Tók þátt í ráðherrafundi um tölvuvæðingu
Fundur ráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna sem hafa tölvu- og netvæðingu á sinni könnu fór fram í Osló í vikunni og tók Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, þátt í fundinum. Ræddi hann meðal annars um þátt tölvuvæðingar í þróun og breytingum á vinnumarkaði og hversu brýnt væri að menntakerfið fylgdi samfélagsþróuninni.
Meðal umfjöllunarefna á ráðherrahluta fundarins var umræða um tölvuvæðingu í opinberum stjórnkerfum, hvernig ríkin gætu unnið saman í samkeppni svæðisins við aðra heimshluta og hvernig ríkin gætu saman látið rödd sína heyrast á alþjóðavettvangi. Þá voru fluttir fjölmargir fyrirlestrar um ýmsar hliðar tölvu- og tæknivæðingar í nútímasamfélagi. Einnig skrifuðu ráðherrarnir undir yfirlýsingu um að efla getu Norðurlanda og Eystrasaltsríkja til stafrænna umbreytinga, efla samkeppnishæfni og stafrænan markað ríkjanna.Jón Gunnarsson tók þátt í pallborðsumræðum með ráðherrum frá Eistlandi, Finnlandi Svíþjóð, Færeyjum og Noregi um samfélagsbreytingar og tölvuvæðingu þar sem meðal annars var spurt hvaða samfélagslegu breytingar tölvuvæðingin hefði haft í för með sér. Í umræðunni lýsti ráðherra þeirri skoðun að menntakerfi 20. aldarinnar uppfyllti ekki þarfir 21. aldarinnar. Störf breyttust hratt, sum hyrfu alveg eða breyttust mikið og ný störf yrðu til og uppbygging og rekstur nútímaþjóðfélags byggðist í veigamiklum atriðum á hugbúnaði. Á sviði upplýsingatækni og fjarskipta hefði störfum fjölgað og það ætti einnig við um ferðaþjónustu. Hann sagði tölvuvæðinguna vera mikla áskorun fyrir stjórnmálamenn og samfélög, takast þyrfti á við tæknibyltingu sem jafnaðist á við iðnbyltinguna en gengi yfir á mun styttri tíma. Jón sagði það lykilatriði að menntakerfið fylgdi samfélagsþróun, sæi hana helst fyrir til að geta skilað einstaklingum út í samfélagið sem gætu tekist á við breytingar. Einnig þyrfti að bjóða endurmenntun fólki í störfum sem fyrirsjáanlegt væri að myndu breytast eða hverfa. Þá nefndi ráðherra fjölmörg dæmi um þær jákvæðu breytingar sem tölvuvæðingin hefur haft á samfélagið á Íslandi, m.a. í breyttum kennsluháttum í grunnskólum og í sjávarútvegi. Einnig fjallaði ráðherra um verkefnið Ísland ljóstengt við góðar undirtektir þátttakenda á fundinum og áhorfenda.
Í yfirlýsingu ráðherranna segir meðal annars að efla þurfi getu til stafrænna umbreytinga með því að skapa sameiginlegt svæði fyrir stafræna þjónustu í opinbera geiranum sem nái yfir landamæri ríkja. Í því fælist viðurkenning á betri þjónustu fyrir borgarana, skilvirkni, minni stjórnsýslubyrði á fyrirtæki og gera yrði notkun kennitalna yfir landamæri auðveldari í því skyni að auðvelda notkun rafrænna skilrikja. Þá vilja ráðherrarnir efla samkeppnishæfni fyrirtækja og efla stafrænan innri markað á Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjum.