða á grundvelli dvalar án áritunar. Útlendingastofnun geti veitt umsækjendum á grundvelli a- og b-liðar 1. mgr. heimild til lengri dvalar meðan umsókn sé í vinnslu.

Kærandi er maki íslensks ríkisborgara, sbr. a-lið 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga en samkvæmt gögnum málsins gengu þau í hjúskap á Íslandi hinn 17. apríl 2020. Líkt og greinir í II. kafla úrskurðarins fékk kærandi lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd með úrskurði kærunefndar hinn 18. júlí 2019 en þar sem kærandi hafði yfirgefið landið á þeim tímapunkti var úrskurðinn tilkynntur talsmanni hans hjá Rauða Krossi Íslands með bréfi kærunefndar, dags. 22. júlí 2021. Ekki er fyllilega ljóst af gögnum málsins hvenær kærandi yfirgaf landið. Í dvalarleyfisumsókn hans sem dagsett er 9. apríl 2021 og móttekin var af Útlendingastofnun þann 3. maí 2021, kemur fram að kærandi hafi yfirgefið Ísland hinn 16. maí 2019 og verið á Spáni á tímabilinu 16. maí 2019 til 2. nóvember 2019. Kemur fram að hann hafi dvalið hérlendis frá 2. nóvember 2019. Þegar kærandi lagði fram dvalarleyfisumsókn sína var dvöl hans hvorki á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar né á grundvelli dvalar án áritunar, sbr. 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði síðastnefnds ákvæðis og á undantekningarákvæði a-liðar 1. mgr. 51. gr. því ekki við í máli hans.

Í 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að heimilt sé að víkja frá 1. mgr. 51. gr. í öðrum tilvikum en þar eru upp talin ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Í athugasemdum við 51. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. að ætlunin sé að ákvæðinu sé beitt þegar tryggja þurfi samvistir fjölskyldna eða þegar miklir hagsmunir séu í húfi. Í ljósi þess að um undantekningarákvæði er að ræða telur kærunefnd að almennt beri að túlka ákvæðið þröngt. Í 4. mgr. 51. gr. segir að ef umsækjandi um dvalarleyfi sem dvelur hér á landi án þess að vera undanþeginn því að sækja um leyfi áður en hann kemur til landsins skv. 1. og. 2. mgr. skuli hafna umsókninni á þeim grundvelli. Það sama eigi við ef umsækjandi kemur til landsins áður en umsókn er samþykkt.

Í greinargerð vísar kærandi til þess að hann hafi kynnst maka sínum fyrir þremur og hálfu ári og að síðan þá hafi þau eytt hverjum einasta degi saman nema þegar annað hvort þeirra hafi verið erlendis. Er vísað til þess að þau hafi búið hjá foreldrum maka í að verða þrjú ár og að kærandi eigi í góðum tengslum við tengdaforeldra sína. Í fylgigögnum með greinargerð er að finna ljósmyndir af kæranda og maka hans við ýmis tilefni. Jafnvel þótt kærandi hafi dvalið á Íslandi um langa hríð í ólögmætri dvöl og að hann hafi ekki stofnað til fjölskyldutengsla í lögmætri dvöl, sjá t.d. mál Slivenko gegn Lettlandi (mál nr. 48321/99) frá 9. október 2003, verður að mati kærunefndar að vega það atriði á móti lengd sambands hans við maka sinn auk þess sem stjórnvöld hafa ekki beitt úrræðum gagnvart kæranda sem heimil eru samkvæmt XII. kafla laga um útlendinga. Er það mat kærunefndar, með vísan til framangreinds, gagna málsins og eins og hér sérstaklega háttar, að ríkar sanngirnisástæður séu fyrir hendi í máli kæranda samkvæmt 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga þannig að dvalarleyfisumsókn hans skuli hljóta efnislega skoðun hjá stjórnvöldum. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til meðferðar að nýju.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellants’ case.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta