Nýr Atlas Alþjóðabankans um Heimsmarkmiðin: Framfarir og tækifæri
Fólksfjölgun er örari en uppbygging orkuinnviða í Afríku sunnan Sahara, en þar búa nú fleiri án rafmagns en árið 1990. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýútgefnum „Atlas“ Alþjóðabankans um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna en í honum er að finna tölulegar upplýsingar um hvert og eitt markmiðanna sautján. Atlasinn inniheldur yfir 180 töflur og kort, sem sett eru fram með myndrænum og aðgengilegum hætti. Markmiðið er að auka skilning á Heimsmarkmiðunum og aðstoða stefnumótandi aðila í verkum sínum.
Skýrslan sýnir bæði framfarir og tækifæri. Sem dæmi má nefna að lífslíkur hafa aukist umtalsvert frá árinu 1960, en í sumum þróunarríkjum er þriðjungur allra dauðsfalla ennþá á meðal barna undir fimm ára aldri. Þá sýna ný gögn að einungis 69 prósent fullorðinna einstaklinga í heiminum eiga bankareikning eða hafa aðgang að rafrænni greiðsluþjónustu, en konur, ungmenni, fátækt fólk og ómenntað er ólíklegra til þess að hafa þetta aðgengi.
Fleiri án rafmagns í Afríku nú en árið 1990
Sjöunda Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna fjallar um sjálfbæra orku, en þar segir að tryggja eigi öllum aðgang að öruggri og sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði. Í undirmarkmiði 7.1 segir ennfremur að eigi síðar en árið 2030 verði almennt aðgengi tryggt að nútímalegri og áreiðanlegri orkuþjónustu á viðráðanlegu verði.
Á heimsvísu skortir alls þrjá milljarða manns aðgang að hreinum orkugjöfum við matseld. Þess í stað eru notaðir orkugjafar sem eru skaðlegir heilsu fólks. Þessir orkugjafar teljast engu að síður endurnýjanlegir, en oftast er um að ræða hefðbundna brennslu á lífmassa á borð við timbur, kol og dýraúrgang yfir báli.
Ísland er tekið sem dæmi í skýrslunni um ríki sem notast við nútímalega og endurnýjanlega orkugjafa í formi jarðhitaorku, en þess má geta að Ísland hefur leitt þróunarsamstarf við ýmis ríki í Austur-Afríku á sviði jarðvarma í samvinnu við Alþjóðabankann og Norræna þróunarsjóðinn.