Hoppa yfir valmynd
21. maí 2014 Innviðaráðuneytið

Forgangsmál að auðvelda borgurunum samskipti við hið opinbera

Forgangsmál er að gera hinum almenna borgara auðveldara með að eiga samskipti við hið opinbera, hvort sem er stofnanir á vegum ríkisins eða sveitafélaga til að bæta þjónustu og auka lýðræðislega þátttöku á hinum ýmsu sviðum. Þetta kom fram í ávarpi Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra við setningu málstofu um rafræna stjórnsýslu í dag. Ásamt innanríkisráðuneytinu stóðu að henni Samband íslenskra sveitarfélaga og Félag forstöðumanna ríkisstofnana.

Frá málþingi innanríkisráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags forstöðumanna ríkisstofnana um rafræna stjórnsýslu.
Frá málþingi innanríkisráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags forstöðumanna ríkisstofnana um rafræna stjórnsýslu.

Fram kom í máli ráðherra að upplýsingatæknin væri meðal öflugustu vopna til að ná hagræðingu í opinberri stjórnsýslu og brýnt væri að stjórnendur gerðu sér grein fyrir mikilvægi hennar og gætu beitt henni af skynsemi. Ráðherra sagðist leggja áherslu á  netöryggismál og sneri það ekki síst að eflingu löggæslunnar og endurskoðun á réttarfari og sagði hún þessa umræðu ofarlega á baugi hjá norrænum starfsbræðrum.

Frá málþingi innanríkisráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags forstöðumanna ríkisstofnana um rafræna stjórnsýslu.

Sérfræðingar á ýmsum sviðum rafrænnar stjórnsýslu fjölluðu um efni málstofunnar svo sem um stefnu ríkis og sveitarfélaga um upplýsingasamfélagið, um öryggismál, búnað og þjónustu, samráð á netinu við stefnumörkun og mótun lagafrumvarpa og nokkrir sögðu frá reynslu sinni af opinberri stjórnsýslu í sveitarfélögum og hjá ríkinu. Málstofan er undanfari námskeiða sem haldin verða á þessu og næsta ári í kjölfar könnunar sem gerð var í lok árs 2013 þar sem fram kom mikill áhugi forstöðumanna og forsvarsmanna sveitarfélaga fyrir málstofu sem þessari.

Markmið málstofunnar eru að auðvelda stjórnendum að forgangsraða verkefnum í upplýsingatækni, stuðla að aukinni samvinnu stofnana og sveitarfélaga um rafræna stjórnsýslu, auðvelda stjórnendum að greina hvað hægt er að gera strax til að ná betri árangri í rafrænni stjórnsýslu og styðja stjórnendur í að ná meiri árangri í framþróun í rafrænni stjórnsýslu og upplýsingatækni.

Samráð lykilatriði

Innanríkisráðherra flutti ávarp við upphaf málþings um rafræna stjórnsýslu.Hanna Birna flutti einnig ávarp í dag við setningu ráðstefnu Skýrslutæknifélags Íslands með heitinu: Nú vantar stefnuna. Þar var leitast við að svara spurningunum um hvað væri mikilvægast frá sjónarhóli opinberra stofnana, einkafyrirtækja og frá sjónarhóli borgaranna.

Í ávarpi sínu minntist ráðherra á ýmis verkefni í ráðuneytinu, meðal annars mótun stefnu og aðgerðaáætlana á sviði net- og upplýsingaöryggis. Miðað væri við að bæði opinberir aðilar og hagsmunaaðilar gætu sameinast um hana. Samráð væri lykilatriði og hefðu hagsmunaaðilar verið boðaðir til fundar 2. júní til að fá fram sjónarmið þeirra. Þá sagði ráðherra að með því að beita samtakamættinum mætti ná því marki að net- og upplýsingatækni verði ekki einungis undirstaða framfara heldur gæti öryggi á því sviði einnig skapað ný og öflug sóknarfæri til framtíðar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta