Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Samstarf Íslands og Færeyja í heilbrigðismálum eflt

Undirritun samnings í Færeyjum
Undirritun samningsins

Samstarf Íslands og Færeyja í heilbrigðismálum hefur verið eflt með nýjum samningi milli Landspítalans í Reykjavík og færeysku landstjórnarinnar.

Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra og Aksel Johannesen, heilbrigðisráðherra Færeyja, voru í gær viðstödd undirritun samnings í Þórshöfn í Færeyjum.

Með samningnum býðst Færeyingum aðgengi að allri þjónustu Landspítalans, samkvæmt gjaldskrá spítalans. Samningurinn tekur á ýmsum öðrum þáttum, svo sem aðstoð við túlkun og gistingu ættingja. Gildistími hans er frá 1. september 2010 til 31. ágúst 2012.

Í ávarpi sem hún flutti við undirritunina í Þórshöfn sagði Álfheiður að samstarf landanna byggði á sterkum grunni. Það samstarf væri enn eflt með undirritun samningsins.

Þá vék ráðherra að lyfjamálum, en í ferð sinni til Færeyja hefur hún kynnt sér þau mál sérstaklega, m.a. með heimsókn í lyfjastofnun Færeyja.

„Margt í lyfjamálum Færeyja vekur aðdáun mína og ég tel Ísland hafa margt af ykkur að læra. Þessi mikilvægi málaflokkur leggst með vaxandi þunga á flestar þjóðir og allar leitast þær við að finna bestu leiðir til lausnar. Ég tel að á þessu sviði geti Ísland og Færeyjar átt aukið og farsælt samstarf, báðum þjóðum í hag.”

Að auki hefur ráðherra í heimsókn sinni til Færeyja kynnt sér starfsemi Landsjúkrahússins í Þórshöfn. Þá fundaði hún með heilbrigðisráðherra Færeyja, Aksel Johannesen. Heimsókninni lýkur í dag.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta