Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjármálaráð kynnir mat á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar

Fjármálaráð kynnir á morgun mat sitt á fjármálastefnu nýrrar ríkisstjórnar, sem lögð hefur verið fyrir Alþingi. Fjármálaráð starfar sjálfstætt, en það er skipað í samræmi við nýleg lög um opinber fjármál. Hlutverk þess er að að leggja mat á hvort stefnan fylgi þeim grunngildum sem lögin segja að stefnumörkun í opinberum fjármálum skuli byggð á, en þau eru sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi.

Fjármálaráð var skipað í kjölfar þess að lög um opinber fjármál tóku gildi 1. janúar 2016. Þetta er í fyrsta sinn sem ráðið gefur út mat á fjármálastefnu til fimm ára, sem lögð er fram í upphafi kjörtímabils. Fjármálaráði er einnig falið að leggja mat á fjármálaáætlun til fimm ára, sem lögð er fram að vori ár hvert og grundvallast á fjármálastefnu.

Auk þess að leggja mat á ofangreind grunngildi um stefnumörkun í opinberum fjármálum metur fjármálaráð hvort fylgt sé skilyrðum fjármálastefnu og fjármálaáætlunar í lögunum um heildarjöfnuð og heildarskuldir. Skilyrðin fela í sér – í fyrsta lagi - að heildarjöfnuður ríkis og sveitarfélaga yfir hvert fimm ára tímabil skuli ávallt vera jákvæður og árlegur halli ávallt undir 2,5% af landsframleiðslu. Í öðru lagi að heildarskuldir hins opinbera, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum og að frádregnum sjóðum og bankainnstæðum, séu lægri en nemur 30% af vergri landsframleiðslu (VLF). Í þriðja lagi gera lögin kröfu um markvissa lækkun skulda á meðan skuldir eru yfir 30% viðmiðinu.

Fjármálaráð starfar sjálfstætt og er það á valdi ráðsins að ákveða hvernig staðið skuli að mati á stefnumörkun stjórnvalda í opinberum fjármálum að öðru leyti. Formaður ráðsins er skipaður til fimm ára, en aðrir ráðsmenn til þriggja ára.

Fjármálaráð er þannig skipað:

  • Gunnar Haraldsson, formaður, tilnefndur af forsætisráðherra
  • Ásgeir Brynjar Torfason, tilnefndur af Alþingi
  • Þóra Helgadóttir, tilnefnd af Alþingi.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta