Hoppa yfir valmynd
7. maí 2019 Utanríkisráðuneytið

Sendiráð í Úganda lýsa yfir áhyggjum af mál- og fundafrelsi í landinu

Ljósmynd frá Kampala: gunnisal - mynd

Sendiráð Íslands í Úganda og fulltrúar fjölmargra annarra þjóða lýstu á alþjóðlegum degi fjölmiðlafrelsis í síðustu viku yfir áhyggjum vegna aðgerða stjórnvalda í Úganda gegn mál- og fundafrelsi í landinu. Í yfirlýsingu eru nýlegar aðgerðir fjölmiðlanefndar Úganda gegn fjölmiðlum gagnrýndar og ennfremur misnotknun á lögregluvaldi gegn mótmælendum og stjórnarandstöðumönnum.

„Tjáningar- og málfrelsi eru stjórnarskrárvarin í Úganda, en fjölmörg lagaákvæði, þar með talin refsilöggjöf, er í andstöðu við þessi réttindi,“ segir Unnur Orradóttir Ramette sendiherra Íslands í Kampala. „Túlkun og framkvæmd gildandi laga ganga einnig gegn þessum réttindum. Frumvarp til lagabreytinga sem takmarkar mjög heimildir listamanna til að skipuleggja viðburði er augljóslega beitt gegn forsetaframbjóðandanum Bobi Wine, en að hans sögn hefur lögregla nú þegar stöðvað 124 tónleika hans frá í október 2017.“

Forsetakosningar fara fram í Úganda snemma árs 2021. Skoðanakannanir sýna að í fyrsta sinn frá því Yoweri K. Museveni tók við völdum árið 1986, njóti hann stuðnings innan við 50% þjóðarinnar. Þingmaðurinn og tónlistarmaðurinn Bobi Wine, 37 ára, er leiðtogi pólitísku hreyfingarinnar „People Power Movement" og yfirlýstur forsetaframbjóðandi. Hann heitir réttu nafni Robert Kyagulanyi Ssentamou en er þekktari undir listamannsnafni sínu. Hann var handtekinn í þriðja sinn á skömmum tíma í lok aprílmánaðar fyrir að hafa hvatt til mótmæla í júlí 2018 gegn skattlagningu á samfélagsmiðla en var leystur úr haldi gegn tryggingu og þarf að mæta aftur fyrir rétt síðar í mánuðinum. Aðrir stjórnarandstöðuleiðtogar, sérstaklega Kifefe-Kizza Besigye, núverandi og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, hafa einnig orðið fyrir barðinu á lögreglu og fjölmiðlanefnd.

Unnur segir augljóst af fréttaflutningi að fjölmiðlar og samfélagsmiðlar séu beittir þrýstingi því lítið sé um fréttaflutning af ákveðnum viðburðum undanfarna daga, sérstaklega mótmælum almennings og aðgerðum lögreglu gegn stjórnarandstæðingum. Undanfarna daga hafi fjölmiðlanefnd eða lögregla lokað á útsendingar útvarpsstöðva og svipt tugi blaðamanna og útvarps- og sjónvarpsstöðva leyfi tímabundið.

„Það má búast við að allar tilraunir til að stöðva stjórnarandstöðuleiðtogana í Úganda, kalli á hörð viðbrögð almennings, sérstaklega hjá hinni fjölmennu ungu kynslóð Úganda, sem er stærsti stuðningshópur Bobi Wines og kynntist honum fyrst í gegnum tónlist hans og textum gegn félagslegu óréttlæti og harðræði. Þótt nánast ekkert megi lesa um þessar mundir um mótmæli almennings í Kampala, var þeirra þó greinilega vart í síðustu viku í næsta umhverfi sendiráðsins. Það er þó ekki ástæða til að gefa út neinar viðvaranir,“ segir Unnur.

Að yfirlýsingunni standa Bandaríkin, aðildarríki ESB í Kampala og sendinefnd ESB, Noregur, S-Kórea, Japan og Ísland. 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta