Ávarp heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á þingi Neytendasamtakanna
Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra
Ávarp á þingi Neytendasamtakanna 27. til 28. september 2002
Forseti íslands - ágætu þingfulltrúar.
Ég neita því ekki að eftir að ég játti því að segja hér nokkur orð hef ég hugsað nokkuð um heilbrigðisþjónustuna og aðkomu Neytendasamtakanna að henni. Mér er vel kunnugt um viðræður samtakanna við tannlækna og því frumkvæði fagna ég og geri ráð fyrir að formaður ykkar geri frekari grein fyrir því máli í ræðu sinni hér á eftir. En burtséð frá því ágæta frumkvæði þá verð að viðurkenna að ég hef velt því fyrir mér af hverju Neytendasamtökin, sem hafa lagt sitt af mörkum til að tryggja hagsmuni vöru- og þjónustuneytenda, skuli ekki hafa sett heilbrigðisþjónustuna á meira á oddinn á liðnum misserum en þau hafa gert. Vonandi er það líka merki um að hér sé að verða breyting á að ég skuli standa hér og segja nokkur orð.
En skýringin á því að heilbrigðismálin skuli ekki hafa verið efst á baugi samtakanna er vafalaust sú að önnur verkefni eru brýnni og skýringin kann sömuleiðis að felast í því að Neytendasamtökunum þyki að hagsmunir þeirra sem þurfa að nota sér heilbrigðisþjónustuna séu vel tryggðir í lögum og reglugerðum sem víðtæk sátt hefur verið um hingað til að minnsta kosti. Og vissulega er það svo.
Íslensku lögin um Réttindi sjúklinga, sem samþykkt voru árið 1997 og tóku gildi 1. júlí fyrir fimm árum, eru um margt merkileg og ég verð var við það í samskiptum við kollega mína útlenda, að við Íslendingar erum á þessu sviði að mörgu leyti í farabroddi. Það var enda eitt fyrsta verk forvera míns í embætti, Ingibjargar Pálmadóttur, að fela hópi manna að semja það frumvarp um réttindi sjúklinga sem síðar varð að lögum í góðri sátt á Alþingi. Ég man eftir því að þáverandi heilbrigðis- og trygginganefnd leitaði eftir umsögnum um frumvarpið hjá fjölda félaga og samtaka, eins og gengur, og það er óhætt að segja að mikil ánægja og sátt var með frumvarpið og síðar lögin.
Grunnhugmyndin í lögunum um réttindi sjúklinga er sú að tryggja sjúklingum og þeim sem nota heilbrigðisþjónustuna tiltekin réttindi í samræmi við almenn mannréttindi og mannhelgi, eins og fram kemur í 1. mgr. 1. gr. laganna. Þetta þótt nýmæli á sínum tíma að tengja saman almenn mannréttindi og rétt sjúkra með þessum hætti. Í fyrstu grein laganna er markmið þeirra skilgreint og jafnræðisregla stjórnarskrárinnar ítrekuð sérstaklega. Í 65. grein stjórnarskrárinnar segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti og á þessum grundvelli hvílir grundvöllur laganna um réttindi sjúklinga.
Í sama lagabálki eru sérstök ákvæði sem tryggja eiga greiða leið sjúklingsins til að gera athugasemdir við þjónustuna sem hann fær eða þá að kvarta yfir þjónustunni sem lögin eiga að tryggja honum.
Það er þannig að vilji sjúklingur gera athugasemd við þjónustu sem hann hefur fengið á heilbrigðisstofnun þá gera lögin ráð fyrir að hann geti beint erindum sínum yfirstjórnar viðkomandi stofnunar. Vilji sjúklingur kvarta yfir meðferð getur hann beint kvörtun sinni til landlæknis eða nefndar um ágreiningsmál. Sjúklingur getur einnig borið fram kvörtun við fyrrgreinda aðila telji hann svör yfirstjórnar við athugasemdum ekki fullnægjandi. Og samkvæmt lögunum er starfsmönnum stofnunar skylt að leiðbeina sjúklingum sem vilja gera athugasemdir vegna þjónustu eða bera fram kvörtun.
Með þessum ákvæðum var reynt að auðvelda og einfalda sjúklingum að nýta sér þann rétt sem lögin færðu mönnum.
Það er meira að segja gert ráð fyrir að sjúklingur fái skrifleg svör við athugasemdum sínum og kvörtunum. Þessu ákvæði er ætlað að tryggja að fólk fái úrlausn sinna mála og að til séu upplýsingar um hvernig málið hefur verið afgreitt.
Auk hinna beinu lagaákvæða er svo rétt að taka fram að Landlæknisembættinu er samkvæmt lögum gert að hafa náið eftirlit með öllum heilbrigðisstarfsmönnum og aðstæðum sem sjúkir búa við og þegar lögin um Landlækni eru skoðuð gaumgæfilega sýnist mér að þar eigi sjúkir Hauk í horni. Landlæknisembættið hefur enda verið iðið við það á liðnum árum að benda heilbrigðisyfirvöldum á hvað mætti betur fara í þjónustunni við sjúka og þar hefur mér jafnan sýnst að hagsmunir sjúklinganna hafi verið í fyrirrúmi. Í stuttu máli þá er lagaumhverfi okkar þannig að hagsmunir sjúklinga ættu að vera nokkuð tryggðir og um þessa skipan mála ríkir bærileg sátt.
