Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2021

Leiðtogar ræða öryggis- og varnarmál og taka stöðuna á faraldrinum

Sendiráðið í Brussel fylgist náið með því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins. Undanfarið hefur þetta borið hæst:

Fundur leiðtogaráðs Evrópusambandsins með aðalframkvæmdastjóra NATO

Í dag, föstudag, fór fram seinni lota fundar leiðtogaráðs Evrópusambandsins. Þessi lota var helguð öryggis- og varnarmálum og hófst á ávarpi Jens Stoltenberg aðalframkvæmdastjóra NATO. Stoltenberg lagði áherslu á að hvað varðar NATO sé meginverkefnið meðan á Kóvíð standi að tryggja að heilbrigðiskrísan breytist ekki í öryggiskrísu. Ýmsar ógnir séu til staðar, s.s. aðgerðir Rússlands, aukin harka í hryðjuverkum, vandaðar netárásir, ris Kína og áhrif loftslagsbreytinga á öryggismál. Evrópa og Norður Ameríka þurfa saman að glíma við þessar ógnir.

 Af hálfu ESB var m.a. áhersla lögð á umræður um brýna hagsmuni evrópskri öryggis- og varnarmálastefnu, þ.e. að styrkja stefnu Evrópusambandsins í öryggis- og varnarmálum, að styrkja getu ESB til að geta gripið til sjálfstæðra aðgerða og ýta undir brýna hagsmuni og gildi bandalagsins á alþjóðasviðinu, og loks að bæta samband ESB við bandamenn í öryggis- og varnarmálum, sérstaklega NATO. Einnig var rætt hvernig auka mætti viðnámsþrótt ESB gegn netárásum og blönduðum ógnum (e. hybrid threats).

Charles Michel, forseti leiðtogaráðsins, lýsti því yfir að sambandið hygðist styrkja samstarf við NATO og að unnið yrði náið með nýjum stjórnvöldum í Bandaríkjunum. Æðsti fulltrúi sambandsins í utanríkis- og öryggismálum, Joseph Borell gerði grein fyrir þróun á svokallaðs áttavita (e. strategic compass) sem mun vera leiðarvísir ESB í öryggis- og varnarmálum (sjá nánar hér: https://eeas.europa.eu/headquarters/headquarters-homepage/89047/towards-strategic-compass_en). Undirbúningur að gerð hans hófst í tíð þýsku formennskunnar og lýkur þegar Frakkar taka við. Áttavitanum er ætlað að styrkja öryggis- og varnarsamtarf ESB, en er enn sem komið verk í vinnslu.

Einnig var rætt um bandalagið til suðurs (e. southern partnership), sem er grundvallað á sameiginlegri sögu og landafræði. Samstarf ESB við nágranna þess til suðurs inniheldur tíu samstarfslönd; Alsír, Egyptaland, Ísrael, Jórdaníu, Líbanon, Líbíu, Marokkó, Palestínu, Sýrland og Túnis. Markmið þess er að styrkja stöðugleika og öryggi á svæðinu. Hugmyndir eru um aukinn metnað og frekari samvinnu í því skyni að verja brýna hagsmuni Evrópusambandsins á svæðinu. Þannig mun 2,3 milljörðum Evra vera veitt til stuðnings þangað vegna Kóvíð, bæði til heilbrigðismála en einnig til efnahagslegrar uppbyggingu.

Rætt var um aðgerðaráætlun ESB, sem kynnt var fyrr í vikunni. Aðgerðaráætlunin snýst um hvernig nýta mætti borgaralegan-, hergagna- og geimiðnaðinn í borgaralegum tilgangi t.d. Eurodrone. ESB mun nota fjármuni úr sameiginlegum sjóðum til að þróa slíka tækni.

Enda þótt NATO sé gríðarlega mikilvægt fyrir ESB, þá þarf ESB að taka sjálft ábyrgð á eigin öryggi. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði það vera vandamál hversu brotakennd hernaðargeta Evrópusambandsins væri. Þróa þyrfti aflann sameiginlega, deila styrk (e. resources), þannig samlegð (e. interoperability) yrði úr. Vísaði hún í því samhengi til PESCO (e. Permanent Structured Cooperation) og CARD (e. the Coordinated Annual Review on Defence). Meðlimir leiðtogaráðsins, enda þótt mikilvæg skref hefðu verið tekin í þá átt, hyggjast dýpka og auka samvinnu á sviði öryggis- og varnarmála sem og að auka útgjöld til varnarmála. Í því skyni skuldbundu leiðtogarnir sig til að:

  • Bæta virkni ESB á sviði borgaralegrar og hernaðarlegra þátttöku, m.a. gegnum Evrópsku friðarstofnunina (e. European Peace Facility),
  • Hvetja aðildarríki til að nýta betur CARD og nota að fullu PESCO,
  • Styrkja varnartækni og iðnaðargrunn Evrópu, m.a. gegnum Evrópska varnarsjóðinn (e. European Defence Fund),
  • Tryggja öruggan aðgang að geimnum, netheimum og alþjóðlegum hafssvæðum, og bæta hreyfanleika herja gegnum Evrópu.

Leiðir til að auka framboð bóluefnis og bólusetningarvottorð

Á fyrri degi leiðtogafundar ESB, þ.e. í gær, fimmtudag, var staðan tekin á faraldrinum, þ. á m. leiðir til að auka framleiðslu og dreifingu bóluefnis og bólusetningarvottorð.

Fyrir fundinn lagði framkvæmdastjórnin ríka áherslu á að hún vinni náið með bóluefnisframleiðendum að því að auka framleiðslugetu þeirra og tryggja að þeir geti staðið við gerða samninga, m.a. í samstarfi við aðra lyfjaframleiðendur. Jafnframt að hún vinni náið með aðildarríkjum að því að geta hrint bólusetningaráætlunum í framkvæmd um leið og rætist úr framboðinu. Á öðrum ársfjórðungi er búist við að 300 milljón skammtar fari í umferð í samanburði við 50 milljón skammta á þeim fyrsta, þar af hafi 29 milljón þegar verið dreift. Það þýði að 6,4% ESB-borgara hafi verið bólusettir eða 8% fullorðinna. Samkvæmt áætlunum framkvæmdastjórnarinnar er búist við lokið verði við að bólusetja 70% fullorðinna í ESB eða 255 milljón manns.

Forseti leiðtogaráðsins Charles Michel sagði eftir fundinn að framleiðsla bóluefnis haldi áfram að vera í algerum forgangi og unnið sé að framleiðsluaukningu. Bóluefni séu þegar framleidd á 41 stað í Evrópu, en hægt væri að virkja miklu fleiri. Hann hvatti til að framleiðendur leggi saman krafta sína í því skyni og nefnd voru dæmi af því tagi. Hann gekk þó ekki lengra í að knýja þau til samstarfs og athygli vakti að von der Leyen áréttaði að ekki stæði til að skylda lyfjaframleiðendur til samstarfs (voluntary sharing of licensing). 

Í máli von der Leyen kom fram að nýju afbrigðunum héldi áfram að vaxa fiskur hrygg. Breska afbrigðið hafi þegar komið fram í öllum aðildarríkjum nema einu, s-afríska í 14 og brasilíska í 7. Af þeim sökum þurfi að leggja aukna áherslu á raðgreiningu jákvæðra sýna og fjárfesta í þróun og uppfærslu bóluefna til samræmis við niðurstöður þeirra. Fram kom að framkvæmdastjórnin muni verja 200 milljónum evra til að gera aðildarríkjum kleift að raðgreina sýni í auknum mæli.

Fram kom í máli Michel og von der Leyen að einhugur hafi verið um að vinna sameiginlega að þróun bólusetningarvottorðs (vaccine certificate) í því skyni að draga úr ferðatakmörkunum og hleypa lífi í ferðaþjónustu. Ekkert mæli á móti því að aðildarríkin vinni hvert að sinni tæknilausn en framkvæmdastjórnin þurfi að tryggja að mismunandi tækni geti talað saman (interoperable). Hátæknifyrirtækin Apple og Google hafi þegar boðið fram ákveðnar lausnir í því skyni en talið er að þróun þeirra geti tekið allt að 3 mánuði. Á hinn bóginn sé mörgum öðrum spurningum ósvarað, bæði að því er varðar notkun þeirra og þýðingu. Mikilvægt sé að tryggja samræmda nálgun í því samhengi. Að svo stöddu liggi t.a.m. ekki fyrir vísindalegar niðurstöður um hvort bólusettur einstaklingur geti áfram smitað aðra jafnvel þótt fyrstu vísbendingar frá niðurstöðum rannsókna í Ísrael bendi til að svo sé ekki. Mörg ríki óttist að einstaklingum verði mismunað eftir því hvort þeir hafi slík vottorð eða ekki. Önnur bendi á að vottorðin verði til í einni eða annarri mynd hvort eð er. Betra sé að ESB stígi fram og samræmi útgáfu þeirra. VDL tók undir það og sagðist vonast til að margt af þessu skýrist fyrir leiðtogafundinn í mars.

Von der Leyen lagði einnig áherslu á að ESB hafi tvöfaldað framlag sitt til Covax og veiti nú stærstu framlögin til þess samstarfs eða 2,2 milljarða evra. Fyrstu 600.000 skammtarnir á þess vegum hafi þegar ratað til Ghana. Auk Afríku muni V-Balkan og S-Ameríka njóta góðs af Covax samstarfinu. Enginn verði óhultur fyrr en allir séu það.

Framkvæmdastjórnin finnur að landamæralokunum

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur varað sex aðildarríki við því að hindranir sem þau hafa komið upp á landamærum sínum vegna farsóttarinnar gangi of langt. Ríkin sex eru Þýskaland, Belgía, Danmörk, Finnland, Ungverjaland og Svíþjóð. Það eru einkum þýsk stjórnvöld sem hafa sætt gagnrýni fyrir að grípa til takmarkana sem hafa haft afdrifarík áhrif á umferð um landamærin frá nágrannaríkjum eins og Tékklandi, Slóvakíu og Austurríki. Framkvæmdastjórnin vísar í tilmæli ráðherraráðsins frá því í október og sem endurskoðuð voru fyrir skemmstu. Eru ríkin sex krafin svara um það hvernig aðgerðirnar samræmist þessum sameiginlegu viðmiðunum.

Viðbúnaður vegna nýrra afbrigða veirunnar

Framkvæmdastjórn ESB hefur að skerpt á áherslum sínum í viðureign sinni við heimsfaraldurinn með því að kynna til leiks nýja viðbragðsáætlun, nefnd HERA Incubator. HERA er skammstöfun fyrir nýja stofnun sem þegar hafði verið tilkynnt að sett yrði á laggirnar (e. European Health Emergency Preparedness and Response Authority) og er því um nokkurs konar vísi að þeirri stofnun að ræða. Eftir að hafa legið undir ámæli fyrir hægagang og tafir á dreifingu bóluefnis, er þessari áætlun fyrst og fremst ætlað að auka viðbragðsflýti í baráttunni gegn nýjum veiruafbrigðum og hefta útbreiðslu þeirra. Samkvæmt henni munu vísindamenn, líftæknifyrirtæki, framleiðendur og stjórnvöld í ESB-ríkjum og heim allan taka höndum saman um aðgerðir til að greina hratt ný afbrigði, þróa bóluefni við þeim, flýta markaðssetningu þeirra og auka framleiðslugetu lyfjaframleiðenda.

Meðal aðgerða sem gripið verður til er að:

  • Verja 75 milljónum evra til að þróa próf sem nema ný afbrigði og stuðla að raðgreiningu þeirra.
  • Verja 150 milljónum evra til að auka rannsóknir og upplýsingaskipti um ný afbrigði.
  • Stofna til samstarfs um klínískar rannsóknir 16 aðildarríkja og 5 samstarfsríkja þeirra, þ.á m. Ísraels og Sviss, og skiptast á upplýsingum um niðurstöður, m.a. að því er varðar börn og ungmenni.
  • Flýta samþykki fyrir nýjum bóluefnum byggðum á verkferlum fyrir afgreiðslu markaðsleyfa fyrir bóluefni við nýjum inflúensu-stofnum.
  • Styðja við framleiðslu nýrra og aðlagaðra bóluefna við nýjum afbrigðum.
  • Vinna með framleiðendum að því að tryggja öryggi afhendingar og draga úr líkum á að flöskuhálsar myndist.
  • Hvetja til samvinnu milli framleiðenda og auka framleiðslugetu innan ESB.

Áætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum - þú tryggir ekki eftir á

Framkvæmdastjórn ESB samþykkti 24. febrúar sl. nýja áætlun er varðar aðlögun að loftslagsbreytingum. Markmið áætlunarinnar er að Evrópusambandið verði loftslagsþolið (e. climate-resilient ) samfélag árið 2050. Eitt af því sem takast þarf á við er tryggingavernd vegna tjóns af hamfaratjóns sem rekja má til loftslagsbreytinga. Að sögn framkvæmdastjórnarinnar eru einungis um 35% af slíku tjóni tryggð. Hætt er þá við að reikningurinn lendi að stærstum hluta hjá skattgreiðendum. Framkvæmdastjórnin sér fyrir sér að fá tryggingageirann til að axla meiri ábyrgð í þessu efni.

Nýja áætlunin byggir á eldri áætlun Evrópusambandsins frá árinu 2013 um sama efni og á endurmati hennar frá árinu 2018. Með nýju áætluninni er Evrópusambandið að stíga skref frá skipulagningu yfir í innleiðingu aðgerða til aðlögunar að loftslagsbreytingum. Framkvæmdastjórnin hefur óskað eftir stuðningi við áætlunina frá þingi og leiðtogaráði Evrópusambandsins. Framkvæmdastjórnin hvetur einnig hagsmunaaðila að taka virkan þátt í innleiðingu áætlunarinnar. Sjá nánar: https://ec.europa.eu/clima/sites/clima/files/adaptation/what/docs/eu_strategy_2021.pdf

Bráðabirgðafyrirgreiðsla til að takast á við atvinnuleysi

Á fundi fjármálaráðherra ESB 16. febrúar sl. var margt á dagskrá sem endranær. Samkvæmt venju höfðu ráðherrar Evrulandanna fundað deginum áður þar sem farið yfir mikilvægi og stöðu evrunnar í fjármálamörkuðum í dag. Ljóst er að stjórnarskiptin í Bandaríkjunum og aukin þátttaka þeirra á alþjóðavettvangi mun styrkja dollarann á ný á kostnað evrunnar með tilheyrandi vonbrigðum fyrir ESB.

Í upphafi fundar var rætt um fjármálamarkaðinn og lagabreytingar sem þar eru í gangi. Eins og áður er fjártæknipakkinn (FinTech package) og sameiginlegur innri markaður ESB um fjármálastofnanir (Banking Union) ásamt sameiginlegum innstæðutryggingasjóði þar efst á blaði.

Aðalumræðuefni var þó eins og við var að búast staða og horfur í efnahagsmálum aðildarríkjanna. Inn í hana fléttaðist umræða um Bjargráðasjóðinn (Recovery and Resilience Facility) og hvenær honum verður ýtt úr vör. Fyrst var fjallað efnahagshorfur fyrir ESB í heild. Eftir meira en 6% samdrátt VLF, á árinu 2020 er útlit fyrir 3,7% hagvöxt á árinu 2021 og 3,9% árið 2022, þökk sé bólusetningu við kórónavírusnum. Gert er ráð fyrir svipaðri þróun í heimsbúskapnum á sama tímabili. Áhersla var hins vegar lögð á það að hér væri einungis um meðaltöl að ræða. Mörg aðildarríki hefðu farið mun verr út úr faraldrinum efnahagslega en önnur, sem þýðir  að hraði í endurreisn þeirra verður mismunandi.

Reglugerðin um Bjargráðasjóðinn hefur þegar verið samþykkt. Hún var birt í Stjórnartíðindum ESB þann 18. febrúar. Í framhaldinu munu aðildarríkin hvert fyrir sig senda framkvæmdastjórninni endurreisnaráætlun sína með formlegum hætti, en lokafrestur er til 30. apríl. Framkvæmdastjórnin hefur síðan 2 mánuði til að fara yfir þær, þ.e. til loka júní, en þá tekur ráðherraráðið við með sínar fjórar vikur. Það verður því ekki fyrr en í haust (ágúst-sept.) sem endanleg niðurstaða liggur fyrir um hvernig stuðningur ESB dreifist á einstök aðildarríki.

Eins og áður hefur verið fjallað um mun ESB ráðast í útgáfu skuldabréfa sem fjármagna eiga Bjargráðasjóðinn að mestu leyti. Þegar er komin í gang bráðabirgðafyrirgreiðsla, nefnd SURE (Support to mitigate Unemployment Risks in an Emergency),  til að draga úr hættu á atvinnuleysi. Hér er um lánveitingu

 

Milljarðar evra

Skipting %

1. Ítalía

27,40

30,3

2. Spánn

21,30

23,6

3. Pólland

11,20

12,4

4. Belgía

7,80

8,6

5. Portúgal

5,90

6,5

6. Rúmenía

4,10

4,5

7. Grikkland

2,70

3,0

8. Írland

2,50

2,8

9. Tékkland

2,00

2,2

10. Slóvenía

1,10

1,2

11. Króatía

1,00

1,1

12. Slóvakía

0,63

0,7

13. Litháen

0,60

0,7

14. Búlgaría

0,51

0,6

15. Ungverjaland

0,50

0,6

16. Kýpur

0,48

0,5

17. Malta

0,24

0,3

18. Lettland

0,19

0,2

Samtals

90,30

100,0

að ræða sem getur numið allt að 100 milljörðum evra í heild og upphæð lánsins fer eftir því hversu alvarleg áhrifin eru í hverju ríki. Með öðrum orðum, markmið SURE er að vernda borgara ESB fyrir alvarlegum neikvæðum áhrifum kórónavírusins, bæði félagslega og efnahagslega. Að baki þessum lánum er solidarísk ábyrgð aðildarríkjanna sem byggir á þjóðartekjum þeirra eins og þær voru við samþykkt fjárlaga ESB fyrir árið 2020. Ráðherraráðið hefur þegar samþykkt lán fyrir um 90,3 milljarða evra til 18 aðildarríkja samkvæmt þessari áætlun, þar af hafa 53,5 milljarðar evra verið greiddir til 15 ríkja. Lánveitingarnar skiptast eins og fram kemur í töflu 1 að framan. Þar sést að Ítalía, Spánn og Pólland taka til sín 66,3% af heild, eða tvær evrur af hverjum þremur. Leiða má að því líkur að skipting endurreisnarfjármagnsins úr Bjargráðasjóðnum verði eitthvað svipuð þessari í töflu 1. Það sem helst kemur á óvart er hversu hátt Belgía raðast í skiptingunni.

Næst var rætt um nýjar tekjuöflunarleiðir (new own resources) og lögfestingu þeirra. Þar vegur þyngst skattlagning netfyrirtækja (digital taxation) og aukinn kolefnisskattlagning, m.a. yfir landamæri (cross-border CO2 tax). Á fundinum kom fram að sex aðildarríki hefðu þegar lögfest umrædda skattlagningu en öll ríkin 27 þurfa að gera slíkt hið sama fyrir mitt ár, eða áður en ráðist verður í skuldabréfaútgáfu ESB í júní á þessu ári sem á að fjármagna Bjargráðasjóðinn.

Að lokum átti að samþykkja ESB listann (EU black list) yfir ósamvinnuþýð ríki eða svæði í skattamálum. Það tókst hins vegar ekki vegna ágreinings um hvort Tyrkland ætti að fara á listann eða ekki, en Tyrkir hafa verið mjög tregir að afhenda nokkrum aðildarríkjum ESB gögn um bankainnstæður evrópskra ríkisborgara. Sömuleiðis hafa verið í gangi nokkuð lengi vandræði hvað varðar sambærileg upplýsingaskipti við Bandaríkin (FATCA). Vonast er til að við valdaskiptin þar leysi þau mál.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta