Vísinda- og tækniráð samþykkir stefnu og aðgerðaáætlun til þriggja ára
Á fundi sínum mánudaginn 12. júní sl. samþykkti Vísinda – og tækniráð stefnu og aðgerðaáætlun áranna 2017 til 2019.
Stefnan er í 5 köflum og inniheldur 10 aðgerðir með tilgreindum ábyrgðaraðila. Þær miða að því að auka afköst rannsókna- og nýsköpunarkerfisins með markvissri og vel grundaðri ákvarðanatöku og skilvirkni nýtingu fjármagns.
Stefnan er unnin samhliða stefnu þeirri sem birtist í fjármálaáætlun ríkisins fyrir árin 2018-2022.
Í ávarpi formanns ráðsins Kristjáns Þórs Júlíussonar mennta- og menningarmálaráðherra af þessu tilefni kom fram að samstarf ráðuneytisins við starfsnefndir ráðsins, vísindanefnd og tækninefnd, sem unnu stefnuna hefur verið mikið og gott og sú reynsla og þekking sem býr í nefndunum hefur reynst afar mikilvæg. Þá hefur samstarf mennta- og menningarmálaráðuneytis við atvinnuvega - og nýsköpunarráðuneyti um stefnumótunina verið veigamikið og farsælt og gott samstarf hefur verið við önnur ráðuneyti sem að vinnunni hafa komið.
Fyrsta aðgerðin sem sett verður af stað á grundvelli stefnunnar er að auglýst verður eftir styrkjum í markáætlun um tungu og tækni. Gert er ráð fyrir að fylgja stefnunni eftir með reglulegum stöðuskýrslum.
Ráðherra lagði jafnfram áherslu á jöfn tækifæri kvenna og karla í rannsóknum og nýsköpun og að ekki gæti kynjahalla í fjármögnun rannsókna.
Ráðherra nefndi einnig að hann sé að setja af stað endurskoðun á lagaumhverfi Vísinda- og tækniráðs, með það að markmiði að styrkja stöðu landsins á þessu sviði í alþjóðlegu umhverfi. Þar verður m.a. verði horft til umbóta á sambærilegum kerfum sem gerðar hafa verið í nágrannaríkjum á undanförnum árum.