Hoppa yfir valmynd
5. maí 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Málefni fólks með heilabilun: Ný aðgerðaáætlun vekur athygli

Svandís Svavarsdóttir og Jón Snædal - myndMynd: Heilbrigðisráðuneyti

Heilbrigðisráðherra kynnti nýverið í ríkisstjórn aðgerðaáætlun í málefnum einstaklinga með heilabilun. Áætlunin var unnin í samræmi við ályktun Alþingis frá árinu 2017 þar sem heilbrigðisráðherra var falið að móta stefnu í málefnum þessa hóps sem fer ört stækkandi. Til þessa hefur engin formleg stefna verið til hér á landi í þessum efnum og því um merk tímamót að ræða. Stefnumótunarvinnan hefur vakið athygli Evrópsku Alzheimersamtakanna (Alzheimer Europe) en aðild að þeim eiga félög alzheimersjúklinga og aðstandenda þeirra frá 39 Evrópuríkjum.

Á næstu áratugum er gert ráð fyrir mikilli fjölgun þeirra sem greinast með heilabilun. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur hvatt þjóðir heims til að setja sér stefnu í þessum málaflokki og samið leiðbeiningar þar að lútandi og hafa margar þjóðir þegar farið að þeirri leiðsögn. Í ályktun Alþingis 2017 var áhersla lögð mótun stefnu sem fæli í sér vitundarvakningu og fræðslu til almennings og aðstandenda, aukna áherslu á öflun tölulegra upplýsinga, markvissar rannsóknir og átak til að auka gæði umönnunar fyrir ört stækkandi sjúklingahóp í samfélaginu. Ákvörðun um að ráðast í vinnu við stefnumótun á þessu sviði var því byggð á þverpólitískri samstöðu og samræmdist enn fremur þeirri ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að gera uppbyggingu öldrunarþjónustu að sérstöku áhersluverkefni sínu.

Aðgerðaáætlun í þjónustu við einstaklinga með heilabilun gildir til ársins 2025. Hún er afrakstur stefnumótunarvinnu sem heilbrigðisráðherra fól Jóni Snædal öldrunarlækni að leiða, í víðtæku samráði við þjónustuveitendur, sjúklingahópinn og aðstandendur fólks með heilabilun. Áætlunin er jafnframt sett fram með hliðsjón af heilbrigðisstefnu til ársins 2030.

Fjallað er um aðgerðaáætlunina í frétt á vef Evrópsku Alzheimersamtakanna (Alzheimer Europe) og hún verður jafnframt til umfjöllunar í tímariti samtakanna sem kemur út í júní þar sem verður ýtarlegt viðtal um efnið við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Á morgun mun Jón Snædal öldrunarlæknir ávarpa alþjóðlegan fund Evrópsku Alzheimersamtakanna og svara fyrirspurnum og liggur fyrir að aðgerðaáætlunin verður þar ofarlega á baugi.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta