Hoppa yfir valmynd
4. júní 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 17/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                           

Miðvikudaginn 4. júní 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 17/2014:

Kæra A

á ákvörðun

Hafnarfjarðarbæjar

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hefur með bréfi, dags. 17. mars 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 17. mars 2014, á beiðni hennar um sérstakar húsaleigubætur.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 17. febrúar 2014, sótti kærandi um sérstakar húsaleigubætur hjá Hafnarfjarðarbæ. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar, dags. 17. febrúar 2014, með þeim rökum að hún hafi ekki átt lögheimili í Hafnarfirði samfellt síðastliðna tólf mánuði líkt og kveðið væri á um í 15. gr. reglna um úthlutun á almennu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ og sérstakar húsaleigubætur. Kærandi áfrýjaði synjuninni til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar með bréfi, dags. 17. febrúar 2014. Fjölskylduráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 12. mars 2014 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Fjölskylduráð Hafnarfjarðar staðfestir niðurstöðu Fjölskylduþjónustunnar um að synja beiðni umsækjanda um sérstakar húsaleigubætur með vísan til 15. gr. reglna um úthlutun á almennu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ og sérstakar húsaleigubætur, þar sem segir að heimilt sé að greiða sérstakar húsaleigubætur til þeirra leigjenda í Hafnarfirði sem búa við mjög erfiðar fjárhagslegar aðstæður og hafa átt lögheimili í Hafnarfirði a.m.k. síðustu 12 mánuði samfellt, en fyrir liggur að lögheimili umsækjanda er í Garðabæ.

Niðurstaða fjölskylduráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 17. mars 2014. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 17. mars 2014. Með bréfi, dags. 21. mars 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Hafnarfjarðarbæjar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun um sérstakar húsaleigubætur. Enn fremur var óskað eftir öllum gögnum málsins. Greinargerð Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi, dags. 7. apríl 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 14. apríl 2014, var bréf Hafnarfjarðarbæjar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi búið í Hafnarfirði í eigin íbúð frá árinu 2009 en flutt um mitt ár 2013 til Garðabæjar. Hún sé í raun á milli bæjarfélaga þar sem reglurnar séu þannig að hún þurfi að hafa búið í heilt ár í viðkomandi bæjarfélagi til að fá sérstakar húsaleigubætur. Hún hafi verið hálft ár í Garðabæ og hálft ár í Hafnarfirði. Hún búi nú hjá foreldrum sínum í Garðabæ en þau hafi flutt í minna húsnæði og því þurfi hún að finna leiguhúsnæði.

Þá greinir kærandi frá því að það sé mun minna framboð af íbúðum í Garðabæ. Henni líði best í Hafnarfirði og því sé leiðinlegt að hugsa til þess að það að hún hafi neyðst til að flytja úr Hafnarfirði hafi eyðilagt fyrir henni möguleikann á sérstökum húsaleigubótum. Hún voni að það sé hægt að gera eitthvað í hennar málum svo hún geti stundað nám sitt áhyggjulaust án þess að eyða fleiri tímum í aukavaktir í vinnunni og þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að flosna upp úr námi.

III. Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar vegna kærunnar kemur fram að í gildi séu reglur um úthlutun á almennu leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur sem hafi verið settar árið 2005 en hafi tekið nokkrum breytingum í gegnum árin. Á árinu 2009 hafi bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkt að taka upp greiðslu sérstakra húsaleigubóta og reglunum hafi því verið breytt, sbr. 15. gr. reglnanna. Þar segi að heimilt sé að greiða sérstakar húsaleigubætur til leigjenda í Hafnarfirði sem búi við mjög erfiðar fjárhagslegar aðstæður. Þann 1. febrúar 2014 hafi verið bætt við skilyrði um að leigjendur skyldu hafa átt lögheimili í Hafnarfirði a.m.k. síðustu tólf mánuði samfellt til að öðlast rétt til greiðslu sérstakra húsaleigubóta. Kærandi hafi flutt lögheimili sitt í Garðabæ um mitt ár 2013 og því hafi beiðni hennar um sérstakar húsaleigubætur verið synjað. Að mati fjölskylduráðs Hafnarfjarðar sé því ljóst að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 15. gr. reglnanna þar sem hún hafi ekki átt lögheimili í Hafnarfirði undanfarna mánuði og samkvæmt upplýsingum þjóðskrár sé lögheimili hennar enn þá skráð í Garðabæ.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um úthlutun á almennu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ og sérstakar húsaleigubætur sem samþykktar voru í bæjarstjórn þann 3. maí 2005 með breytingum sem tóku gildi þann 1. febrúar 2014. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Hafnarfjarðarbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda, dags. 17. febrúar 2014, um sérstakar húsaleigubætur.

Um sérstakar húsaleigubætur er fjallað í VI. kafla framangreindra reglna Hafnarfjarðarbæjar en þar segir í 15. gr.:

Heimilt er að greiða sérstakar húsaleigubætur til þeirra leigjenda í Hafnarfirði sem búa við mjög erfiðar fjárhagslegar aðstæður og hafa átt lögheimili í Hafnarfirði a.m.k. síðustu 12 mánuði samfellt. Tekjumörk miðast við að árstekjur nemi eigi hærri fjárhæð en 2.863.585.- kr. fyrir einstakling og 479.378.- kr. fyrir hvert barn að 20 ára aldri sem býr á heimilinu. Viðmiðunarmörk hjóna/sambúðarfólks/einstaklinga í staðfestri samvist skulu vera 4.010.032.- kr.

Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að hún hafi ekki uppfyllt skilyrði 15. gr. reglnanna um lögheimili. Í framangreindum reglum Hafnarfjarðarbæjar er ekki kveðið á um undanþágu frá skilyrði 15. gr. um lögheimili. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að skilyrði 15. gr. reglnanna um lögheimili í Hafnarfirði síðustu tólf mánuði samfellt sé fortakslaust. Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá hefur kærandi átt lögheimili í Garðabæ frá 21. júní 2013 og uppfyllir því ekki skilyrði 15. gr. reglnanna um lögheimili.

Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Hafnarfjarðarbæjar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 Ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 17. mars 2014, um synjun á umsókn A um sérstakar húsaleigubætur er staðfest.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Gunnar Eydal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta