Frumvarp um breytingu á hafnalögum í samráðsgátt
Drög að frumvarpi um breytingu á hafnalögum hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila umsögn er til og með 23. nóvember 2020. Frumvarpið hefur að geyma ákvæði um eldisgjald og rafræna vöktun í höfnum. Þá eru í frumvarpinu innleidd ákvæði EES-gerðar um þjónustu í höfnum og gagnsæi í fjármálum hafna.
Tilgangur með ákvæði um rafræna vöktun í höfnum er að fullnægja skyldum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Á mörgum hafnarsvæðum er myndavélaeftirlit og er algengt að rauntímaefni myndavélanna sé birt á vefsíðum hafna svo að bátaeigendur geti fylgst með bátum sínum og veðurlagi. Skipstjórnarmenn á leið til hafnar hafa einnig notað þessar upplýsingar til að sjá hvar laus pláss við hafnir séu.
Í frumvarpinu er einnig mælt fyrir um svokallað eldisgjald í nýtt ákvæði í 17. gr. hafnalaga um gjöld. Markmiðið er að leysa úr réttaróvissu um gjaldtöku fyrir umskipun, lestun eða losun á eldisfiski í höfnum. Sumar hafnir hafa hingað til byggt gjaldtöku vegna þessarar starfsemi á ákvæði um aflagjald. Um er að ræða þjónustugjald sem hafnir geta mælt fyrir um í gjaldskrám en í ákvæðinu er skýrt hvaða þætti í rekstri hafna gjaldinu er ætlað að standa undir.
Frumvarpi er loks ætlað að innleiða ákvæði Evrópureglugerðar (ESB) 2017/352 um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og um sameiginlegar reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir. Lagðar eru til breytingar að því er varða gjaldtöku hafna, þ.e. að höfnum, sem eru innan samevrópska flutninganetsins, sé skylt að eiga samráð við notendur hafna um gjaldtöku sína. Meðal annars er mælt fyrir um að gjaldskrárákvarðanir hafna innan samevrópska flutninganetsins verði kæranlegar til Samgöngustofu. Þá er lagt til að allar hafnir, sem falla undir gildissvið hafnalaga, verði heimilað að veita umhverfisafslætti. Íslenskar hafnir í samevrópska flutninganetinu eru Faxaflóahafnir/Sundahöfn, Höfnin á Seyðisfirði, Hafnir Fjarðabyggðar/Mjóeyrarhöfn, Reyðarfirði, Höfnin í Vestmannaeyjum og Landeyjahöfn.