Hoppa yfir valmynd
6. júlí 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 374/2023 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 6. júlí 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 374/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23020061

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 21. febrúar 2023 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. febrúar 2023, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga og að stofnuninni verði gert að taka málið til nýrrar meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 19. júní 2022. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 24. ágúst 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 20. febrúar 2023, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 21. febrúar 2023. Kærunefnd barst greinargerð kæranda 7. mars 2023 ásamt fylgigögnum. Þá bárust kærunefnd frekari gögn 10. og 21. mars 2023 og 13. júní 2023.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna ótta við ofsóknir af hálfu Al-Shabaab samtakanna vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshóp.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Kæranda var veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið. Fram kom að yfirgæfi kærandi landið sjálfviljugur innan frestsins yrði endurkomubannið fellt niður.

Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi farið í viðtal hjá Útlendingastofnun 24. ágúst 2022. Þar hafi kærandi greint frá því að hafa flúið Sómalíu þar sem hann hafi ekki verið öruggur þar. Kærandi hafi óttast um líf sitt og að verða fyrir ofbeldi. Þá hafi hann talið ómögulegt að búa annars staðar og vera öruggur í Sómalíu. Ástæða flótta hans hafi verið sú að honum hafi borist ítrekaðar hótanir frá hryðjuverkasamtökunum Al-Shabaab. Kæranda hafi verið hótað lífláti ef hann myndi ekki greiða þeim 300 dollara í hverjum mánuði. Kærandi greindi frá því að vera skotmark samtakanna vegna starfa sinna fyrir sómölsk stjórnvöld, en yfirmanni hans hafi jafnframt verið hótað og í kjölfarið hafi hann verið myrtur. Kærandi hafi farið til Mógadisjú og skipt um SIM kort en honum hafi áfram borist hótanir frá Al-Shabaab. Hann hafi því ekki séð annan kost en að flýja land. Frændi kæranda sé meðlimur í samtökunum og þar af leiðandi sé auðveldara fyrir samtökin að hafa uppi á kæranda í Sómalíu.

Í greinargerð kæranda er fjallað um öryggisástand og stöðu mannréttinda í Sómalíu, m.a. þá ógn sem stafi af hryðjuverkasamtökunum Al-Shabaab í Mógadisjú. Vísar kærandi til skýrslna alþjóðlegra stofnana máli sínu til stuðnings.

Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar og rannsókn stofnunarinnar í greinargerð sinni. Kærandi telur að ákvörðunin brjóti í bága við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, leiðbeiningarskyldu stjórnvalda og lögmætis-, réttmætis- og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi jafnframt ekki verið í samræmi við regluna um skyldubundið mat stjórnvalda. Þá hafi rökstuðningur stofnunarinnar verið ófullnægjandi. Kærandi gerir athugasemd við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar og mat stofnunarinnar á öryggisástandi í Mógadisjú, áhrifum Al-Shabaab í borginni og getu stjórnvalda til að veita honum vernd. Þá hafi verið litið fram hjá því að frændi kæranda sé meðlimur í samtökunum og að samtökin beini einnig spjótum sínum að lágtsettum starfsmönnum hjá stjórnvöldum og aðilum sem tengist Sameinuðu þjóðunum með einhverjum hætti. Ekki hafi farið fram einstaklingsbundið mat á aðstæðum kæranda. Kærandi hafi unnið að verki sem tengist bæði sómölskum stjórnvöldum og Sameinuðu þjóðunum sem hafi verið bygging lögreglustöðvar fyrir stjórnvöld. Þá hafi Útlendingastofnun vísað til tiltekinna þátta í heimildum til stuðnings niðurstöðu sinni en litið fram hjá öðrum sem bendi til hins gagnstæða. Stofnunin hafi jafnframt dregið trúverðugleika frásagnar kæranda í efa án þess að tiltaka á hvaða grundvelli það væri gert. Þá hafi kærunefnd útlendingamála komist að þeirri niðurstöðu í úrskurði nr. 57/2023 að leggja megi til grundvallar að einstaklingar sem hafi sætt afskiptum af hálfu Al-Shabaab þrátt fyrir að ekki liggi fyrir gögn því til stuðnings. Telur kærandi að mál hans sé sambærilegt framangreindu máli og að með tilliti til jafnræðisreglu beri að veita kæranda alþjóðlega vernd. Auk þess hafi kærandi lagt fram mikið magn gagna sem styðji frásögn hans. Þá mótmælir kærandi því mati Útlendingastofnunar að hann eigi stuðningsnet í Sómalíu.

Kærandi telur að með endursendingu hans til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Hann eigi á hættu ofsóknir af hálfu Al-Shabaab vegna starfa sinna fyrir sómölsk stjórnvöld, sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi sætt bæði fjárkúgun og líflátshótunum auk þess sem samstarfsmaður hans hafi verið myrtur. Þá líti meðlimir Al-Shabaab á þá einstaklinga sem hafi dvalist erlendis með neikvæðum hætti og eigi þeir á enn frekari hættu að sæta ofsóknum af hálfu samtakanna. Ef kæranda yrði gert að fara aftur til heimaríkis yrði hann hugsanlega að verða við kröfu samtakanna um peningagreiðslur, en hann gæti þá verið samsamaður hryðjuverkasamtökunum. Ekki hafi verið horft til þessa við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að líta verði til öryggisástands í Sómalíu, fyrri reynslu hans og hættu á ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð. Kærandi vísar m.a. til athugasemda við ákvæðið í frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016. Kærandi eigi einnig á hættu að verða fyrir skaða af völdum árása Al-Shabaab þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka verði honum gert að snúa aftur heim. Ekki hafi farið fram einstaklingsbundið mat á aðstæðum kæranda, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga, en heimildir beri með sér að þeir sem hafi neitað meðlimum Al-Shabaab um peningagreiðslur geti átt á hættu ofsóknir. Vísar kærandi í þessu samhengi til úrskurðar kærunefndar nr. 168/2021.

Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis þegar útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærandi vísar m.a. til athugasemda við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga. Þar komi fram að með erfiðum almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og tekið sem dæmi viðvarandi mannréttindabrot og sú aðstaða að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Kærandi geti ekki treyst á vernd stjórnvalda og ættbálkar stjórni að miklu leyti hverjir fái vernd og hvenær. Félagslegar aðstæður kæranda yrðu jafnframt erfiðar þar sem hann eigi ekkert stuðningsnet, atvinnuöryggi hans hafi verið ógnað verulega og þar með framfærslugetu hans í heimaríki. Þá sé heilbrigðiskerfið i Sómalíu afar veikburða. Þá byggi kærandi á heilsufarsástæðum, en hann hafi hírst í fangelsi við slæman aðbúnað auk þess sem hann hafi áhyggjur af heilsu sinni í kjölfar líflátshótana sem hafi áhrif á svefn hans. Vegna þessa hafi kærandi þurft að leita sálfræðiaðstoðar.

Að lokum krefst kærandi þess til þrautaþrautavara að Útlendingastofnun verði gert að taka mál hans til nýrrar meðferðar með vísan til framangreindra annmarka við meðferð málsins, einkum þess að ekki hafi verið fjallað um málsástæðu kæranda um að frændi hans væri meðlimur í Al-Shabaab.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað sómölsku kennivottorði. Þar sem kærandi hefði ekki sannað hver hann væri með fullnægjandi hætti leysti Útlendingastofnun úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. Við úrlausn málsins var á því byggt að kærandi ætti uppruna sinn að rekja til Mógadisjú í Sómalíu. Að mati kærunefndar er ekki ástæða til að hnekkja því mati Útlendingastofnunar og er því lagt til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi sé ríkisborgari Sómalíu og komi frá höfuðborginni Mógadisjú.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Sómalíu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2021 Report on International Religious Freedom: Somalia (US Department of State, 2. júní 2022);
  • 2022 Country Reports on Human Rights Practices – Somalia (US Department of State, 20. mars 2023);
  • 2021 Country Reports on Human Rights Practices – Somalia (US Department of State, 12. apríl 2022);
  • Amnesty International Report 2022/23 – Somalia (Amnesty International, 27. mars 2023);
  • BTI 2022 Country Report – Somalia (Bertelsmann Stiftung, 23. febrúar 2022);
  • Benadir Regional Report 2020, Somali Health and Demographic Survey (SHDS) (Somalia National Bureau of Statistics, júlí 2021);
  • Challenges Facing the Health System in Somalia and Implications for Achieving the SDGs (European Journal of Public Health, 30. september 2020);
  • Clans in Somalia (Austrian Centre for Country of Origin and Asylum Research and Documentation (ACCORD), desember 2009);
  • Country Background Note – Somalia (UK Home Office, desember 2020);
  • Country Guidance: Somalia (EUAA, júní 2022);
  • Country of Origin Information – Somalia: Health System (Danish Immigration Service, nóvember 2020);
  • Country Policy and Information Note – Somalia: Al-Shabaab (UK Home Office, nóvember 2020);
  • Country Policy and Information Note – Somalia: Majority clans and minority groups in south and central Somalia (UK Home Office, júní 2017);
  • Country Policy and Information Note: Security and humanitarian situation in Mogadishu, Somalia (UK Home Office, maí 2022);
  • Country Reports on Terrorism 2020 – Somalia (US Department of State, 16. desember 2021);
  • EASO COI Report: Somalia Actors (EUAA, 1. júlí 2021);
  • EASO Country of Origin Information Report: Somalia – Targeted profiles (EUAA, 19. september 2021);
  • Freedom in the World 2023 – Somalia (Freedom House, 2023);
  • International Protection Considerations with Regard to People Fleeing Somalia (UNHCR, september 2022);
  • Key socio-economic indicators (EUAA, september 2021);
  • Protection of Civilians: Building the Foundation for Peace, Security and Human Rights in Somalia (OHCHR, UNSOM, 10. desember 2017);
  • Query response on Somalia: Al-Shabaab (2021 - March 2023) (leadership, objectives, structure; recruitment; areas of operation and activities; financing; attacks; targets; capacity to track individuals; state response) (Immigration and Refugee Board of Canada, 7. mars 2023);
  • Reply by the United Nations High Commissioner for Refugees (UNHCR) in response to request for guidance on the application of the internal flight or relocation alternative, particularly in respect of Mogadishu, Somalia (UNHCR, 25. september 2013);
  • Situation in Somalia: Report of the Secretary-General (UN Security Council, 17. febrúar 2021);
  • Situation in Somalia: Report of the Secretary-General (UN Security Council, 19. maí 2021);
  • Situation in Somalia: Report of the Secretary-General (UN Security Council, 8. febrúar 2022);
  • Somalia. Al-Shabaab areas in Southern Somalia (Landinfo, 21. maí 2019);
  • Somalia: Basisinfo (Landinfo, 22. mars 2021);
  • Somalia country profile (BBC, 20. desember 2022);
  • Somalia: Defection, desertion and disengagement from Al-Shabaab (EUAA, 13. febrúar 2023);
  • Somalia: Fact-Finding Mission to Mogadishu in March 2020 – Security situation and humanitarian conditions in Mogadishu (Finnish Immigration Service, 7. ágúst 2020);
  • Somalia: Det generelle voldsbildet og al-Shabaabs aktivitet i ulike deler av landet (Landinfo, 3. júní 2021);
  • Somalia: Health system (The Danish Immigration Service, nóvember 2020);
  • Somalia: Kampene i Mogadishu den 25. April 2021 og sikkerhetssituasjonen i byen etter dette (Landinfo, 15. júní 2021);
  • Somalia: Klan, familie, migrasjon og bistand ved (re)etablering (Landinfo, 24. júní 2020);
  • Somalia: Security challenges in Mogadishu (Landinfo, 15. maí 2018);
  • Somalia – Security situation (EUAA, 21. febrúar 2023);
  • Somalia – Security situation update (EUAA, 25. apríl 2023):
  • Somalia Situation Update: April 2023 (ACLED, 21. apríl 2023);
  • Somalia: Violence in Mogadishu and developments since 2012 (Landinfo, 30. október 2020);
  • Somalia: UN expert warns health care standards “dangerously low“ (UNHRC, 5. apríl 2022);
  • South and Central Somalia – Security Situation, Al-Shabaab Presence, and Target Groups (Danish Refugee Council, mars 2017);
  • South and Central Somalia – Security situation, forced recruitment, and conditions for returnees (The Danish Immigration Service, júlí 2020);
  • The World Factbook – Somalia (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 13. júní 2023);
  • UNHCR Eligibility Guidelines for Assessing the International Protection Needs of Asylum -Seekers from Somalia (UNHCR, 5. maí 2010);
  • UNHCR Position on Returns to Southern and Central Somalia (Update I) (UNHCR, maí 2016);
  • Vefsíða Minority Rights Group – Somalia (https://minorityrights.org/country/somalia/, síðast uppfært í maí 2018);
  • Voices Somalia – A Qualitative Assessment (UNFPA, september 2021) og
  • World Report 2023 – Somalia: Events of 2022 (Human Rights Watch, 12. janúar 2023).

Sómalía er sambandslýðveldi með tæplega 13 milljónir íbúa. Ríkið lýsti yfir sjálfstæði frá Bretum og Ítölum þann 1. júlí 1960. Hinn 20. september 1960 gerðist Sómalía aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1990. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1975 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1990. Sómalía fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 2015 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2019.

Í skýrslu EUAA frá árinu 2016 kemur fram að árið 1991 hafi brotist út borgarastyrjöld í Sómalíu eftir að vopnaðir andspyrnuhópar hafi steypt þáverandi forseta landsins, Siad Barre, og ríkisstjórn hans af stóli. Næstu ár hafi einkennst af miklum átökum og lögleysu í landinu án þess að starfhæf ríkisstjórn væri við völd. Í ágúst 2012 hafi fyrsta varanlega alríkisstjórnin verið mynduð frá því borgarastyrjöldin hafi hafist. Frá árinu 2009 hafi átök verið bundin við mið- og suðurhluta Sómalíu á milli ríkisstjórnar landsins og bandamanna þeirra annars vegar og íslamskra öfgahópa hins vegar, einkum Al-Shabaab, sem hafi náð stjórn á nokkrum svæðum í landinu. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2023 beri hryðjuverkasamtökin Al-Shabaab m.a. ábyrgð á fjölda hryðjuverkaárása síðustu ár í Sómalíu sem kostað hafi hundruð óbreyttra borgara lífið. Samkvæmt skýrslu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá því í maí 2020 sé almennt öryggisástand í Sómalíu sveiflukennt. Megi rekja það til aukningar hryðjuverkaárása í landinu, fjölgunar glæpa og vopnaðra átaka sem hafi verið viðvarandi frá því í janúar 2020. Al-Shabaab hafi aukið árásir sínar í Mógadisjú og í Boosasoo í Bari héraði í Puntlandi. Samkvæmt skýrslu EUAA frá 2023 var mánaðarlegt meðaltal svokallaðra öryggisatvika, þ.e. bardaga, sprenginga og ofbeldis gagnvart almennum borgurum, um 240 á tímabilinu janúar 2022 til nóvember 2022.

Í skýrslu Landinfo frá árinu 2019 kemur fram að Al-Shabaab hafi tekið yfir stjórn stærsta hluta Suður-Sómalíu árin 2008 til 2010. Á árunum 2011 til 2015 hafi friðargæsla Afríkuþjóða í Sómalíu (The African Union Mission in Somalia (AMISOM)) og fleiri samtök stjórnvalda tekist að ná stjórn á Mógadisjú og í kjölfarið öðrum bæjum Suður-Sómalíu. Þrátt fyrir það hafi Al-Shabaab náð yfirráðum yfir nokkrum bæjum í suðurhluta landsins að nýju á árunum 2016 og 2017 og hafi einnig viss áhrif á þeim svæðum þar sem samtökin hafi ekki varanlega viðveru. Sterkir ættbálkar hafi ákveðið svigrúm til að semja við samtökin en flestir hræðist hefndaraðgerðir þeirra. Al-Shabaab hafi umfangsmikið net uppljóstrara og bandamanna sem fari tiltölulega frjálslega milli landsvæða og séu hópar samtakanna sérstaklega virkir á svæðum þar sem ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar haldi sig. Í skýrslu dönsku flóttamannanefndarinnar frá árinu 2017 kemur fram að ýmsar ástæður geti legið að baki ofsóknum Al-Shabaab. Megi þar m.a. nefna alvarlegar refsiaðgerðir gegn óbreyttum borgurum sem ekki fari eftir reglum og hugmyndafræði samtakanna.

Í skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá september 2022, sem fjallar um mat á umsóknum einstaklinga um alþjóðlega vernd frá Sómalíu, kemur fram að þeir sem tilheyri áhættuhópi vegna ofsókna af hálfu Al-Shabaab séu m.a. einstaklingar sem tengist eða taldir séu tengjast sómölskum yfirvöldum á einhvern hátt, einstaklingar sem taldir séu brjóta gegn sharía lögum eða tilskipunum sem Al-Shabaab hafi sett fram, þ. á m. þeir sem hafi yfirgefið Al-Shabaab, fjölmiðlamenn, einkum þeir sem gagnrýni Al-Shabaab, baráttufólk fyrir mannréttindum og einstaklingar sem Al-Shabaab hafi kúgað fé út úr. Samkvæmt heimildum Sameinuðu þjóðanna geti einstaklingar sem starfi við þrif og önnur lágt sett störf hjá sómölskum stjórnvöldum eða AMISOM jafnframt verið skotmörk Al-Shabaab. Starfsfólk Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegra samtaka geti einnig verið skotmörk, óháð stöðu þeirra innan stofnananna. Í skýrslunni kemur fram að starfsmenn frjálsra félagasamtaka séu ekki sjálfkrafa skotmörk Al-Shabaab heldur fari það eftir ýmsu, t.a.m. hve mikil gagnrýni samtakanna sé á Al-Shabaab. Frjáls félagasamtök með tengsl við Bandaríkin séu hins vegar almennt skotmörk Al-Shabaab.

Samkvæmt skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá árinu 2020 er árangursrík vernd stjórnvalda á yfirráðasvæðum Al-Shabaab ekki tiltæk. Ríkisstjórn landsins hafi leitast við að bæta öryggisþjónustu sína með aðstoð AMISOM. Í höfuðborg Sómalíu, Mógadisjú, og á öðrum þéttbýlisstöðum þar sem ríkisstjórnin sé við völd séu öryggissveitir veikburða sökum skorts á fjármagni, fullnægjandi búnaði og skorts á þjálfun starfsmanna. Í skýrslu Landinfo frá árinu 2018 kemur fram að sómalska lögreglan (e. Somali Police Force) sé virk og sýnileg í höfuðborginni Mógadisjú. Megináhersla lögreglunnar sé að vernda stofnanir ríkisins gegn árásum Al-Shabaab. Aftur á móti ber heimildum saman um að lögreglan hafi takmarkaða getu til að vernda einstaklinga gegn ofbeldi, þ.m.t. að rannsaka, ákæra og refsa fyrir ofbeldisbrot. Þá kemur fram að spilling sé útbreidd meðal lögreglu og hjá dómstólum. Í skýrslu danskra innflytjendayfirvalda frá 2020 kemur fram að öryggisástand í Sómalíu sé sveiflukennt og Al-Shabaab fremji flest brot gegn óbreyttum borgurum í Suður- og Mið-Sómalíu. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2022 kemur fram að Al-Shabaab hafi borið ábyrgð á um 60% dauðsfalla almennra borgara á tæplega 9 mánaða tímabili árin 2020 og 2021.

Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá því í janúar 2019 kemur fram að ættbálkakerfið sé mikilvægur hluti af auðkenni íbúa Sómalíu og að kerfið hafi áhrif á alla þætti samfélagsins. Ættbálkakerfið sé stigskipt en neðst í stigskiptingunni séu fátækir ættbálkar og minnihlutahópar sem tilheyri ekki ættbálkasamfélaginu. Í skýrslunni kemur fram að í Sómalíu séu fjórir stærstu ættbálkarnir Darod, Hawiye, Isaaq og Dir. Samkvæmt skýrslunni hafi mikilvægi aðildar að tilteknum ættbálki breyst á undanförnum árum í höfuðborginni Mógadisjú. Hlutverk ættbálksins hafi í auknum mæli færst frá því að verja stöðu ættbálksins yfir í hlutverk félagslegrar aðstoðar og stuðnings. Þá sé lítið um ættbálkaerjur í Mógadisjú og afkoma meðlima minnihlutaættbálka ráðist ekki af aðild þeirra að ættbálkinum. Í skýrslunni kemur fram að víðtækur alþjóðlegur styrkur og stuðningur hafi hjálpað ríkisstjórn Sómalíu að bæta líf borgara sinna og almennt hafi lífsskilyrði íbúa í Mógadisjú batnað.

Í framangreindum gögnum kemur fram að heilbrigðiskerfi Sómalíu sé í grunninn einkavætt og þó svo að það hafi tekið töluverðum framförum á undanförnum árum séu töluverðar áskoranir um landið allt, sérstaklega í dreifbýli þar sem aðgengi sé slæmt og skortur sé á heilbrigðisvörum. Ekkert miðlægt heilbrigðiskerfi sé í Sómalíu og sérhæfðar læknismeðferðir takmarkaðar. Þá sé aðgengi að lyfjum takmarkað og engin umsjón eða eftirlit með gæðum og öryggi þeirra. Í skýrslu danskra innflytjendayfirvalda frá 2020 kemur fram að í Mógadisjú hafi almennir borgarar aðgengi að heilbrigðisþjónustu og sé ekki mismunað á grundvelli þjóðernis eða ættbálks. Í borginni sé aðgengi að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu og apótekum.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu Al-Shabaab vegna starfa sinna í heimaríki. Kærandi hafi starfað sem verkfræðingur að uppbyggingu lögreglustöðvar í Janale í Suður-Sómalíu. Fljótlega eftir að hafa hafið störf hafi kærandi fengið símtal frá meðlimi Al-Shabaab þar sem honum hafi verið skipað að greiða 300 dollara mánaðarlega til samtakanna. Kærandi hafi ekki viljað greiða samtökunum pening og í kjölfarið hafi honum verið hótað lífláti. Þá hafi yfirmaður kæranda verið myrtur eftir að honum hefði borist hótanir frá meðlimum Al-Shabaab. Kærandi kvað frænda sinn vera meðlim í Al-Shabaab og að hann hafi m.a. staðið að baki hótununum. Kærandi hafi verið hræddur um að frændi hans kæmist að því í gegnum fjölskyldumeðlimi hvar hann væri niðurkominn og því hafi hann ákveðið að flýja heimaríki sitt.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtali hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hafa lokið námi í verkfræði í Sómalíu árið 2019. Í apríl 2021 hafi honum boðist starf sem verkfræðingur hjá byggingarfyrirtækinu […]. Kærandi kvaðst hafa unnið í Mógadisjú frá apríl til desember 2021. Í janúar 2022 hafi fyrirtækið hafist handa við uppbyggingu lögreglustöðvar í Janale í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar og hafi kærandi tekið þátt í því verki. Hinn 10. febrúar 2022 hafi kæranda borist símtöl frá meðlimi Al-Shabaab þar sem hann hafi sagst vita að kærandi ynni að framangreindu verki og að hann skyldi greiða samtökunum 300 dollara mánaðarlega. Kærandi hafi fengið eina viku til að inna fyrstu greiðsluna af hendi. Kærandi hafi ekki tekið þessu alvarlega en fimm dögum síðar hafi yfirmaður kæranda verið myrtur en honum hefðu borist sambærilegar hótanir. Í kjölfar þess hafi kærandi fengið annað símtal frá meðlimi Al-Shabaab og honum verið sagt að hann hefði tvo daga til þess að greiða 300 dollara, annars yrði hann myrtur eins og yfirmaður hans. Kærandi hafi þekkt rödd mannsins í símanum og áttað sig á því að hann væri að tala við frænda sinn, A. Kærandi hafi því haldið að um einhvers konar grín væri að ræða og ekki tekið hann alvarlega. Kærandi hafi þó ákveðið að hringja í föður A til að spyrja hvort A væri meðlimur hryðjuverkasamtakanna og hafi hann staðfest það. Faðir A hafi jafnframt hvatt kæranda til að flýja í stað þess að greiða samtökunum pening. Kærandi kvaðst ekki vilja styrkja Al-Shabaab og jafnvel þótt hann myndi greiða þeim peninginn þá myndu meðlimir samtakanna hugsanlega myrða hann þar sem hann væri að vinna fyrir sómölsk stjórnvöld. Kærandi hafi því farið til Mógadisjú 17. febrúar 2022 og skipt um símanúmer en fljótlega hafi hann fengið símtal frá A sem hafi tilkynnt honum að fresturinn til að greiða peninginn rynni út sama dag og að kærandi yrði myrtur ef hann fyndist. Kærandi kvaðst hafa orðið hræddur, skipt aftur um símanúmer og ekki haft samband við neinn fyrr en 21. febrúar 2022 þegar hann hafi yfirgefið Sómalíu, enda hafi hann grunað að A hafi fengið upplýsingar um símanúmerið sitt frá sameiginlegum fjölskyldumeðlimi.

Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun lagði kærandi fram ýmis gögn til stuðnings frásögn sinni, m.a. ljósmyndir og afrit af skólagögnum, ljósmyndir af sér við útskrift og á byggingarsvæðum. Með vísan til framlagðra gagna og trúverðugleika kæranda dregur kærunefnd ekki í efa að hann hafi starfað sem verkfræðingur í Sómalíu. Til stuðnings frásögn sinni um að hann hafi unnið hjá fyrirtækinu […] að uppbyggingu lögreglustöðvar í Janale í Suður-Sómalíu lagði kærandi m.a. fram afrit af ráðningarsamningi og starfsmannakorti sínu hjá […] og skjöl með ítarlegum upplýsingum og teikningum af lögreglustöð í Janale. Fram kemur í skjölunum að viðskiptavinur fyrirtækisins séu sómölsk stjórnvöld en einnig eru allar blaðsíður skjalanna m.a. merktar Alþjóðlegu fólksflutningastofnuninni (IOM).

Hinn 6. júní 2023 sendi kærunefnd fyrirspurn á byggingarfyrirtækið […] og óskaði eftir upplýsingum um hvort fyrirtækið kannaðist við framangreint verk. Kærunefnd barst svar fyrirtækisins með tölvubréfi, dags. 11. júní 2023, þar sem fram kom að verkið hafi verið framkvæmt af fyrirtækinu. Hinn 13. júní 2023 óskaði kærunefnd eftir leyfi kæranda fyrir því að haft yrði samband við byggingarfyrirtækið […] til athuga hvort kærandi hafi unnið þar að framangreindu verki. Hinn 13. júní 2023 sendi kærandi skriflegt samþykki sitt með tölvubréfi og 16. júní 2023 sendi kærunefnd fyrirspurn á fyrirtækið um hvort kærandi hafi unnið að verkinu. Í svari fyrirtækisins kom fram að kærandi hafi unnið sem „Project Engineer“ að uppbyggingu lögreglustöðvarinnar í Janale sem styrkt hafi verið af IOM. Passar það við starfsheiti kæranda á starfsmannaskírteini hans sem hann lagði fram við meðferð málsins.

