Hoppa yfir valmynd
12. júní 2001 Heilbrigðisráðuneytið

JK - Ræður: Fulltrúaþing Félags ísl. hjúkrunarfr. maí 2001

Fulltrúaþing Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, 17. – 18. maí 2001
Ávarp heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Jóns Kristjánssonar




Ágætu hjúkrunarfræðingar!
Ég þakka þann sóma sem mér er sýndur með því að vera beðinn um að ávarpa fulltrúaþing ykkar hér í dag.

Fulltrúaþing fer með æðsta vald í málefnum félagsins, samkvæmt lögum þess og er haldið annað hvert ár. Hér eru rædd málefni sem miklu varða, ekki aðeins fyrir Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, heldur fyrir heilbrigðisþjónustuna í landinu.

Í 2. gr. laga félagsins er fjallað um tilgang þess í nokkrum tölusettum liðum. Undir fyrsta lið segir að tilgangur félagsins sé: ,,Að vinna að bættu heilbrigðisástandi landsmanna með því að stuðla að góðri hjúkrun og betri og hagkvæmari heilbrigðisþjónustu í landinu". Því næst er fjallað um faglega uppbyggingu, þróun greinarinnar og ýmis hagsmunamál stéttarinnar.

Mér finnst mikils virði hvað lög Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga einkennast af miklum metnaði stéttarinnar og ábyrgð. Þetta skiptir verulegu máli þegar horft er til þess að hjúkrunarfræðingar eru fjölmennasta fagstéttin í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Eins er starfssvið hjúkrunarfræðinga breitt og þeir starfa á öllum sviðum heilbrigðisþjónustunnar. Hjúkrunarfræðingar hafa því mikið vægi í íslenska heilbrigðiskerfinu og ábyrgð þeirra er að sama skapi mikil. Ég treysti því að hjúkrunarfræðingar rísi áfram undir þeirri ábyrgð.

Sú stétt sem gerir miklar faglegar og starfslegar kröfur til sjálfrar sín fær það með vöxtum til baka. – Nú veit ég að margir hér hugsa sem svo að þess hafi ekki gætt í kjörum hjúkrunarfræðinga. Um kjör má alltaf deila. Ég tel þó að hjúkrunarfræðingar hafi á tiltölulega skömmum tíma náð allmiklum árangri í kjarabaráttu sinni, einmitt vegna þess hve þeir gera miklar kröfur til sín á öllum sviðum.

Hjúkrunarfræðingar eru vel menntuð stétt. Æ fleiri hjúkrunarfræðingar afla sér framhaldsmenntunar og sérhæfa sig í ákveðnum greinum. Þeir hafa sótt fram á mörgum sviðum og m.a. haslað sér völl við stjórnun og rekstur heilbrigðisstofnana. Sívaxandi fjölbreytni og breidd í störfum hjúkrunarfræðinga er óumdeilanlega ávinningur fyrir stéttina.

Námsbraut í hjúkrunarfræði var komið á fót við Háskóla Íslands árið 1973, þá innan læknadeildar. Það voru tímamót þegar námið fluttist á háskólastig. Nú er hjúkrunarfræði orðin sjálfstæð deild við Háskólann.

Það voru líka tímamót þegar kennsla í hjúkrunarfræði hófst við Háskólann á Akureyri. Og með nýjustu tækni – þ.e. fjarkennslubúnaði – var hjúkrunarnámið gert aðgengilegra mun fleirum en áður. Stöðugt er sótt fram.

Það virðist mótsagnakennt að þótt hjúkrunarfræðingar séu stétt í stöðugri sókn er viðvarandi skortur á þeim til starfa. Hvað veldur? Ef til vill er rangt að tala um skort á hjúkrunarfræðingum. Ef til vill á frekar við að tala um vaxandi eftirspurn, sem má einmitt rekja til þess hve mikill vöxtur hefur orðið í greininni og á mörgum sviðum. Og eftispurnin er ekki bundin við Ísland. Norðurlandaþjóðirnar t.d. keppa orðið stíft um heilbrigðisstarfsfólk, ekki síst hjúkrunarfræðinga og lækna.

Störf hjúkrunarfræðinga eru krefjandi. Starfssvið og verkefni verða æ fjölbreyttari. Hjúkrunarmenntun býður upp á starfsmöguleika víðsvegar um veröldina. --- En - af einhverjum ástæðum - sem ég ekki skil - virðist hjúkrunarstarfið nær eingöngu freista kvenna. Karlar eru fáséðir í hjúkrunarstétt og mér skilst að það sé lítið að breytast. Svona er þetta víst líka víðast erlendis, en þó er hlutfall starfandi karlhjúkrunarfræðinga með því allra lægsta hér á landi. --- Hvernig getur staðið á þessu?

Ég veit ekki svarið. En ég hvet til umræðu um þetta og tel nauðsynlegt að markvisst verði reynt að vekja áhuga karla á faginu.

Góðir tilheyrendur!
Ég leyfi mér að vísa aftur í lög Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um tilgang félagsins, þ.e. : ,,Að vinna að bættu heilbrigðisástandi landsmanna með því að stuðla að góðri hjúkrun og betri og hagkvæmari heilbrigðisþjónustu í landinu".

Með þetta markmið að leiðarljósi vonast ég til að við getum átt gott samstarf í framtíðinni. Við stefnum að sama markinu, þ.e. að stuðla að bættu heilbrigðisástandi og hagkvæmari heilbrigðisþjónustu. Að finna réttu leiðirnar að markinu getur verið þrautin þyngri, kostað deilur og jafnvel átök. En ef markmiðin eru skýr og aðilar sammála um þau er aldrei nema hollt að takast á um leiðirnar.

Góðar stundir.

Talað orð gildir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta