Nr. 122/2021 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 17. mars 2021 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 122/2021
í stjórnsýslumáli nr. KNU20110002
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 2. nóvember 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. október 2020, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að máli hans verði vísað til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið þann 10. mars 2020. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. október 2020, var umsókninni synjað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 19. október 2020 og þann 27. október 2020 óskaði umboðsmaður kæranda eftir endurupptöku ákvörðunar hjá Útlendingastofnun. Þann 30. október 2020 synjaði Útlendingastofnun beiðni kæranda um endurupptöku. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála þann 2. nóvember 2020. Í 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að þegar aðili óskar eftir endurupptöku máls innan kærufrests rofnar kærufresturinn. Hafni stjórnvald að taka mál til meðferðar á ný heldur kærufrestur áfram að líða að nýju frá þeim tíma þegar sú ákvörðun er tilkynnt aðila. Að framangreindu virtu er ljóst að kæra kæranda barst kærunefnd fyrir lok kærufrests, sbr. 7. gr. laga um útlendinga. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 2. desember 2020 ásamt fylgigögnum. Með tölvupósti kærunefndar, dags. 8. desember 2020, var kæranda leiðbeint um að leggja fram staðfestingu á vörslureikningi sem sjúkrahús í Þýskalandi geymi til móttöku fjármuna tengdum kæranda. Í tölvupóstum umboðsmanns kæranda til kærunefndar, dags. 8. desember 2020 og 5. janúar 2021, kom fram að unnið væri að því að afla gagnanna. Kærandi lagði fram frekari gögn hinn 27. janúar 2021 og 23. febrúar 2021.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að vinnslu umsóknar hafi komið í ljós að fylgigögn með umsókn væru ófullnægjandi. Kæranda hafi verið sent bréf, dags. 28. apríl 2020, þar sem óskað hafi verið eftir frekari gögnum, þ. á m. ljósriti úr vegabréfi kæranda, sakavottorði frá þeim löndum sem hann hefði dvalist á síðustu fimm árum, staðfestingu á að hafa verið á framfærslu aðstandanda hér á landi að minnsta kosti ár aftur í tímann og gögn sem sýndu fram á trygga framfærslu á dvalartíma. Frekari gögn hafi borist stofnuninni þann 22. maí 2020, m.a. skýringar á því að kærandi ætti ekki vegabréf, bankayfirlit móður kæranda og heilsufarsgögn. Samkvæmt framlögðum gögnum þýskra yfirvalda komi fram að kærandi hafi komið til Þýskalands sem fylgdarlaust barn árið 2003, þá 15 ára. Hafi foreldrar heimsótt hann í fyrsta sinn þann 27. nóvember 2018 eða 15 árum síðar. Sama dag hafi þýsk innflytjendayfirvöld ráðlagt að kærandi sameinaðist fjölskyldu sinni. Samkvæmt læknisvottorði þjáist kærandi meðal annars af [...] og hafi hann m.a. verið í meðferð hjá geðlækni í Þýskalandi frá 2010. Þá hafi kærandi séð fyrir sér með félagslegri aðstoð og atvinnu til skamms tíma í senn. Í greinargerð með umsókn komi fram að kærandi eigi foreldra og eina systur á Íslandi. Þá eigi hann bróður í Bretlandi en annar bróðir hans hafi látist þar í landi við meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd. Kærandi dveljist í Þýskalandi og fái þar læknismeðferð vegna andlegra veikinda. Þá séu foreldrar kæranda mjög veik og vilji kærandi aðstoða þau auk þess sem hann vilji setjast að hér á landi og standa á eigin fótum.
Hafi systir kæranda lagt fram tvær ódagsettar greinargerðir þar sem m.a. komi fram að hættulegt sé fyrir kæranda að búa einn og samkvæmt læknisráði sé ráðlagt að hann sameinist fjölskyldu sinni. Þá muni hún annast framfærslu hans þar sem hún hafi góðar tekjur og eigi íbúð. Þá er tekið fram að þýsk stjórnvöld myndu aðstoða kæranda við ferðalög ef dvalarleyfi á Íslandi yrði samþykkt. Þá hafi móðir kæranda lagt fram greinargerð með umsókn þar sem tekið sé fram að hún þjáist af kvíða og streitu vegna aðskilnaðar fjölskyldunnar. Vísaði Útlendingastofnun til þess að faðir kæranda hafi fengið alþjóðlega vernd hér á landi þann 12. apríl 2016 og síðar hafi móðir og systir kæranda fengið dvalarleyfi hér.
Í ákvörðun sinni vísar Útlendingastofnun til og fjallar um 78. gr. laga um útlendinga og 20. gr. reglugerðar um útlendinga, með síðari breytingum. Samkvæmt túlkun Útlendingastofnunar sem sæki stoð í úrskurðaframkvæmd kærunefndar, sbr. t.d. úrskurð nr. 229/2018 frá 18. júlí 2018, hafi ákvæði 55. og 56. gr. laga um útlendinga verið túlkuð á þá leið að útlendingur þurfi að geta framfleytt sér hér á landi með eigin framfærslu eða frá einstaklingi sem beri framfærsluskyldu gagnvart honum. Líkt og áður hefði verið rakið hygðust foreldrar kæranda og systir annast framfærslu hans og yrði að mati Útlendingastofnunar ekki litið svo á að tekjur þeirra geti talist trygg framfærsla í skilningi 55. og 56. gr. laga útlendinga enda beri þau ekki framfærsluskyldu gagnvart kæranda, sem sé [...] ára. Þá hefðu ekki verið lögð fram gögn sem bentu til þess að þeirri tilhögun væri ætlað að vera til skamms tíma en gögn málsins bentu þvert á móti til þess að hann þurfi að reiða sig á framfærslu aðstandenda sinna til lengri tíma. Samkvæmt framangreindu væri ekki hægt að líta á ótrygga framfærslu kæranda sem skammvinna og kæmi því ekki til beitingar 6. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, sbr. 21. gr. reglugerðar um útlendinga. Jafnframt hefði kærandi ekki lagt fram gögn sem sýndu fram á að hann hefði verið á framfæri aðstandanda hér á landi í að minnsta kosti ár fyrir framlagningu umsóknar. Að mati stofnunarinnar bentu aðstæður kæranda ekki til þess að hann hafi svo sérstök tengsl við landið að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita honum ekki umbeðið dvalarleyfi. Var umsókn kæranda því synjað.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð vísar kærandi til þess að hann búi í Þýskalandi en hann hafi flúið þangað árið 2003, þá 15 ára gamall. Hann hafi sótt um alþjóðlega vernd sem fylgdarlaust barn en þýsk yfirvöld hafi hafnað umsókn hans. Hann hafi því dvalið í Þýskalandi á grundvelli tímabundins dvalarleyfis útgefnu skv. þarlendum lögum um útlendinga. Samkvæmt fyrirliggjandi læknisvottorði glími kærandi við alvarlega geðsjúkdóma, m.a. [...]. Kærandi hafi verið í meðferð hjá geðlækni í Þýskalandi frá árinu 2010 og hafi frá þeim tíma dvalið að mestu leyti á spítala. Þann 23. júlí 2020 hafi kærandi verið lagður inn á spítala fyrir einstaklinga með geðsjúkdóma og hafi hann dvalið þar síðan. Sú dvöl hafi verið þungbær fyrir fjölskyldu hans hérlendis enda geti þau ekki ferðast til hans líkt og þau hafi gert undanfarin ár vegna þeirra ferðatakmarkana sem fylgt hafi Covid-19 faraldrinum. Þá sé jafnframt heimsóknarbann í gildi á spítalanum og hafi fjölskylda hans því takmarkað aðgengi að honum. Þrátt fyrir þær erfiðu aðstæður sem nú séu uppi hafi fjölskylda kæranda gert allt sem þau geti til að tryggja að nauðsynlegum þörfum hans sé sinnt, þau hafi sem dæmi keypt handa honum fatnað og aðrar nauðsynjavörur, s.s. hreinlætisvörur. Heilsufar kæranda sé slíkt að hann sé háður umönnun og hafi fjölskylda hans hérlendis sýnt fram á vilja og getu til að veita honum hana. Mikilvægt sé að kærandi sameinist fjölskyldu sinni hér á landi.
Kærandi byggir á því að hann uppfylli skilyrði 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, sbr. 20. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Hafi Útlendingastofnun framkvæmt heildarmat á umsókn sinni í samræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttar með þeim afleiðingum að stofnunin hafi ekki gert sér grein fyrir því að hann uppfylli framangreind skilyrði. Nánar tiltekið hafi Útlendingastofnun í fyrsta lagi ekki séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en stofnunin tók ákvörðun í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, í annan stað ekki virt lögmætisregluna og í þriðja lagi farið langt út fyrir mörk meðalhófsreglunnar með hinni kærðu ákvörðun, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Gerir kærandi nánari grein fyrir hverri málsástæðu um sig. Í hinni kærðu ákvörðun sé byggt á því að kærandi hafi ekki verið á framfæri fjölskyldu sinnar í að minnsta kosti ár áður en umsókn hans var lögð fram, sbr. 78. gr. laga um útlendinga, og hins vegar á því að tekjur þriðja manns geti ekki talist trygg framfærsla í skilningi 56. gr. sömu laga. Um fyrra atriðið byggir kærandi á því að Útlendingastofnun hafi aðeins getað komist að þessari niðurstöðu með því að virða að vettugi bæði rannsóknarregluna og lögmætisregluna. Að mati kæranda hafi stofnunin ekki tekið tillit til allra gagna sem sýni framfærslu fjölskyldu kæranda til hans undanfarin ár en framfærslan hafi verið með ýmsum hætti, t.d. með bankamillifærslum til hans, með afhendingu reiðufjár þegar fjölskylda hans heimsæki hann til Þýskalands og með útlögðum kostnaði fjölskyldunnar þegar þau annast hann í Þýskalandi. Kærandi byggir á því að fyrirliggjandi gögn um framfærslu sem og ný viðbótargögn sýni að fjölskylda hans hafi frá 2017 framfleytt kæranda að miklu leyti, þó hann hafi fengið fjárhagsaðstoð frá þýska ríkinu. Hafi fjölskyldumeðlimir ferðast til Þýskalands til skiptis í gegnum árin til að annast kæranda sem hafi bersýnilega gríðarlegan kostnað í för með sér. Þetta reyni einnig á andlega líðan fjölskyldunnar, ekki síst móður kæranda, sem hafi áður misst son sem hafi glímt við sambærileg andleg veikindi og kærandi. Þá rekur kærandi með ítarlegum hætti framfærslu frá hverjum og einum fjölskyldumeðlim til kæranda.
Kærandi byggir á því að ásamt broti gegn rannsóknarreglunni hafi Útlendingastofnun brotið gegn lögmætisreglunni við meðferð málsins. Virðist svo vera að stofnunin telji að eingöngu með beinum bankamillifærslum í að minnsta kosti ár geti kærandi sýnt fram á afturvirka framfærslu í skilningi 20. reglugerðar um útlendinga. Kærandi telji að mat stofnunarinnar hafi af þessum ástæðum ekki verið í samræmi við framangreind ákvæði reglugerðarinnar og þar af leiðandi 78. gr. laga um útlendinga. Sé hvorki í lögum um útlendinga né lögskýringargögnum kveðið á um með hvaða hætti beri að sýna fram á að umsækjandi hafi verið á framfærslu aðstandenda sinna í að minnsta kosti ár. Þá sé hvergi að finna heimild sem segi að ekki mega taka tillit til þeirra framfærsluleiða sem fjölskylda kæranda hafi neyðst til að grípa til í ljósi veikinda og aðstæðna hans, þ.m.t. að hann hafi ekki haft bankareikning og vegna fjölda innlagna á spítala, sé hann ófær um að sýsla sjálfur með háar peningafjárhæðir. Þá byggir kærandi á því að vegna brota Útlendingastofnunar gegn lögmætisreglunni við þrönga beitingu 20. gr. reglugerðarinnar hafi hún komist að rangri niðurstöðu. Sú staðreynd að fjölskylda hans hafi þurft að finna leiðir til að framfleyta honum eigi að vera hluti af heildarmati stjórnvalda um hvort áðurnefnt ákvæði reglugerðarinnar sé uppfyllt. Kærandi byggir einnig á því að meðalhófsreglan, sbr. 12. stjórnsýslulaga, hafi verið brotin við meðferð á máls hans. Kærandi byggir á því á skilyrði 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt í hans tilfelli þegar litið sé til heilsufarsaðstæðna hans og þess að hann sé einn í Þýskalandi, enda búi flestir nánustu fjölskyldumeðlimir hans hérlendis, þ.e. foreldrar og systir. Séu rík umönnunarsjónarmið til staðar í máli hans. Í bréfi yfirlæknis geðdeildar í Þýskalandi, dags. 22. nóvember 2018, komi m.a. fram að mælt sé með að kærandi sameinist fjölskyldu sinni. Sambærilega niðurstöðu sé að finna í bréfi annars læknis, dags. 26. nóvember 2018. Auk þess telji kærandi að á grundvelli þeirra umönnunarsjónarmiða sem séu til staðar í málinu yrði það bersýnilega ósanngjarnt að veita honum ekki dvalarleyfi að teknu tilliti til þess að hann eigi engan að í Þýskalandi og þess mikla kostnaðar sem það hafi í för með sér fyrir fjölskyldu hans sem annars neyðist um ókominn tíma að ferðast þangað og ráða fólk þar til að sinna nauðsynlegum þörfum hans.
Loks byggir kærandi á því að hann hafi trygga framfærslu í skilningi 55. gr., sbr. 56. gr. laga um útlendinga. Sú fjárhæð sé á vörslureikningi sem spítalinn, sem hann dvelji nú á, geymi til móttöku fjármuna tengdum kæranda. Hafi systir kæranda óskað eftir því að fá senda staðfestingu á innistæðu frá spítalanum en að spítalinn hafi upplýst hana um að slíkt geti tekið tíma. Hafi fjölskyldan ráðið sér lögmann í Þýskalandi til aðstoðar við þessa gagnaöflun og sé málið í vinnslu. Kærandi áskilji sér rétt til að leggja umrædda staðfestingu fram þegar hún liggi fyrir og að tekið verði tillit til þess að gagnaöflun sé mun hægari en ella sökum Covid-19 faraldursins og takmarkana víða í Þýskalandi.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna, sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra.
Í 55. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um grunnskilyrði dvalarleyfis. Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi í samræmi við ákvæði VI.-IX. kafla samkvæmt umsókn uppfylli hann skilyrði stafliða a-d ákvæðisins. Samkvæmt a-lið þarf framfærsla útlendings skv. 56. gr. og sjúkratrygging að vera örugg. Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laga um útlendinga þarf útlendingur sem er eldri en 18 ára og sækir um dvalarleyfi að sýna fram á að framfærsla hans sé trygg þann tíma sem hann sækir um að fá að dveljast hér á landi. Þá segir í 4. mgr. 56. gr. að ráðherra sé heimilt, í samráði við ráðherra sem fer með félagsmál, að setja í reglugerð nánari ákvæði um kröfu um trygga framfærslu, þ.m.t. um hvað telst trygg framfærsla, hvernig framfærslu skulið háttað og í hvaða tilvikum heimilt sé að víkja frá þeim kröfum. Ráðherra hefur ekki útfært nánar í reglugerð hvað teljist trygg framfærsla. Þar sem ráðherra hefur ekki útfært nánar hvað teljist trygg framfærsla eins og hann hefur heimild til skv. 4. mgr. 56. gr. laganna, telur kærunefnd að ekki sé unnt við mat á tryggri framfærslu að miða við ákveðna fasta lágmarksupphæð, s.s. lágmarksviðmið sveitarfélaga, heldur þurfi að fara fram heildstætt mat á því hvort framfærsla útlendings uppfylli skilyrði a-liðar 1. mgr. 55. gr., sbr. 56. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd telur að af framangreindum lagagrundvelli leiðir til þess að skilyrði 55. og 56. gr. séu uppfyllt þurfi útlendingur að sýna fram á að hann geti framfleytt sér hér á landi með eigin framfærslu eða frá einstaklingi sem beri framfærsluskyldu gagnvart umsækjanda, s.s. tekjum sem viðkomandi aflar sjálfur eða fé sem hann fer með sannanleg yfirráð yfir, t.d. innistæðu á bankareikningi sem skráður er á nafn viðkomandi eða ef innistæða á reikningi á öðru nafni er tryggð viðkomandi með öruggum hætti.
Í 10. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, hefur ráðherra útfært nánar reglur um fylgigögn með umsókn um dvalarleyfi. Í 1. mgr. 10. gr. segir að Útlendingastofnun geti krafist þeirra gagna sem nauðsynleg eru við vinnslu umsóknar, m.a. fæðingarvottorðs, hjúskaparstöðuvottorðs, forsjár- eða umgengnisgagna, heilbrigðisvottorðs, dánarvottorðs, og staðfestingu á dvalarstað hér landi. Þá geti stofnunin krafist ljósmynda, greinargerða, gagna um framfærslu og sakavottorðs í þeim tilvikum sem stofnunin meti það nauðsynlegt. Í 2. mgr. 10. gr. er mælt fyrir um að með umsókn um dvalarleyfi skuli umsækjandi leggja fram yfirlýsingu sína um að hann hafi hreinan sakaferil í samræmi við ákvæði laga um útlendinga. Í 3. mgr. 10. gr. segir m.a. að umsækjandi afli sjálfur nauðsynlegra fylgigagna með dvalarleyfisumsókn. Þá skuli fylgigögn vera á því formi sem stofnunin geri kröfu um og staðfest með þeim hætti sem stofnunin telji nauðsynlegan. Í þessum tilgangi er Útlendingastofnun m.a. heimilt að krefjast þess að gögn séu lögð fram í frumriti og að ákveðin gögn séu lögformlega staðfest með apostille vottun eða keðjustimplun. Í 5. mgr. 10. gr. er m.a. kveðið á um að Útlendingastofnun geti veitt undanþágu frá framlagningu gagna þegar lög krefjist ekki framlagningar og málefnalegar ástæður mæli með því, t.d. ef umsækjanda er ómögulegt að afla þeirra, svo sem vegna stríðsástands í heimaríki.
Með tölvupósti til umboðsmanns kæranda, dags. 8. desember 2020, óskaði kærunefnd eftir staðfestingu á þeim vörslureikningi sem kærandi byggir á að sjúkrahús í Þýskalandi hafi umsjá yfir fyrir kæranda. Í tölvupósti umboðsmanns kæranda til kærunefndar, dags. 27. janúar 2021, kemur fram að misskilningur hafi orðið milli umboðsmanns og kæranda um að fjármunir hans væru á vörslureikningi hjá spítalanum sem hann væri vistaður á. Hið rétta væri að fjármunirnir væru á reikningi á nafni kæranda hjá viðskiptabanka hans og hefði lögmanni hans í Þýskalandi m.a. verið falið það hlutverk að aðstoða kæranda við að koma þeim fjármunum yfir á vörslureikning spítalans eða að fá staðfestingu bankans á innistæðunni. Hins vegar hafi komið í ljós að umboð frá kæranda til þarlends lögmanns hefði ekki dugað til en bankinn krefðist þess að kærandi undirritaði viðeigandi beiðni í eigin persónu svo hægt væri að verða við ósk hans. Hafi aðgengi að kæranda reynst mjög erfitt sökum gildandi heimsóknarbanns hjá spítalanum undanfarna mánuði. Þá hefðu fjölskyldumeðlimir kæranda reynt að nálgast umræddan bankareikning en án árangurs. Meðfylgjandi tölvupósti umboðsmanns kæranda væru fjárhagsupplýsingar kæranda frá [...], sem fjölskylda hans hefði getað aflað með aðstoð þarlends lögmanns en um væri að ræða fyrirframgreiddan arf til kæranda vegna sölu fasteigna foreldra hans þar í landi. Sýndi skjalið fram á að kærandi væri með trygga framfærslu til frambúðar í samræmi við 55. gr. laga um útlendinga en um væri að ræða innistæðu að fjárhæð 67.772 evrur eða yfir 10 milljónir króna. Kærandi væri jafnframt með fjármuni á bankareikningi sínum í Þýskalandi, en allar tilraunir til að fá útgefna staðfestingu þess efnis hefðu verið árangurslausar.
Þann 23. febrúar 2021 barst kærunefnd staðfesting á innistæðu á bankareikningi í [...] auk skjalaþýðingar og fylgiskjals þýðanda frá umboðsmanni kæranda en þó ekki sama reikningsyfirlit og umboðsmaður kæranda hafði lagt fram til kærunefndar með rafrænum hætti þann 27. janúar 2021. Þann 24. febrúar 2021 óskaði kærunefnd eftir því að lögreglan á Suðurnesjum framkvæmdi rannsókn á skjölunum en skjalarannsóknarskýrsla lögreglu barst kærunefnd þann 2. mars 2021. Þar kom fram að veikleiki væri að reikningsyfirlitið væri afrit en ekki frumrit en enga fölsun væri að sjá.
Meginmarkmið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna á þann hátt að þeir fái skoðun á máli sínu á tveimur stjórnsýslustigum. Kærunefnd telur rétt að Útlendingastofnun taki framlögð framfærslugögn til skoðunar með tilliti til 2. mgr. 52. gr. og 10. gr. reglugerðar um útlendinga, með síðari breytingum, og þá eftir atvikum hvort kærandi uppfylli önnur skilyrði laganna til útgáfu dvalarleyfis. Kærandi getur þá eftir atvikum leitað eftir endurskoðun á því mati hjá kærunefnd. Þykir því rétt að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og leggja fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.
Tómas Hrafn Sveinsson
Gunnar Páll Baldvinsson Bjarnveig Eiríksdóttir