Og á vettvangi hinna hefðbundnu stjórnmála ríkir vissulega sátt um breiðu línurnar í heilbrigðisþjónustunni. Þetta sáu allir sem sjá vilja í Sjónvarpinu í gærkvöld þegar leiðtogar stjórnmálaflokkanna skiptust á skoðunum í upphafi kosningavetrar.
En þótt sátt og samlyndi væri ríkjandi við það borð þá vitið þið sem hér eruð að bæði pólitísk öfl og hagmunahópar sækja mjög fram og kröfurnar um einkavæðingu þjónustu á sviði heilbrigðis- og samfélagsmála verða meira áberandi. Í pólitískum skilningi er það alls ekki slæmt fyrir okkur, sem erum annarar skoðunar því við hljótum að fagna lýðræðislegri umræðu þar sem hagmunir og hugmyndafræði manna og hópa verða sýnilegri en áður. Það einfaldar öllum almenningi að taka afstöðu til þessara mála.
Það er ekki almenningur, eða hinir sjúku, sem fer fyrir þeim hópi sem krefst einkavæðingar í heilbrigðisþjónustunni en stór hluti þeirra sem leitar sér aðstoðar lækna og heilbrigðisstarfsmanna eru börn, aldraðir og öryrkjar, sem ekki eru að krefjast einkavæðingar sem óneitanlega hlýtur að þýða hærri greiðslur fyrir læknishjálp og aðra samfélagslega þjónustu.
Ágætu þingfulltrúar.
Umræður um heilbrigðismál og raunar tryggingamálin líka eru oft á tíðum slagorðakenndar. Oft er það svo að menn festa sig í aukaatriðum, en láta aðalatriðin lönd og leið. Það hlýtur til dæmis að vera eitt af aðalatriðunum þegar rætt er um tryggingabætur, hvort það á að bæta kjör allra ellilífeyrisþega, eða þeirra sem búa við lökust kjörin. Það hlýtur að vera eitt af aðalatriðum því ef við veljum fyrri kostinn og hækkum grunnlífeyri og tekjutryggingum í líkingu við það sem krafist hefur verið almennt á alla, þá kostar það kannske á sjötta milljarð króna á ári, en við getum aftur á móti bætt kjör þess hóps sem verst er settur fyrir kannske fimmtung af fimm milljörðunum. Ég sakna þess sem tryggingamálaráðherra að umræða af þessu tagi, sem auðvitað er rótpólitísk, skuli ekki fara fram.
Ágætu þingfulltrúar.
Eins og þið vitið þá starfaði ég lengi við verslun austur á Egilsstöðum áður en ég haslaði mér völl á stjórnmálasviðinu. Mér er því mæta vel ljóst hversu mikilvægt starf Neytendasamtakanna er í eðli sínu og hversu mikið samtökin hafa lagt af mörkum, oft við erfið skilyrði, til að gera almenning meðvitaðan um neytendamál. Og ég veit að það er hægt að gera kröfur til Neytendasamtakanna þegar þau fjalla um verðlagsmál og neytendavernd.
Í stefnumótunardrögum ykkar fyrir árin 2002 til 2004 eru sex línur um heilbrigðisþjónustuna. Í þessum sex línum er haldið fram:
- Að það séu almennt ekki góð vinnubrögð í íslensku heilbrigðisþjónustunni
- Að það sé læknaskortur á Íslandi
- Að það sé samdráttur í almennri þjónustu sem líkja má við martröð, og að,
- Kostnaðarhlutdeild sjúkra hafi aukist umtalsvert.
Vinnubrögðin í íslensku heilbrigðisþjónustunni eru almennt góð og á heimsmælikvarða í sumum greinum. Aðgengi þeirra sem eiga undir högg að sækja er til að mynda meira og betra hér en annars staðar.
Það eru fleiri læknar á Íslandi á hverja 100 þúsund íbúa en í þeim löndum sem við berum okkur saman við.
Það hefur ekki verið samdráttur í heilbrigðisþjónustunni, og kostnaðarhlutdeild almennigns hefur farið lækkandi.
Þetta eru staðreyndirnar.
Þegar þið setjist yfir þennan kafla stefnumótunarinnar bið ég ykkur um þrennt, í nafni þeirra sem þurfa að nýta sér heilbrigðisþjónustunnar, í fyrsta lagi að greina vandann rétt til dæmis með því að kynna ykkur tvær nýjustu skýrslur Ríkisendurskoðunar um efnið, í öðru lagi að halda líka fram því sem vel er gert og í þriðja lagi að gera ykkur grein fyrir því hvaða hagmunir liggja til grundvallar þeirri miklu umræðu sem nú virðist vera að fara í gang um undirstöður íslensku heilbrigðisþjónustunnar.
Þetta segi ég ekki til að skensa ykkur. Þetta segi ég af því ég veit að Neytendasamtökin vilja vel og hafa í hvívetna hagmuni almennings að leiðarljósi.
Talað orð gildir