Með vísan til trúverðugleika kæranda, stöðugs framburðar hans, framlagðra gagna og tölvubréfa frá fyrirtækinu […] þess efnis að kærandi hafi unnið að framangreindu verki telur kærunefnd ekki ástæðu til annars en að leggja til grundvallar að kærandi hafi unnið sem verkfræðingur að uppbyggingu lögreglustöðvar í Janale í Suður-Sómalíu. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað, m.a. skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um mat á umsóknum einstaklinga um alþjóðlega vernd frá Sómalíu, eiga einstaklingar sem starfa fyrir sómölsk yfirvöld, og jafnvel þeir sem taldir eru tengjast yfirvöldum á einhvern hátt, á hættu að sæta ofsóknum af hálfu Al-Shabaab. Starf kæranda snerist að uppbyggingu lögreglustöðvar fyrir sómölsk stjórnvöld í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar. Þrátt fyrir að kærandi hafi ekki lagt fram gögn sem renna stoðum undir frásögn hans um afskipti Al-Shabaab af honum horfir kærunefnd til framlagðra gagna hans varðandi uppbyggingu lögreglustöðvarinnar, upplýsinga frá fyrirtæki kæranda í heimaríki og upplýsinga í þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað og styðja við frásögn kæranda. Gögnin bera með sér að einstaklingar sem starfi fyrir sómölsk stjórnvöld, jafnvel í lágt settum stöðum, geti verið skotmörk Al-Shabaab. Telur kærunefnd, með vísan til þess að meta skuli vafa kæranda í hag, ekki forsendur til annars en að leggja til grundvallar að kærandi hafi sætt afskiptum af hálfu meðlima Al-Shabaab vegna vinnu hans við uppbyggingu lögreglustöðvar fyrir sómölsk stjórnvöld í Janale í Suður-Sómalíu.

Kærunefnd telur þó ekki sýnt fram á að frændi kæranda, A, sé meðlimur í samtökunum Al-Shabaab og hafi staðið að baki hótunum í garð kæranda. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn því til stuðnings, svo sem samskipti við A, ljósmyndir eða samskipti við fjölskyldumeðlimi um A. Þá horfir kærunefnd m.a. til þess að í viðtali hjá Útlendingastofnun 24. ágúst 2022 kvaðst kærandi óttast A en að hann væri samt í sambandi við fjölskyldu sína í heimaríki. Í tölvubréfi til kærunefndar, dags. 21. júní 2023, kvaðst hann ekki vera í sambandi við fjölskyldu sína af ótta við að A fengi upplýsingar í gegnum fjölskyldu hans. Telur kærunefnd framangreindar frásagnir ekki samræmast.

Með vísan til framangreinds, og í ljósi þess að kærunefnd telur ekki ástæðu til þess að efast um frásögn kæranda um störf hans í Sómalíu og afskipti meðlima Al-Shabaab af honum, þá má ætla að þau afskipti geti leitt til þess að hann verði í aukinni hættu á að verða fyrir ofsóknum af hálfu samtakanna verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Frásögn kæranda um að ekki sé hægt að fá vernd stjórnvalda í heimaríki hans vegna ofsókna af hálfu Al-Shabaab fær jafnframt stoð í þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað. Með vísan til framangreinds, þess að meta skuli vafa kæranda í hag og heildstæðs mat á aðstæðum kæranda í heimaríki hans telur kærunefnd að kærandi hafi með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann kunni að eiga á hættu ofsóknir sem rekja megi til aðstæðna hans í heimaríki og að hann teljist því flóttamaður í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Mat á möguleika á flutningi innanlands

Þó svo að umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi sýnt fram á ástæðuríkan ótta við að verða fyrir ofsóknum á því landsvæði sem hann býr, er heimilt að synja umsókn um alþjóðlega vernd ef umsækjandi getur fengið raunverulega vernd í öðrum landshluta heimalands síns en hann flúði frá, viðkomandi getur ferðast þangað á öruggan og löglegan hátt og hægt er með sanngirni að ætlast til þess af viðkomandi að hann setjist að á því svæði, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um útlendinga segir að niðurstaða um hvort útlendingur geti fengið raunverulega vernd í öðrum hluta heimalands skuli byggð á einstaklingsbundnu mati á persónulegum aðstæðum útlendingsins og þeim aðstæðum sem séu í því landi. Við mat á því hvort hægt sé með sanngirni að ætlast til þess að útlendingur setjist að á því svæði sem talið er öruggt samkvæmt ákvæði þessu skuli tekið tillit til ýmissa þátta, svo sem aldurs, kyns, heilsu, fjölskylduaðstæðna, trúar, menningar sem og möguleika viðkomandi útlendings á vinnu eða menntun. Við mat samkvæmt ákvæðinu skuli m.a. höfð hliðsjón af leiðbeiningum flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (Guidelines on International Protection: „Internal Flight or Relocation Alternative“ within the Context og Article 1A(2) of the 1951 Convention and/or 1967 Protocol relating to the Status of Refugees, frá 23. júlí 2003).

Í leiðbeiningunum, sem varða möguleika á flutningi innanlands þegar einstaklingur hefur flúið heimaríki af ástæðuríkum ótta við ofsóknir, er lagt til grundvallar að mat á því hvort möguleiki sé á að einstaklingur geti flust búferlum til annars svæðis í heimaríki sé tvíþætt. Annars vegar verði að kanna hvort flutningur innanlands sé raunhæft úrræði. Að því er mál kæranda varðar kemur í þessu sambandi einkum til athugunar hvort það svæði sem lagt er til að hann flytjist til sé aðgengilegt á öruggan og löglegan hátt og hvort flutningur hans þangað skapi hættu á að kærandi verði fyrir ofsóknum eða alvarlegum skaða. Hins vegar beri að kanna hvort viðkomandi geti, með hliðsjón af aðstæðum í heimaríki hans, lifað tiltölulega eðlilegu lífi án þess að standa frammi fyrir óþarfa erfiðleikum. Við þann þátt matsins verður m.a. að horfa til persónulegra aðstæðna viðkomandi, t.a.m. félags- og efnahagslegra aðstæðna á því svæði sem lagt er til. Í leiðbeiningunum segir m.a. um síðastnefnt atriði að það sé ósanngjarnt að ætlast til þess að lífsviðurværi einstaklings verði verra en það sem talist geti viðunandi eða að viðkomandi búi við eymd.

Líkt og fram hefur komið kveðst kærandi vera fæddur og uppalinn í Mógadisjú í Suður-Sómalíu. Kærunefnd hefur lagt til grundvallar að kærandi eigi á hættu ofsóknir af hálfu Al-Shabaab í Mógadisjú. Kemur þá til skoðunar hvort raunhæft og sanngjarnt sé að ætlast til þess að kærandi setjist að annars staðar í heimaríki sínu. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur hvatt ríki til að endursenda ekki einstaklinga til Mið-Sómalíu eða suðurhluta landsins, einkum vegna hernaðaraðgerða af hálfu vopnaðra hópa sem þar hafi átt sér stað lengi, sbr. skýrsla stofnunarinnar frá 2016, UNHCR Position on Returns to Southern and Central Somalia (Update I). Í leiðbeiningum stofnunarinnar um mat á innri flutningi í Sómalíu frá 2022 er fjallað um mögulegan innri flutning til ákveðinna svæða í Sómalíu, s.s. Mógadisjú, Puntlands og Sómalílands. Þá sé innri flutningur vegna mögulegra ofsókna af hálfu Al-Shabaab ekki tækur til svæða sem eru að hluta til eða að öllu leyti undir stjórn Al-Shabaab og ef einstaklingur eigi á hættu ofsóknir af hálfu Al-Shabaab þurfi að meta hvort líkur séu á því að samtökin geti haft uppi á aðilanum á hinum nýja stað.

Innri flutningur, m.a. til hina fyrrgreindu svæða, sé þó afar erfiður og almennt sé ekki sanngjarnt að ætlast til þess að einstaklingur setjist að annars staðar í Sómalíu nema ljóst sé að hann muni njóta stuðnings fjölskyldu sinnar eða ættbálkar. Þá sé staða einstaklinga sem tilheyri minnihlutahópum eða minnihlutaættbálkum sérstaklega erfið.

Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann eigi fjölskyldu í Mógadisjú, þ. á m. eiginkonu, móður og systkini sem hann sé í sambandi við. Hinn 21. júní 2023 óskaði kærunefnd eftir frekari upplýsingum um fjölskylduaðstæður kæranda í heimaríki. Í svari kæranda kom fram að auk framangreindra fjölskyldumeðlima ætti hann föður í heimaríki. Þá kvaðst hann eiga frænda sem hann héldi að væri búsettur í Sómalíu. Kærandi sé ekki í sambandi við fjölskyldu sína og hann viti ekki hvar hún sé búsett um þessar mundir. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi búsettur með fjölskyldu sinni í Mógadisjú á uppvaxtarárum sínum, en ekkert í gögnum málsins eða frásögn kæranda bendir til þess að hann hafi fjölskyldutengsl við aðra staði en Mógadisjú. Þá er ættbálkur kæranda að mestu búsettur á svæðinu í kringum Mógadisjú, eða í mið- og suður Sómalíu þar sem ítök og/eða viðvera Al-Shabaab eru hvað mest. Er það því mat kærunefndar að ekki sé hægt að ætla að kærandi njóti stuðnings fjölskyldu eða ættbálkar á öðrum stöðum í heimaríki sínu.

Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt með sanngirni að ætlast til þess að kærandi setjist að annars staðar í Sómalíu, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að skilyrði 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga um flutning innanlands séu ekki uppfyllt og telst kærandi því flóttamaður.

Samantekt

Að öllu framangreindu virtu er fallist á aðalkröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og veita kæranda alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðsamnings um stöðu flóttamanna.

Í ljósi þess að kærunefnd útlendingamála hefur fallist á aðalkröfu kæranda verða aðrar kröfur kæranda ekki teknar til umfjöllunar í máli þessu.


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Kæranda er veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 40. gr. s.l. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The appellant is granted international protection in accordance with Article 37, paragraph 1, and Article 40, paragraph 1, of the Act on Foreigners. The Directorate is instructed to issue her residence permit on the basis of Article 73 of the Act on Foreigners.

 

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta