Hoppa yfir valmynd
26. júní 2020 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherra stýrði norrænum ráðherrafundi vegna Covid-19

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, stýrði í morgun fundi norrænna ráðherra dóms- og innanríkismála. Efni fundarins voru aðgerðir og viðbrögð vegna Covid-19 faraldursins.

Fundinn sátu fulltrúar allra Norðurlandanna, auk áheyrnarfulltrúa frá Grænlandi. Opnun landamæra var fyrsta málið sem tekið var til umræðu og kom fram í máli dómsmálaráðherra að mikilvægt væri að horfa til hagsmuna og stöðu hvers lands fyrir sig á sama tíma og löndin ættu að stefna að því að beita sér sameiginlega til að komast sem best í gegnum faraldurinn og áhrif hans á heilsu og efnahag.

Dómsmálaráðherra ítrekaði stuðning við samvinnu Schengenríkja varðandi lista yfir ríki utan Schengen sem opnað yrði fyrir, en ítrekaði að slíkur listi þyrfti að endurspegla sveigjanleika og taka mið af aðstæðum og hagsmunum hvers lands fyrir sig.

Á fundinum var einnig rætt um hættu á seinni bylgju faraldursins. Ráðherra lagði áherslu á mikilvægi þeirra úrræða sem hér hefði verið beitt sem eru skimun á landamærum, smitrakning, sóttkví og einangrun. Íslendingar myndu halda því áfram á meðan þörf væri á.

Þriðja málið sem tekið var til umræðu var staða umsækjanda um alþjóðlega vernd á tímum Covid-19. Dómsmálaráðherra greindi frá þeim breytingum á meðferð slíkra mála vegna faraldursins sem leitt hafa til þess að fleiri fengju efnismeðferð en áður. Með skjótum ákvörðunum í þeim efnum hefði Ísland eytt óvissu þeirra sem þegar voru komnir og sýnt skilning og samstöðu með þeim þjóðum þar sem álagið er mest. Ráðherra greindi einnig frá vinnulagi sem yrði viðhaft við opnun landamæra sem fælist í skimun við komu, dvöl í sóttkví í 5 til 7 daga og endurskimun að því loknu. Eftir það færu mál í venjulegan farveg. Þetta væri gert bæði vegna almennrar smithættu, en ekki síður til að draga úr hættu að smit bærist á milli innan þessa viðkvæma hóps.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta