Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 071/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 71/2021

Þriðjudaginn 16. febrúar 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 8. febrúar 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála innheimtuaðferðir Tryggingastofnunar gagnvart honum.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 8. febrúar 2021.   

II.  Sjónarmið kæranda

Greint er frá því í kæru að kærandi hafi fengið endurhæfingarlífeyri í upphafi árs 2012 og að niðurstaða endurreiknings ársins hafi verið sú að bætur hafi verið ofgreiddar. Bú kæranda hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta í október 2013 og hafi skiptum lokið í október 2015. Skuldin hafi því verið til staðar þegar kröfuhafi hefði átt að leita til skiptastjóra. Tryggingastofnun hafi ekki stofnað bankakröfu vegna skuldarinnar fyrr en 23. apríl 2014, eða tveimur árum eftir að hinar ,,ofgreiddu bætur“ hafi verið greiddar út og fimm mánuðum eftir gjaldþrot. Þetta verði að teljast tómlæti eða vanræksla.

Í júní 2018 hafi Tryggingastofnun farið fram á fjárnám, þ.e. sex árum eftir að bætur hafi verið greiddar og fimm mánuðum eftir gjaldþrot. Kærandi sé þess vegna á vanskilaskrá hjá Creditinfo til júní 2022 sem geri honum ómögulegt að fá lán til íbúðarkaupa. Þetta geti varla talist eðlileg meðferð á skjólstæðingum Tryggingastofnunar, hvað þá eðlilegar innheimtuaðferðir.

Farið sé fram á að mál þetta verði tekið til umfjöllunar, enda hefði í seinasta lagi átt að stofna bankakröfu vegna skuldar árið 2013, enda hafi skuldin verið til staðar fyrir gjaldþrot.

III.  Niðurstaða

Kærðar eru innheimtuaðferðir Tryggingastofnunar ríkisins gagnvart kæranda.

Um endurhæfingarlífeyri er fjallað í lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 14. gr. laganna kemur fram að ákvæði laga um almannatryggingar gilda um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á, meðal annars um kærurétt til úrskurðarnefndar velferðarmálaÍ 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt þeim lögum kveði úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, upp úrskurð í málinu. Sama gildir um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra, sbr. 55. gr. laganna.

Samkvæmt framangreindu ákvæði getur úrskurðarnefnd velferðarmála einungis fjallað um tiltekin ágreiningsefni samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. lög nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, svo og þeim reglugerðum sem settar eru með stoð í lögunum. Ljóst er að ákvarðanir um innheimtuaðgerðir gagnvart kæranda eru ekki teknar á grundvelli laga um almannatryggingar eða laga um félagslega aðstoð. Það ágreiningsefni á því ekki undir úrskurðarnefnd velferðarmála.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta