Hoppa yfir valmynd
4. júní 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 19/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                           

Miðvikudaginn 4. júní 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 19/2014:

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hefur með kæru, dags. 24. mars 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 11. desember 2013, á beiðni hans um lán til fyrirframgreiðslu húsaleigu.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um lán til fyrirframgreiðslu húsaleigu með umsókn, dags. 20. nóvember 2013. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 4. desember 2013, á þeirri forsendu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 23. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavík. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 11. desember 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um styrk að upphæð kr. 300.000.- þar sem eigi verður talið að aðstæður umsækjanda falli að skilyrðum þeim sem sett eru í 23. gr. reglna um fjárhagsaðstoð varðandi styrk til fyrirframgreiðslu/tryggingu húsaleigu.

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 11. desember 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með kæru, dags. 24. mars 2014. Með bréfi, dags. 24. mars 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 7. apríl 2014, var upplýst að sveitarfélagið hygðist ekki skila greinargerð í málinu þar sem kærufrestur væri liðinn. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. apríl 2014, var ítrekuð beiðni nefndarinnar um að Reykjavíkurborg legði fram öll gögn málsins og bárust þau með bréfi sveitarfélagsins, dags. 25. apríl 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 30. apríl 2014, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar og hann upplýstur um að leiða mætti líkur að því að kæra hans hafi borist að liðnum kærufresti. Kæranda var veitt tækifæri til að koma að athugasemdum og/eða gögnum en engar athugasemdir bárust frá kæranda.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi hefur ekki komið neinum sjónarmiðum á framfæri við meðferð máls þessa.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í athugasemdum Reykjavíkurborgar vegna kærunnar er vísað til 1. mgr. 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, þar sem fram komi að málsaðili geti skotið ákvörðun félagsmálanefndar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála og skuli það gert innan þriggja mánaða frá því viðkomandi hafi borist vitneskja um ákvörðun. Þann 11. desember 2013 hafi velferðarráð Reykjavíkurborgar afgreitt erindi kæranda og honum tilkynnt um niðurstöðu fundarins með bréfi, dags. 11. desember 2013. Kærufrestur 1. mgr. 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga sé því liðinn.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda, dags. 20. nóvember 2013, um lán til fyrirframgreiðslu húsaleigu.

Úrskurðarnefndin telur í upphafi rétt að gera athugasemd við að Reykjavíkurborg hafi ekki afhent úrskurðarnefndinni gögn málsins þegar þeirra var óskað með bréfi, dags. 24. mars 2014, þar sem sveitarfélagið taldi að kærufrestur væri liðinn. Úrskurðarnefndin tekur fram að í tilvikum þar sem kæra berst að liðnum kærufresti ber nefndinni að leggja á það mat hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka kæruna til efnislegrar meðferðar. Með ákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga er lögð skylda á hendur úrskurðarnefndinni að fjalla um tiltekin matskennd sjónarmið sem nánar er kveðið á um í 1. og 2. tölul. 1. mgr. ákvæðisins. Svo úrskurðarnefndin geti tekið afstöðu til þess hvort fyrir hendi sé sú aðstaða sem lýst er í framangreindum ákvæðum svo rétt sé að víkja frá kærufresti þurfa öll gögn málsins að liggja fyrir. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Reykjavíkurborgar að öll gögn verði framvegis afhent nefndinni þegar þess er óskað, jafnvel þótt kæra berist að liðnum kærufresti.

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, skal kæra til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála lögð fram innan þriggja mánaða frá því aðila máls barst vitneskja um ákvörðun. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 11. desember 2013, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 24. mars 2014. Liggur þannig fyrir að kæran barst úrskurðarnefndinni að liðnum lögboðnum kærufresti.

Með 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga var lögfest sú meginregla að hafi kæra borist að liðnum kærufresti beri að vísa henni frá. Þó er að finna tvær undantekningar frá því í 1. og 2. tölul. ákvæðisins er hljóða svo:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Ákvæðið mælir þannig fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn. Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Með bréfi, dags. 30. apríl 2014, gaf úrskurðarnefndin kæranda kost á því að gefa skýringar á því hvers vegna kæra hefði borist að liðnum kærufresti. Engar skýringar hafa borist frá kæranda. Þá liggur fyrir að kæranda var leiðbeint um kæruheimild og kærufrest til úrskurðarnefndarinnar í hinni kærðu ákvörðun frá 11. desember 2014. Að mati úrskurðarnefndarinnar benda gögn málsins því ekki til þess að afsakanlegt sé að kæran hafi ekki borist fyrr en eftir lok kærufrests, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Við mat á því hvort skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga sé uppfyllt ber að horfa til hagsmuna aðila máls sem og almannahagsmuna, t.a.m. hvort um mál sé að ræða sem geti haft mikilvægt fordæmisgildi. Sé hin kærða ákvörðun í andstöðu við framkvæmd hins æðra stjórnvalds í samsvarandi málum getur slíkt talist veigamikil ástæða í skilningi ákvæðisins. Úrskurðarnefndin fær ekki séð að um sé að ræða mál sem haft geti mikilvægt fordæmisgildi enda hefur ekkert komið fram sem sýnir fram á það. Þá hefur ekkert komið fram um að hin kærða ákvörðun sé í andstöðu við framkvæmd Reykjavíkurborgar. Að framangreindu virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki séu skilyrði til þess að taka kæruna til efnislegrar meðferðar á grundvelli 1. eða 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Kærunni verður því vísað frá.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála þar sem hún er of seint fram komin.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta