Nýjar tillögur til ráðherra um tekjustofna sveitarfélaga
Tekjustofnanefnd, sem falið var að leggja fram tillögur um að styrkja og breikka tekjustofna sveitarfélaga, leggur til nokkrar tímabundnar ráðstafanir á þessu og næsta ári og síðan tillögur til framtíðar. Gunnar Svavarsson, formaður nefndarinnar, afhenti í dag Ögmundi Jónassyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skýrsluna til frekari úrvinnslu og umfjöllunar á samráðsvettvangi ríkis og sveitarfélaga.
Samstarfssáttmáli ríkisstjórnarinnar kveður á um skipan tekjustofnanefndar sem hafi það hlutverk að vinna tillögur um breikkun og styrkingu tekjustofna sveitarfélaga. Kristján L. Möller, fyrrverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skipaði í samræmi við það nefnd í fyrrasumar en í henni sátu auk fulltrúa ráðherra, fulltrúar allra þingflokka, fjármálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Í formála skýrslunnar kemur fram að nefndin hafi leitast við að varpa ljósi á þróun og horfur í fjármálum sveitarfélaga, afkomu og áhrif fjármálakreppunnar. Fengnir voru nokkrir gestir á fundi nefndarinnar til umræðna um einstaka tekjustofna, virkni þeirra og eðli. Nefndin hélt 12 fundi og framkvæmdahópur sem hittist á milli funda undirbjó verkefni hvers fundar hittist 10 sinnum.
Tímabundnar ráðstafanir
Í áfangaskýrslu sinni í desember 2009 lagði nefndin fram nokkrar tillögur og sjónarmið í því skyni að bæta fjárhagslegt og rekstrarlegt umhverfi sveitarfélaga. Var meðal annars fjallað um útsvar og fasteignagjöld en ekki lagðar til breytingar á þeim sviðum en lögð áhersla á að aukaframlag ríkissjóðs til Jöfnunarsjóðs yrði áfram tryggt og að sveitarfélögin fái að fullu endurgreiddan kostnað vegna hækkunar tryggingagjalds um síðustu áramót.
Þá bendir nefndin á að fjölga mætti flokkum hvað varðar undanþágur sveitarfélaga á greiðslu virðisaukaskatts og að einfalda megi endurgreiðslukerfið. Telur nefndin það geta haft jákvæð áhrif á rekstur sveitarfélaga. Einnig var bent á mikill hluti af vanda sveitarfélaga nú væri vegna skulda og erfiðrar fjármögnunar ekki síst hjá þeim sveitarfélögum sem skulda mikið í erlendum gjaldeyri. Lagt er til að formlegar viðræður hefjist milli Lánasjóðs sveitarfélaga, Sambands íslenskra sveitarfélaga, fjármálaráðuneytis og Seðlabanka um hvernig hægt sé á næstu árum að lækka byrðar vegna endurgreiðslu sveitarfélaga á gengistryggðum lánum.
Bókun fulltrúa sveitarfélaga
Fulltrúar sveitarfélaganna í tekjustofnanefndinni leggja fram bókun til að leggja sérstaka áherslu á að við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2011 verði tryggt áfram aukaframlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga en í fjárlagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir slíku framlagi. Segja fulltrúarnir þetta framlag mikilvægt til að mæta tekjurýrnun og auknum útgjöldum sveitarfélaga ekki síst í félagslegri þjónustu.
Þá er í bókun fulltrúanna lögð áhersla á að endurgreiðsla ríkissjóðs vegna hækkunar tryggingagjalds verði áfram tryggð en með því að fella hana niður séu skattaálögur á sveitarfélögin auknar um tvo milljarða króna. Einnig er talið brýnt að tryggja áfram framlög til húsaleigubóta til að mæta sístækkandi leigumarkaði.
Tillögur til framtíðar
Tillögur tekjustofnanefndar til framtíðar snúst um útsvar, fasteignaskatta, millifærslur eða jöfnun, þjónustutekjur og nýja tekjustofna. Einnig er bent á hagræðingarmöguleika meðal annars með sameiningum eða aukinni samvinnu sveitarfélaga og með markvissri forgangsröðun í opinberri þjónustu.
Tillögur um útsvar eru eftirfarandi:
- Að hámarksútsvar verði hækkað um 0,25 prósentustig árið 2013 og aftur árið 2014, samtals um 0,5 prósentustig.
- Að lágmarksútsvar hækki samsvarandi.
- Að almenn heimild sveitarfélaga til allt að 10% aukaálagningar eða lækkunar á útsvari samkvæmt 5. mgr. 24. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga verði felld brott. Áfram verði þó hægt að leggja á álag vegna sérstakra fjárhagserfiðleika, sbr. 6. mgr. sömu greinar.
Gangi tillögurnar eftir mun fyrri hækkunin hafa í för með sér um fjögurra milljarða króna tekjuaukningu fyrir sveitarfélögin miðað við fullnýtingu frá og með árinu 2014. Það er hins vegar á ábyrgð einstakra sveitarfélaga að ákveða hvort og að hve miklu leyti heimild til aukinnar útsvarsálagningar verður nýtt. Fulltrúar sveitarfélaganna benda á að hækkun hámarksútsvars nýtist sveitarfélögum ekki nema að takmörkuðu leyti nema ríkið lækki tekjuskattinn á móti útsvarshækkun.
Lagðar eru til eftirfarandi breytingar varðandi fasteignaskatt:
- Að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, fjármálaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga skoði kosti og galla þess að farin verði blönduð leið þegar metinn er stofn til álagningar A hluta fasteignaskatta. Annars vegar verði byggt á fasteignamati eins og það er í dag og hins vegar verði byggt á fermetrafjölda íbúðarrýmis eða öðrum atriðum, svo sem brunabótamati eða endurstofnverði sem hafa í för með sér jafnandi áhrif á álagningu fasteignaskatta.
- Nefndin leggur til að við breytingu á lögunum verði það gert skýrt, t.d. í greinargerð, hvaða eignir teljast til A flokks eða C flokks fasteignaskatts, sbr. erindi sem borist hafa nefndinni.
- Að sameiginleg nefnd ríkis og sveitarfélaga fjalli um undanþágur sem tilgreindar eru í 26. gr. laga um skráningu og mat fasteigna, meti hvort falla eigi frá undanþágum og þar með heimila sveitarfélögum að leggja á þær fasteignir eins og aðrar í sveitarfélögum.
Varðandi millifærslur er lagt til að framlög ríkis í millifærslukerfi eða Jöfnunarsjóð verði aukin og til greina komi að sveitarfélögin leggi Jöfnunarsjóði til meira fjármagn og að núverandi fyrirkomulagi sjóðsins verði breytt þannig að tekjuháum sveitarfélögum verði ekki veitt framlög úr sjóðnum.