Jón Kristjánsson - Ársfundur Landspítala - háskólasjúkrahúss, 10. maí 2001
Ræða heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Jóns Kristjánssonar:
Ágætu ársfundargestir, það er mér mikil ánægja að fá tækifæri til þess að ávarpa ykkur á ársfundi ykkar.
Landspítali - háskólasjúkrahús, eða sameining tveggja stofnana í eina er að mínum dómi forsenda fyrir því að við Íslendingar getum borið okkur saman við nágranna okkar í heilbrigðismálum kinnroðalaust. Bæði nú, en ekki síst þegar við horfum til framtíðar sem í okkar heimshluta mun enn um sinn einkennast að dýrum lausnum í heilbrigðismálum.
Forveri minn vann að því leynt og ljóst með lagni, sem henni er gefin, að sameina sjúkrahúsin og oftsinnis hlustaði ég hana halda ræðuna um, hversu mikilvæg sameiningin væri þegar horft er til framtíðar. Og um leið og ég undirstrika að ég er sama sinnis, þá ber ég ykkur góðar kveðjur frá Ingibjörgu Pálmadóttur.
Við verðum að nýta vel það fé sem við notum í heilbrigðsþjónustunni. Við verðum að nýta það vel til að geta fylgst með tækniframförum og ávalt haft á boðstólum þau bestu lyf sem völ er á, svo dæmi séu tekin.
Mér er mæta vel ljóst að þetta hefur verið gert í öllum aðal atriðum, en það má alltaf gera betur, enda þótt ég geri mér fyllilega grein fyrir því að sameining stóru spítalanna lækkar ekki útgjöldin með beinum hætti strax.
Eftir að hafa fengist við fjárhagsvanda stóru spítalanna í Reykjavík á hnjánum í tíu ár, fyrst sem stjórnarandstæðingur í fjárlaganefnd og síðar sem formaður nefndarinnar, þá gerir ég mér grein fyrir að það tekur tíma breyta til og laga sig að nýjum forsendum.
Ég tel rétt að geta þess í þessu sambandi að góð sátt tókst um það í ríkisstjórn að veita verulega aukið fé til heilbrigðisþjónustu fyrir skemmstu meðal annars vegna umtalsverðra launahækkana. Með því var komið mjög til móts við kröfur starfsmanna. Það er von mín að þessi viðleitni geti orðið til þess að áframhaldandi sátt verði meðal starfsmanna um kaup og kjör.
Það fylgja því vitaskuld vaxtaverkir að sameina stóran vinnustað eins og þennan. Landspítali - háskólasjúkrahús er stærsti vinnustaður landsins, hér starfa um 5000 manns, veltan er álíka og útgjöld alls menntakerfisins ef grunnskólinn er undanskilinn. Hér er mikið og flókið skipulag, sem hefur þurft að breyta og þarf eðli máls samkvæmt alltaf að vera í endurskoðun. Af sjálfu leiðir að aðstæður einhverra starfsmanna kunna að hafa breyst, en mér sýnist að stjórnendur spítalans hafi haldið vel á viðkvæmum málum. Vafalaust eru enn frekari breytingar framundan og er það von mín að þær megi gera í góðu samstarfi stjórnar og starfsmanna.
Þeir sem halda hér um stjórnvölinn, forstjóri, formaður stjórnar og stjórnendur aðrir hafa haldið vel á málum, eins og ég sagði, og ég veit að þeim er vel treystandi til að halda áfram á sömu braut. Ég vil taka það skýrt fram að það er ekki von á neinni kúvendingu í stefnumálum stofnunarinnar frá minni hálfu og ég hef ávalt verið talsmaður þess og hef stutt eindregið áformin um aukna samhæfingu, samræmingu starfseminnar og sameiningu tveggja stofnana í eina til hagræðingar og aukins árangurs.
Ég geri mér ljóst að störf á sjúkrahúsi eru ólík flestu öðru. Þar er krafist mikils af starfsfólki og oft er vinnutími langur og störfin erfið, bæði líkamlega og þeim fylgir oft mikið andlegt álag. Hver einasta starf er mikilvægt og skiptir miklu hvernig því er sinnt. Gott starfsfólk er jafnframt það mikilvægasta sem stofnunin á og ekkert skiptir meira máli en að því sé gert kleift að sinna störfum sínum af kostgæfni. Hér eru unnin kraftaverk á hverjum degi og þakklæti þeirra er njóta þjónustu ykkar er mér vel kunnugt. Ég vil nota tækifærið og koma á framfæri þakklæti mínu einnig.
Ég er stundum spurður um það hvar ég hyggist láta byggja upp hinn nýja sameinaða spítala. Mér vefst venjulega tunga um tönn, enda hef ég hugsað þetta dæmi fremur út frá þjónustunni sem veitt er og ekki húsnæðinu. Með þessu er ég ekki að segja að húsnæði skipti ekki máli, síður en svo, en staðsetningin sjálf er kannske ekki megin málið.
Eins og þið vitið öll liggja nú fyrir úttektir og álit á því hvernig heppilegast er að byggja háskólasjúkrahúsið upp. Ég hef farið yfir þessi mál og ég hef nú ákveðið að setja saman undirbúningshóp sérfróðra manna til að fara yfir fyrirliggjandi gögn og gera síðan tillögu til mín um næstu skref varðandi uppbyggingu og framtíðar byggingar spítalans. Starfshópurinn verður undir forsæti ráðuneytisins og finnst mér ekki óeðlilegt að í honum verði fulltrúi spítalans og Háskólans. Ég mun á allra næstu dögum ræða þetta mál við forstjóra og rektor og ég legg áherslu á að ég fái fljótt í hendur tillögurnar. Ég sé Þetta er stórt mál og það þarf að vanda vel undirbúning uppbyggingarinnar, en það má ekki dragast úr hömlu að ákveða næstu skref.
Mér það ánægjuefni að geta sagt ykkur að ég hef ákveðið að setja fé til að innrétta og þar með stórbæta alla aðstöðu á E7 - nýrri hæð í Fossvoginum, sem verður til mikilla hagsbóta fyrir bæði sjúklinga og starfsfólk og auðveldar alla skipulagningu suður frá.
Varðandi aðrar verklegar framkvæmdir ber auðvitað hæst hinn nýja barnaspítala, sem við gleðjumst yfir að nú er að rísa. Ég óskaði eftir því strax og ég tók við embætti að heimsækja Landspítalann og eina heilsugæslustöð. Fyrir valinu á Landspítalanum varð Barnaspítalinn og slysa- og gjörgæsludeildir í Fossvogi.
Enda þótt ég hafi áður heimsótt Barnaspítalann var lærdómsríkt að koma þar nú, ekki síst var ánægjulegt að finna áhuga og tilhlökkun starfsfólks að flytja í hina nýju byggingu.
Ágætu ársfundargestir.
Breytingar geta verið erfiðar, einkum fyrir starfsmenn, og það er auðvitað mikil breyting að sameina spítala, en ég er sannfærður um að yfirgnæfandi meirihluti starfsmanna muni að endingu fagna breytingunum.
Ástæðan er einföld: Við munum standa uppi með betri stofnun, betri spítala, sem er betur í stakk búinn að rækja hlutverk sitt. Við verðum öll betur í stakk búin til að sinna sjúklingum, stunda rannsóknir og þróa áfram háskólasjúkrahús, sem stendur undir nafni í bráð og lengd.