Hoppa yfir valmynd
21. október 2020 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Ný heildarlög um fjarskipti efli samkeppnishæfni, neytendavernd og nýsköpun

  - myndHaraldur Jónasson / Hari

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mælti á Alþingi í gær fyrir nýjum heildarlögum um fjarskipti. Um er að ræða heildarendurskoðun á lögum um fjarskipti frá árinu 2003 en gildandi lög þarfnast endurskoðunar vegna mikilla framfara í fjarskiptatækni og -þjónustu á síðustu árum. Lagt er til að ný fjarskiptalög taki gildi 1. janúar 2021.

Markmið frumvarpsins er að tryggja sem best aðgengileg, hagkvæm, skilvirk og örugg fjarskipti hér á landi. Ennfremur að auka vernd og valmöguleika neytenda og stuðla að virkri samkeppni, hagkvæmum fjárfestingum og nýsköpun á fjarskiptamarkaði. 

Í framsöguræðu sinni sagði Sigurður Ingi að frumvarpið væri brýnt og verði það samþykkt muni það „stuðla að aukinni samkeppnishæfni Íslands, aukinni neytendavernd og framþróun á íslenskum fjarskiptamarkaði.“

Með frumvarpinu er innleidd í landsrétt nýleg tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins um samevrópskar reglur um fjarskipti, sem gjarnan er vísað til sem Kóðans (EECC-tilskipunin – e. European Electronic Communications Code Directive). Um er að ræða nýja grunngerð er leysir af hólmi fjórar eldri Evróputilskipanir, sem gildandi íslensk fjarskiptalög byggja einkum á. 

Meginmarkmið Kóðans eru tvíþætt: Annars vegar að koma á innri markaði fyrir fjarskiptanet og -þjónustu sem mun efla útbreiðslu og upptöku neta með mjög mikla flutningsgetu, sjálfbæra samkeppni og auka öryggi fyrir notendur. Hins vegar að tryggja framboð af hágæðaþjónustu í Evrópu sem er öllum aðgengileg á viðráðanlegu verði.

Stuðlað að hagkvæmri uppbyggingu 5G

Ráðherra sagði í framsöguræðu sinni að Kóðanum væri m.a. ætlað að stuðla að hagkvæmri uppbyggingu 5G-kerfa í Evrópu, en þau verða, auk ljósleiðarakerfa, grunnstoð fyrir fjórðu iðnbyltinguna og hlutanetið. „Við Íslendingar höfum verið meðal forysturíkja á síðustu árum í uppbyggingu fjarskiptainnviða og það er fullur vilji til þess að svo verði áfram. Hagkvæm uppbygging og öryggi eru þeir lykilþættir sem stjórnvöld leggja nú áherslu á. 5G-kerfi verða miðtaugakerfi samfélags framtíðar og er í frumvarpinu tekið mið af þeim vaxandi kröfum sem mörg ríki telja sig nú knúin til að gera í því skyni að efla öryggi innviða sinna, þar á meðal 5G farnetsþjónustu,“ sagði ráðherra. 

Um allan heim væri lögð áhersla á áhættugreiningu og að þjónusta megi ekki verða of háð einum birgja eða framleiðanda búnaðar og að gera þurfi sérstakar öryggiskröfur vegna afmarkaðra hluta fjarskiptakerfa.

Með frumvarpinu er lagt til að innleidd verði hér á landi reglugerð um evrópskan hóp eftirlitsaðila á sviði fjarskipta (BEREC) og stofnun honum til stuðnings, með reglugerð. BEREC er samstarfsvettvangur sem falið er ráðgefandi hlutverk og er einkum ætlað að stuðla að samræmdri framkvæmd evrópsks fjarskiptaregluverks. Samhliða undirbúningi frumvarpsins hefur verið unnið að undirbúningi upptöku Kóðans og BEREC-reglugerðar inn í EES-samninginn. 

Öryggi farneta verði tryggt

Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði um öryggishagsmuni vegna uppbyggingar farneta sem byggir á skýrslu og tillögum starfshóps á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis. Ákvæðið var síðan útfært í samráði við utanríkisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og forsætisráðuneyti og tekur m.a. mið af evrópskum ráðleggingum frá því í lok janúar á þessu ári um hvernig standa beri að því að bæta öryggi 5G-farneta. Ráðherra sagði í framsöguræðu að fylgst hafi verið með þróun þessara mála undanfarna mánuði í öðrum ríkjum Evrópu og gefi hún ekki tilefni til breytinga á ákvæðinu.

Lagt er til að ný fjarskiptalög taki gildi í ársbyrjun 2021 og uppfærðar meginefnisreglur á fjarskiptamarkaði öðlist þar með gildi á svipuðum tíma og Kóðinn á meginlandinu. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta