Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Forsætisráðuneytið, Innviðaráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Viðspyrna fyrir Ísland: Viðspyrnustyrkir og stuðningur við atvinnuleitendur, lífeyrisþega, barnafjölskyldur og félagslega viðkvæma hópa

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að greiða sérstakt viðbótarálag á grunnbætur atvinnuleysistrygginga á næsta ári sem koma á til móts við þann stóra hóp sem á næstu mánuðum fellur út af tekjutengdum atvinnuleysisbótum. Álagið hljóðar uppá 2,5% og kemur til viðbótar þeirri 3,6% hækkun sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi.  Með þessu nemur heildarhækkun grunnbóta 6,2% og þær verða því 307.403 kr. 

Hækkaðar greiðslur vegna framfærslu barna atvinnuleitenda verða framlengdar út næsta ár þar sem 6% viðbótarálag reiknast ofan á grunnatvinnuleysisbætur vegna framfærslu hvers barns, í stað 4% áður. Auk þess verður greidd  desemberuppbót til þeirra sem eru í staðfestri atvinnuleit sem hljóðar uppá rúmar 86 þúsund krónur. 

Viðspyrnustyrkir

Með viðspyrnustyrkjum verður samfélagið betur viðbúið því þegar heimurinn opnast að nýju. Viðspyrnustyrkir eru beint framhald af tekjufallsstyrkjum og er þeim ætlað að aðstoða fyrirtæki við að viðhalda lágmarksstarfsemi meðan áhrifa faraldursins gætir. Úrræðið tekur til allra tekjuskattskyldra rekstraraðila sem verða fyrir a.m.k. 60% tekjufalli og gildir um alla rekstraraðila óháð rekstrarformi, það gildir þannig líka um einyrkja sem stunda atvinnurekstur á eigin kennitölu.

Fyrir rekstraraðila með tekjufall á bilinu 60-80%

  • Viðspyrnustyrkur getur orðið 400 þúsund kr. á hvert mánaðarlegt stöðugildi
  • Getur hæst orðið 2 milljónir króna

Fyrir rekstraraðila með tekjufall upp á 80%-100% 

  • Viðspyrnustyrkur getur orðið 500 þúsund kr. á hvert mánaðarlegt stöðugildi
  • Getur hæst orðið 2,5 milljónir króna.  

Styrkfjárhæðir taka mið af rekstrarkostnaði en geta þó ekki orðið hærri en það tekjufall sem varð á tímabilinu sem er undir. 

 Hafi verulegt tekjufall orðið hjá einyrkjum eða mjög smáum rekstraraðilum þar sem reiknað endurgjald er stór hluti rekstrarkostnaðar er rekstraraðila heimilt að miða rekstrarkostnað og fjölda stöðugilda við sama mánuð á árinu 2019.

Stuðningur við barnafjölskyldur

Skerðingarmörk í barnabótakerfinu verða hækkuð sem tryggir að þau fylgja þróun lægstu launa á vinnumarkaði. Þessi breyting skilar einstæðum foreldrum með tvö börn, með 350 þúsund til 580 þúsund krónur í tekjur á mánuði, 30 þúsund króna hækkun barnabóta á ári. Fjölskylda með samanlagðar tekjur upp á 700 til 920 þúsund krónur á mánuði fær 60 þúsund hærri barnabætur á næsta ári en ella vegna breytinganna.  

Stuðningur við örorkulífeyrisþega og viðkvæma hópa

Greidd verður út 50 þúsund króna eingreiðsla til þeirra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem eiga rétt á lífeyri á árinu fyrir 18. desember, til viðbótar við desemberuppbót sem jafnframt kemur til greiðslu í desember. Í upphafi næsta árs verða gerðar varanlegar breytingar á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga þegar dregið verður úr innbyrðis skerðingum sem skilar tekjulægstu örorkulífeyrisþegunum tæplega 8.000 króna viðbótarhækkun á mánuði umfram fyrirhugaða hækkun uppá 3,6% sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi. Heildarhækkun bóta almannatrygginga til tekjulægstu örorkulífeyrisþeganna verður því tæpar 20 þúsund krónur um áramót.  

Þá verður ráðist í ýmsar mótvægisaðgerðir til að styrkja félagslega stöðu viðkvæmra hópa í heimsfaraldrinum og sett á laggirnar viðbragðsteymi um fjárhagsstöðu heimila með fulltrúum frá fjármálastofnunum, hagsmunasamtökum og umboðsmanni skuldara. 

Nánari upplýsingar um aðgerðir ríkisstjórnarinnar má finna í upplýsingaskjali hér:

Kynningarglærur um framhald aðgerða ríkisstjórnarinnar:

Upplýsingar um virkar aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldursins er að finna á Viðspyrna.is

Frá blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar um aðgerðir vegna COVID-19, 20. nóvember 2020

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta