Hoppa yfir valmynd
18. júní 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 1/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

Miðvikudaginn 18. júní 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 1/2014:

Kæra A

vegna B

á ákvörðun

Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með kæru, dags. 14. janúar 2014, hefur A vegna B skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga að bjóða ekki upp á skammtímavistun fyrir kæranda.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Með tölvupósti þann 16. desember 2013 óskaði kærandi eftir skammtímavistun á C, þjónustu eftir skóla og tómstundaúrræði frá Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga. Með tölvupósti þann 17. desember 2013 var kæranda tilkynnt að ekki yrði boðið upp á skammtímavistun á C vegna fjárskorts. Ekki væri sérstök tómstundaiðja í boði af hálfu sveitarfélagsins önnur en viðfangsefni í liðveislu hverju sinni. Þá var tekið fram að kærandi nyti félagslegrar liðveislu sveitarfélagsins og þjónustu stuðningsfjölskyldu einu sinni í mánuði.

Með bréfi, dags. 23. janúar 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga ásamt fyrirliggjandi gögnum. Greinargerð Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga barst með bréfi, dags. 17. febrúar 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 21. febrúar 2014, var greinargerðin send kæranda. Með bréfi, mótteknu 11. mars 2014, bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær sendar til Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga með bréfi, dags. 30. apríl 2014. Með tölvupósti þann 8. maí 2014 bárust frekari athugasemdir frá Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga sem voru sendar kæranda til kynningar með bréfi, dags. 13. maí 2014. Athugasemdir bárust á ný frá kæranda með tölvupósti þann 14. maí 2014 og voru þær sendar Félags- og skólaþjónustu Snæfellingar til kynningar með bréfi, dags. 16. maí 2014. Athugasemdir bárust á ný frá Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga með tölvupósti þann 20. maí 2014. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Af hálfu kæranda kemur fram að ekki hafi verið boðið upp á skammtímavistun á vegum Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga vegna fjárskorts. Þá hafi hvorki verið boðið upp á önnur stuðningsúrræði né aukna þjónustu á öðrum sviðum til að koma til móts við þörf fyrir slíkri vistun. Samkvæmt 5. tölul. 9. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, séu skammtímavistanir þjónustustofnanir sem skuli starfrækja á hverju svæði eftir því sem þörf sé á. Skammtímavistunum hafi eingöngu verið lokað af fjárhagsástæðum en ekki vegna skorts á þeim sem þurfi að nýta sér slíka vistun. Í 9. gr. laga um málefni fatlaðs fólks sé að finna heimild fyrir sveitarfélögin að meðal annars fella niður starfsemi. Ekki verði þó annað séð en slíka heimild megi einvörðungu nota ef þörf fyrir slíka starfsemi sé ekki til staðar. Ljóst sé að lokun skammtímavistana á C sé tekin af fjárhagslegum ástæðum og ekki sé ljóst hvernig veita eigi kæranda, sem hafi nýtt sér þessa þjónustu og öðrum sem kunni að óska eftir skammtímavistun, sambærilega þjónustu.

III. Málsástæður Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga

Í greinargerð Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga kemur fram að kærandi eigi nú þegar rétt á þjónustu eftir skóla og tómstundaúrræðum framhaldsskóla. Skammtímavistun á C hafi verið í boði eina til tvær helgar á tímabilinu september til maí og kæranda hafi oftast staðið til boða að nýta tvær helgar mánaðanna. Sökum fjárskorts til málaflokks fatlaðs fólks á þjónustusvæði Vesturlands hafi verið tekin sú ákvörðun að hefja ekki starfsemi C þjónustutímabilið september til desember 2013. Sama forsenda sé að baki ákvörðunar þjónusturáðs Vesturlands að hefja ekki rekstur skammtímavistunarinnar á C og í D.

Í greinargerð sveitarfélagsins er greint frá þeirri þjónustu sem kærandi fær, en það sé meðal annars stuðningsfjölskylda fjóra sólarhringa í mánuði og félagsleg liðveisla 4–5 klukkustundir á viku. Kærandi hafi ætíð nýtt sér lengda viðveru í grunnskóla og nú í Fjölbrautaskóla Snæfellinga þar sem hann stundi nám á starfsbraut skólans. Þá er greint frá dagþjónustu í Snæfellsbæ og að kæranda hafi verið boðið aðgengi að henni þá daga sem skóladagar hafi fallið niður við lok haustannar 2013. Kærandi hafi nýtt sér þessa þjónustu samhliða liðveislutímum í jólaleyfinu. Með tilkomu dagþjónustunnar hafi orðið umtalsverð þjónustuaukning á Snæfellsnesi. Í kjölfar lokana skammtímavistunar hafi verið ákveðið að bjóða nemendum starfsbrautar Fjölbrautaskóla Snæfellinga aðgang að þessari þjónustu þá daga sem skólahald falli niður, í lengri og skemmri frídögum skólaársins. Þá er greint frá sumarþjónustu fatlaðra barna og ungmenna á Snæfellsnesi, sálfræðiþjónustu, ráðgjafarþjónustu og heimaþjónustu sem kæranda standi til boða.  

Mat á stöðu og þörfum kæranda hafi legið fyrir þegar umsókn hafi verið svarað í desember 2013. Með hliðsjón af þörfum og nýtingu kæranda á áður veittri þjónustu hafi verið ljóst að hann myndi nýta sér áfram skammtímavistun og aðra þjónustuþætti. Þá gæti hann einnig nýtt sér dagþjónustuna í Snæfellsbæ. Það sé því mat sveitarfélagsins að þjónustuframboð til kæranda sé ásættanlegt endi njóti hann eftir sem áður þjónustu stuðningsfjölskyldu sinnar fjóra sólarhringa í hverjum mánuði. Engar aðrar umsóknir um skammtímavistun hafi borist til Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga enda hafi ákvörðun um lokun á haustmisseri 2013 verið kynnt forráðamönnum þeirra einstaklinga sem og annarra. Þeim fáu forráðamönnum sem hafi haft samband við ráðgjafa sveitarfélagsins hafi verið bent á þann valkost að sækja um einstaka vistunartímabil í sambærilegri þjónustu, svo sem í E og F. Enn fremur hafi forráðamönnum verið bent á að nýta sér dagþjónustuna. Þjónustuþegum og forráðamönnum þeirra á þjónustusvæði Vesturlands hafi verið gert viðvart um lokun skammtímaþjónustunnar á C og D. Þrátt fyrir þrengri fjárhag í þjónustu við fólk með fötlun á þjónustusvæði Vesturlands á árinu 2013 og yfirstandandi ári hafi tekist að koma á laggirnar tveimur nýjum þjónustustofnunum í dagþjónustu virka daga. Því megi segja að nýr þjónustuþáttur bætist við í umhverfi kæranda um leið og öðrum sleppir. Forsendur nýrri þjónustuþátta felist í auknum áherslum á dagþjónustu virka daga vikunnar, samhliða framhaldsnámi á starfsbraut og öðrum atvinnutengdum úrræðum.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 5. gr. a laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum, en í 1. mgr. greinarinnar kemur fram að fötluðum einstaklingi sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir um þjónustu sem teknar eru á grundvelli laganna til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um skammtímavistun á C og hvort komið hafi verið til móts við þjónustuþörf hans.

Fjallað er um réttindi fatlaðs fólks í lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum. Markmið laganna er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Er tekið fram að við framkvæmd þeirra skuli tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá skulu stjórnvöld tryggja heildarsamtökum fatlaðs fólks og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðs fólks. Í 4. gr. laganna kemur fram að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar, sem og kostnaði vegna hennar samkvæmt lögum þessum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum. Þá hafa sveitarfélögin með höndum innra eftirlit með framkvæmd þjónustunnar, þar á meðal með framkvæmd samninga sem sveitarfélögin gera við rekstrar- eða þjónustuaðila um framkvæmd þjónustunnar.

Lög nr. 59/1992 veita sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita fötluðu fólki í samræmi við fyrrgreind markmið laganna og þær kröfur sem gerðar eru til aðgengis fatlaðra einstaklinga að þeirri þjónustu. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir undir eftirliti ráðherra. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti. Samkvæmt 55. gr. laga um málefni fatlaðs fólks er sveitarstjórnum heimilt að setja reglur um þjónustu samkvæmt lögunum á grundvelli þeirra og leiðbeinandi reglna ráðherra. Snæfellsbær hefur ekki sett sér slíkar reglur er varða þjónustustofnanir, sbr. 9. gr. laganna.

Í málinu er ágreiningur um þau réttindi sem felast í 9. gr. laga nr. 59/1992 en þar kemur fram að starfrækja skuli þjónustustofnanir fyrir fatlað fólk í því skyni að koma til móts við sértækar þarfir þess svo að það geti lifað sjálfstæðu lífi. Í 2. mgr. 9. gr. eru tilgreindar þær þjónustustofnanir sem skulu starfræktar á hverju svæði eftir því sem þörf er á, en þar undir fellur meðal annars skammtímavistun. Í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 59/1992 er kveðið á um að sveitarfélagi eða sveitarfélögum sem starfa saman á þjónustusvæði sé heimilt að bæta við þjónustustofnunum, sameina þær eða fella niður starfsemi þeirra. Þá er í 22. gr. laganna kveðið á um að foreldrar skuli eiga kost á skammtímavistun fyrir fötluð börn sín þegar þörf krefur. Skammtímavistun sé ætlað að veita fötluðum einstaklingum tímabundna dvöl til hvíldar eða vegna erfiðra heimilisaðstæðna, svo sem vegna veikinda eða annars álags.

Í athugasemdum frumvarps til laga um málefni fatlaðs fólks segir um ákvæði 22. gr. að þjónustunni svipi til þeirrar þjónustu sem stuðningsfjölskyldur veita. Þó sé þar nokkur munur á. Í fyrsta lagi veiti skammtímavistun þroskaþjálfun auk umönnunar og tómstundaiðkunar. Því séu skammtímavistanir betur í stakk búnar til að sinna mikið fötluðum einstaklingum heldur en stuðningsfjölskyldur. Í öðru lagi geti skammtímavistanir boðið upp á lengri og samfelldari vistanir en stuðningsfjölskyldur geri að öðru jöfnu. Börn og unglingar dvelji yfirleitt 3–7 daga í senn þótt lengri vistanir allt að mánuði þekkist. Loks geti skammtímavistanir veitt bráðaþjónustu, til dæmis vegna skyndilegra veikinda foreldra sem stuðningsfjölskyldur hafi ekki alltaf aðstöðu til að sinna.

Við breytingu á lögunum árið 2010, með lögum nr. 152/2010, var áfram kveðið á um að þjónustustofnanir eins og skammtímavistun skyldi starfrækja ef þörf væri á. Í greinargerð með breytingarlögunum er lítið fjallað um slíkar þjónustustofnanir en sveitarfélögum veitt heimild til að meta þessa þörf með því að bæta við þjónustustofnunum, sameina þær eða fella niður starfsemi þeirra ef rök standa til þess. Sveitarfélagið tók ákvörðun um að loka tveimur skammtímavistunum vegna fjárskorts en sveitarfélagið hefur einnig vísað til þess að ekki hafi verið almenn þörf fyrir úrræðið.

Svo sem greinir að framan hefur sveitarfélagið ekki sett sér sérstakar reglur um þá þjónustu sem deilt er um. Sveitarfélagið ber þó ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum hennar, sem og kostnaði vegna hennar, eins og fram kemur í 1. mgr. 4. gr. laganna. Meðal þess sem líta verður til við ákvörðun um veitingu þjónustu við fatlað fólk er þörf þess fyrir slíka þjónustu. Í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur fram að fatlaður einstaklingur eigi rétt til að njóta þjónustu þar sem hann býr og komi fram umsókn um slíka þjónustu skal skv. 3. mgr. 5. gr. laganna meta þá umsókn af teymi fagfólks, sem meti heildstætt þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustuna og jafnframt hvernig koma megi til móts við óskir hans.

Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur sveitarfélagið ekki sýnt fram á að það hafi farið fram mat á þjónustuþörf kæranda og fjölskyldu hans vegna umsóknar um skammtímavistun, sbr. 9. og 22. gr. laga nr. 59/1992. Þá hefur sveitarfélagið ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti að kærandi hafi fengið aukna þjónustu eftir að skammtímavistun var lokað en samkvæmt gögnum málsins var gert ráð fyrir að auka annars konar þjónustu, í stað skammtímavistana, til að mæta þörfum foreldra sem búa við mikið álag, til dæmis með stuðningsfjölskyldu, en tekið fram að einstaklingsbundið mat myndi ráða þeirri útfærslu. Málið hefur því ekki verið rannsakað nægilega og ekki verður bætt úr þessum annmarka fyrir úrskurðarnefndinni. Í samræmi við framangreint verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka umsókn kæranda til löglegrar meðferðar.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga, dags. 17. desember 2013, að bjóða ekki upp á skammtímavistun fyrir B er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til löglegrar meðferðar.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta