Hoppa yfir valmynd
16. júlí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 27/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                           

Miðvikudaginn 16. júlí 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 27/2014:

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A hefur með kæru, dags. 30. apríl 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 9. apríl 2014, á umsókn hans um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi og eiginkona hans sóttu um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 12. febrúar 2013. Með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 14. febrúar 2013, var óskað eftir gögnum frá eiginkonu kæranda og greint frá því að umsókn þeirra yrði ekki tekin til greina ef gögnin myndu ekki berast innan tilskilins frests. Með bréfi, dags. 3. mars 2014, óskuðu kærandi og eiginkona hans eftir undanþágu frá c-lið 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík um tekju- og eignamörk. Umsókn þeirra var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 20. mars 2014, með þeim rökum að skilyrði b-liðar 5. gr. um undanþágu frá 4. gr. reglnanna væri ekki uppfyllt vegna þeirra gagna sem vantaði. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 9. apríl 2014 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um undanþágu frá skilyrði a. liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur.

Niðurstaða velferðaráðs var kynnt kæranda með bréfi, dags. 9. apríl 2014. Í bréfinu var fyrir misritun vísað í a-lið 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í stað c-liðar 4. gr. reglnanna. Þann 30. apríl 2014 barst úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála kæra, dags. sama dag, frá kæranda. Með bréfi, dags. 5. maí 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun á umsókn kæranda. Enn fremur var óskað eftir öllum gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 19. maí 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 21. maí 2014, var kæranda send greinargerð Reykjavíkurborgar til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi hefur ekki komið neinum sjónarmiðum á framfæri í málinu.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærumálsins kemur fram að í 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík séu sett fram tiltekin skilyrði í a–e-liðum sem umsækjandi þurfi að uppfylla til að umsóknin taki gildi. Í c-lið sé kveðið á um tekju- og eignamörk og séu eignamörkin 4.381.223 krónur og tekjumörk 4.399.912 krónur fyrir hjón og sambúðarfólk. Tekjumörk séu miðuð við meðaltal tekna síðastliðin þrjú ár. Í 5. gr. reglnanna séu undanþáguákvæði frá settum skilyrðum í 4. gr. en heimilt sé samkvæmt b-lið að veita undanþágu frá lögheimili og tekjumörkum, byggða á faglegu mati, sé um mikla félagslega erfiðleika að ræða, sbr. lið 5c í matsviðmiði, sbr. fylgiskjal 1 með reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík. Samkvæmt þeim gögnum sem lágu fyrir velferðarráði þá hafi hjónin sótt um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur í febrúar 2013 en umsókn þeirra ekki tekin til greina þar sem upplýsingar um tekjur eiginkonu kæranda síðastliðin þrjú ár áður en umsókn var lögð fram hafi vantað. Kærandi og eiginkona hans hafi verið upplýst um nauðsyn þess að skila slíkum gögnum en ekki hafi tekist að útvega þau frá B. Kærandi hafi borið fyrir sig að ekki væri möguleiki að láta ættingja nálgast gögnin með umboði og ekki væri möguleiki að sækja gögnin sjálfur né láta senda sér þau rafrænt. Kærandi og eiginkona hans hafi þá sótt um undanþágu frá skilum á gögnum, þ.e. skattskýrslum eiginkonu kæranda vegna tekna árin 2010 og 2011, þar sem erfitt væri að nálgast gögnin frá heimalandinu.

Við meðferð málsins hjá velferðarráði hafi verið litið til þess að um væri að ræða gögn frá opinberum aðila sem ætti að vera unnt að nálgast, til dæmis með aðstoð annarra opinberra aðila eins og sendiráðs Íslands í C sem annist sendiráðsstörf fyrir B. Einnig sé á Íslandi ræðismaður fyrir B sem mögulega gæti aðstoðað við að afla slíkra gagna og kæranda hafi verið bent á að hafa samband við. Í ljósi þess að milli B og Íslands sé náið stjórnmálalegt samstarf hafi ekki verið unnt að líta fram hjá þeirri staðreynd að ekki hefði verið reynt til þaula að nálgast gögnin frá B en kæranda hafi verið í lófa lagið að kanna alla möguleika áður en undanþága frá skilum á gögnum er varðar tekjur og eignir væri veitt.

Eins og rakið sé að framan þá sé í 5. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík að finna heimildarákvæði er varðar undanþágur frá skilyrðum 4. gr. reglnanna. Rétt sé að ítreka að umrætt ákvæði 5. gr. reglnanna sé heimildarákvæði og því ekki skylt að veita umræddar undanþágur. Samkvæmt b-lið 5. gr. reglnanna sé kveðið á um undanþágu frá tekju- og eignamörkum vegna mikilla félagslegra erfiðleika. Eigi hafi verið unnt að fjalla um slíka undanþágu því umsókn kæranda og eiginkonu hans hafi ekki uppfyllt skilyrði reglnanna þar sem gögn hafi vantað til að unnt væri að staðfesta umsókn þeirra og því hafi 5. gr. reglnanna ekki getað átt við í máli kæranda.

Samkvæmt framansögðu megi því telja það vera ljóst að ákvörðun Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn ákvæðum reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur né laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Með vísan til alls framanritaðs hljóti því að verða staðfesta ákvörðun velferðarráðs í máli kæranda.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík frá 1. mars 2004, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur.

Kærandi sótti um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg. Umsókn hans um undanþágu frá c-lið 1. mgr. 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík var synjað á þeirri forsendu að skilyrði b-liðar 5. gr. um undanþágu væru ekki uppfyllt þar sem gögn er vörðuðu tekjur eiginkonu kæranda vantaði.

Í 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík er að finna skilyrði fyrir því að umsókn verði metin gild og þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði sem fram koma í a–e-liðum 1. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 4. gr. eru eignamörk 4.381.223 krónur og tekjumörk 4.399.912 krónur fyrir hjón og sambúðarfólk. Tekjumörk eru miðuð við meðaltal tekna síðastliðin þrjú ár. Samkvæmt b-lið 5. gr. reglnanna er heimilt að veita undanþágu frá skilyrði b-liðar 4. gr. um lögheimili og/eða tekjuviðmiði c-liðar 4. gr þegar umsækjandi er samkvæmt faglegu mati ráðgjafa í mjög miklum félagslegum erfiðleikum, sbr. lið 5 c í matsviðmiði sem fylgir reglunum. Í 5. gr. reglnanna er ekki kveðið á um undanþágu frá eignamörkum c-liðar 1. mgr. 4. gr. Í málinu liggja ekki fyrir gögn um eignir og tekjur eiginkonu kæranda síðastliðinna þriggja ára og er því að mati úrskurðarnefndarinnar ekki unnt að meta hvort skilyrði c-liðar 1. mgr. 4. gr. reglnanna sé uppfyllt í máli kæranda. Að því virtu kemur undanþága 5. gr. reglnanna ekki til skoðunar. Þá er í framangreindum reglum Reykjavíkurborgar ekki kveðið á um heimild til þess að veita undanþágu frá skilum á gögnum sem nauðsynleg eru til þess að leggja mat á hvort skilyrði 4. gr. reglnanna séu uppfyllt.

Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Reykjavíkurborgar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Reykjavíkurborgar.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 9. apríl 2014, um synjun á umsókn A um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur er staðfest.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta