Hoppa yfir valmynd
21. júní 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Stiki ehf. fær öryggis- og gæðavottun

Ræða Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra
á hátíð verkfræðistofunar Stika, vegna öryggisvottunar fyrirtækisins frá bresku staðlastofnuninni BSI
18. júní 2002


Góðir gestir.
Mér er það sérstakt ánægjuefni að fá tækifæri til þess að ávarpa forsvarsmenn Stika og aðra gesti í tilefni tímamótanna, sem fyrirtækið og starfsmenn þess standa nú á.

Það er afar mikilvægt fyrir heilbrigðisþjónustuna að hún geti nýtt sér upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustunni til að bæta heilsufar þjóðarinnar á næstu árum. Gagnaöflun, aukið gagnaöryggi og greiður aðgangur að þeim ræður mestu um það hvort okkur tekst vel til eða illa á þessu sviði. Greiðari aðgangur að heilsufarsgögnum leiðir óhjákvæmlega til skjótari ákvarðana, fyrir utan að meðferð verður markvissari og áreiðanlegri.

Þar fyrir utan megum við ekki gleyma því, að með upplýsingavæðingu ættu allar upplýsingar um rekstur að vera til staðar fyrr og auðvelda stjórnendum markvissari stjórnun heilbrigðisþjónustunnar. Þannig ættu að skapast möguleikar til að nýta þá fjármuni betur sem varið er til heilbrigðismála.

Stiki er eitt þeirra íslensku fyrirtækja sem hafa verið að hasla sér völl á þessu sviði og við í heilbrigðisráðuneytinum höfum átt í prýðilegu samstarfi við fyrirtækið á sviði upplýsingatækni og öryggismála. Ég er hér að tala um tvö upplýsingakerfi sem þróuð hafa verið.

Annars vegar er vistunarmatskerfi sem notað er þegar aldraðir sækja um vist á stofnun og unnið hefur verið í samvinnu við einn okkar starfsmanna, Hrafn Pálsson, en með því er unnt að meta heilsufar og þörf fyrir vistun á stofnunum og gera sér grein fyrir kostnaðinum sem er samfara vistun. RAI-mat er það kallað og er gert a.m.k. einu sinni á ári eftir að aldraður einstaklingur hefur fengið vist á stofnun.

Hins vegar hefur ráðuneytið verið að byggja upp heilbrigðisnet sem hér hefur verið minnst á og er mjög umfangsmikið verkefni, sem hópur sérfræðinga á vegum heilbrigðisráðuneytisins hefur unnið að í nokkur ár undir forystu Ingimars Einarssonar skrifstofustjóra í heilbrigðisráðuneytinu og Þorgeirs Pálssonar sviðsstjóra á Landspítala.

Stiki fagnar í dag, 18. júní tíu ára afmæli sínu, eins og fram hefur komið, og getur því samglaðst bítlinum Paul MacCartney, sem er sextugur í dag (og fleiri góðum mönnum sem fagna afmæli sínu þessa dagana) en hann var ásamt félögum sínum breskum frumkvöðull á sinni tíð bæði í tónlist og tækni.

Frá Bretlandi berast nú þau tíðindi að Stiki sé kominn í hóp rúmlega eitt hundrað fyrirtækja sem standast vottunarútektir staðlastofnunarinnar BSI í London. Vottuð voru stjórnkerfi upplýsingaöryggis skv. öryggisstaðlinum BS 7799 og kerfi til gæðastjórnunar skv. ISO 9001. Stiki er fyrsta íslenska fyrirtækið sem BSI öryggisvottar.

Þetta er glæsilegur árangur og óska ég ykkur til hamingju með hann.

Ég hef áður sagt að það sé trú mín að við Íslendingar ættum að geta byggt upp nýja þungamiðju þekkingar og rannsókna á sviði heilbrigðis- og upplýsingatækni þar sem Háskólinn og Landspítalinn, og heilbrigðistæknifyrirtækin leggja saman þekkingu sína, reynslu og hugmyndaauðgi. Og í ljósi þess að hér er vel rekin heilbrigðisþjónusta sem þolir samanburð við það besta sem gerist sé ég fyrir mér mikla möguleika á heilbrigðistæknisviðinu. Fyrirtækjum á þessu sviði mun fjölga,
velta þeirra mun fara vaxandi og einmitt á þessu sviði eigum við þess kost að skapa skilyrði til að bjóða ungu vel menntuðu fólki uppá atvinnutækifæri framtíðarinnar. Ykkar starf er staðfesting á því.

Til hamingju með þann áfanga sem starfsmenn ykkar hafa náð.

_______________
Talað orð gildir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta